Nú er töluvert liðið frá minni síðustu grein og því ekki seinna vænna en að skrifa þá næstu. Að þessu sinni langar mig að fjalla um mál Vilhjálms Bjarnasonar (hér eftir Vilhjálmur) gegn fyrrverandi stjórn Glitnis Banka hf (hér eftir Glitnir).
Þetta mál hefur valdið töluverðu fjaðrafoki í fjölmiðlum og hafa margir gangrýnt hæstarétt fyrir þennan dóm og telja hann rangan. Vilhjálmur sjálfur eðli máls samkvæmt ósáttur við það að hafa tapað þessu máli og því verið sjálfur duglegur við að gagnrýna dóminn.
Svo við byrjum á því að segja frá því þá var stjórn Glitnis sakfelld í héraðsdómi en sýknuð í hæstarétti. Því um andstæðar niðurstöður að ræða.
Til þess að hafa þessa grein skýra og skilmerkilega tel ég réttast að hefja hana með stuttri reifun á dómnum þannig að allir geti vitað um hvað málið snýst:
Hrd. 29. október, 2009 nr. 228:
Atvik máls voru þau að á hluthafafundi 30. apríl 2007 var ný stjórn kjörin fyrir Glitni. Á fyrsta stjórnarfundi nýkjörinnar stjórnar kom Bjarni Ármannsson (hér eftir Bjarni) forstjóri Glitnis, tilkynnti starfslok sín. Við hann var gerður starfslokasamningur auk þess sem stjórn Glitnis samdi um það við Bjarna að kaupa af tveim félögum í hans eigu alls 234.957.500 hluti í Glitni. Þá var samið um það að Glitnir borgaði Bjarna 29 krónur fyrir hvern hlut í Glitni, en markaðsverð á hlut í Glitni þennan sama dag í Kauphöll Íslands var 26,6 krónur og því um hærri upphæð að ræða en á almennum markaði.
Við þetta var Vilhjálmur ósáttur og taldi um mismunun hluthafa að ræða. Vildi hann með dómi þessum fá það viðurkennt að um slíkt hafi verið að ræða, auk þess fór hann fram á bætur sem hluthafi í Glitni.
Þetta eru málsatvik í mjög stuttu máli, en ætti að skýra út hvert álitaefnið í málinu er.
Þá erum við komin að þeim tímapunkti að geta velt fyrir okkur af hverju dæmir hæstiréttur stjórn Glitnis í hag en ekki Vilhjálmi. Í málinu koma aðallega til álita tvö lagaákvæði en þau eru 76. gr. og 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög auk þess sem Vilhjálmur vísar til óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna. Ef við skoðum þessi tvö ákvæði nánar sem vísað er til í dómnum:
55. gr. laga nr. 2/1995:
“Hlutafélag má ekki gegn endurgjaldi eignast eigin hluti með kaupum eða fá þá að veði ef nafnverð samanlagðra hluta, sem félagið og dótturfélög þess eiga í félaginu, er meira en eða mun verða meira en 10% af hlutafénu. Með skal telja hluti sem þriðji aðili hefur eignast í eigin nafni en fyrir reikning félagsins.”
“Hluti getur félag aðeins eignast samkvæmt heimild hluthafafundar til handa félagsstjórn. Heimildin verður aðeins veitt tímabundið og ekki til lengri tíma en [fimm ára].”
“Í heimildinni skal greina [hámarksfjölda hluta]2) sem félagið má eignast og lægstu og hæstu fjárhæð sem félagið má reiða fram sem endurgjald fyrir hlutina.”
76. gr. laga nr. 2/1995:
“Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.”
“Félagsstjórn og framkvæmdastjóri mega ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.”
Best að skoða þetta nánar því við fyrstu sín þá virðist sem Vilhjálmur hafi mjög margt til síns máls, a.m.k. ef við skoðum 76. gr. laganna. En er það svo?
Nú verð ég að viðurkenna það að ég hallast frekar að röksemdum hæstaréttar fyrir því að sýkna stjórn Glitnis en að hinu, að samþykkja kröfur Vilhjálms. Til þess liggja sterkrök sem hæstiréttur færir fram í dómi sínum.
