Ungmennaráð Íþrótta og tómstundaráðs miðbæjar og vesturbæjar í samstarfi við ungmennaráð UNICEF á Íslandi stefna að því að halda tónleika til styrktar Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna miðvikudaginn 19. september 2007 í Listasafni Reykjavíkur. Tónleikarnir bera yfirskriftina: Hausttónleikar ÍTR og UNICEF: Grípum til aðgerða! Sjá nánar á www.myspace.com/gripumtiladgerda1.

Fjölmargar vinsælar hljómsveitir ætla að leggja málefninu lið og spila á tónleikunum. Þær eru: Jeff Who, Reykjavík, Skakkamanage, Grrrrr, Retro Stefson og Soundspell. Tónleikarnir hefjast kl. 18:30 og þeim lýkur 21:30. Húsið opnar kl. 18.00. Aðgangseyrir er 1500 krónur og hægt er að kaupa miða í félagsmiðstöðvum ÍTR, Hinu húsinu og á skrifstofu UNICEF. Tónleikunum verður útvarpað beint af Rás 2.

Með tónleikunum vilja ungmennaráðin bæta ímynd unglinga ásamt því að safna fé fyrir starfsemi UNICEF og vekja fólk til umhugsunar um lífskjör og réttindi barna víðs vegar um heiminn. Mikilvægt er að sýna fram á að ungt fólk geti áorkað miklu ef það rís upp, lætur verkin tala og vinnur saman. Einnig er mikilvægt að ungt fólk eigi færi á að hjálpa öðrum ungmennum víða um heim, sem búa við skertari hlut.

Hinir vinsælu UNICEF-bolir, sem hannaðir eru af Kronkron, verða seldir á staðnum auk þess sem önnur sniðug fjáröflun í höndum ungmennaráðanna fer fram.

Fyrir hönd Ungmennaráð Unicef