Samkvæmt 55. gr. laganna má hlutafélag kaupa hlutafé af lögaðila sem á í hlutafélaginu svo fremur sem 1. hlutaféð er minna en 10% af heildar hlutafé hlutafélagsins 2. stjórn hlutafélagsins hafi heimild frá hluthafafundi til þess að gera slíkan gjörning 3. á hluthafa fundi skal ákveða lægstu og hæstu fjárhæð gengisins á hlutafélaginu sem félaginu er leyfilegt að fjárfesta í sjálfum sér.
Var þetta til staðar þegar stjórn Glitnis kaupir þessa hluti af Bjarna? Já svo mun hafa verið. Tilvitnun í dóm hæstaréttar:
“Á aðalfundi Glitnis banka hf. 20. febrúar 2007 var meðal annars samþykkt samhljóða svofelld tillaga stjórnar félagsins: „Aðalfundur Glitnis banka hf. veitir stjórn heimild til þess að kaupa eigin hluti í félaginu eða taka þá að veði. Heimild þessi standi í 18 mánuði og takmarkist við að samanlögð kaup og veðsetning hluta fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupverð hluta skal vera lægst 10% lægra og hæst 10% hærra, en skráð kaup- eða sölugengi í Kauphöll Íslands hf.“
Þannig að eins og tilvitnað brot sýnir okkur, þá hafði stjórn Glitnis heimild samkvæmt hluthafafundi heimild til þess að kaupa hluti sem stóðust fyrrgreind skilyrði. Hlutur Bjarna í Glitni nam alls 2% af heildar hlutum í félaginu og því innan þessara 10% sem lög og heimild kveða á um. Einnig fer sú upphæð sem Bjarna er greidd fyrir hvern hlut ekki upp fyrir þessi 10% sem heimildin leyfir. Þannig að samkvæmt þessu var þetta löglegur gjörningur.
Þá er spurningin sú hvort 76. gr. laganna nái til þessa atviks um mismunun, en við sjáum strax að seinni hluti ákvæðisins á ekki við þar sem þetta brýtur ekki í bá við lög né samþykkt félagsins, þannig að eftir stendur hvort þetta fari í bága við 1. mgr. 76. gr. laganna.
Svo ég vitni beint í dóm hæstaréttar til að svara þessari spurningu:
“Eðli máls samkvæmt felur 55. gr. laga nr. 2/1995 þannig í sér frávik frá fyrirmælum 76. gr. laganna um bann við því að félagsstjórn mismuni hluthöfum, enda getur félag ekki keypt eigin hluti af öðrum en hluthafa, sem eftir framansögðu má gera fyrir hærra eða lægra verð en markaðsverð í skjóli heimildar hluthafafundar.”
Þannig fæ ég ekki betur séð en að þessi gjörningur sé löglegur og ekkert hægt að segja um hann. Ýmsir hafa gagnrýnt hæstarétt eins og ég nefni hér fyrr, en ég bendi þá á 61. gr. stjórnarskrárinnar (lög nr. 33 frá 1944) en þar segir:
“Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum”
Þannig spyr ég þá sem efast um þennan dóm, hefði hæstiréttur átt að brjóta 61. gr. stjskr. og fara eftir einhverju öðru en lögum, t.d. skoðunum? Nei því þá værum við komin út í óöryggi í réttarframkvæmd, sem er annað sem er ekki tími til að fara í hér.
Markmið mitt með þessar grein var það að vekja fólk til umhugsunar um þennan dóm og skapa umræðu um hann og ef fólk er enn á annarri skoðun þá væri mjög gaman að fá að taka þá umræðu og ræða það nánar. Svo má spyrja sig hvort þessi gjörningur var siðferðislega rangur hjá stjórn Glitnis en það er annað mál, sem ég tel þó ekki vera, enda stóðst hann íslensk lög sem eiga að byggja að einhverri siðferði.
Ykkar Julius Caesar!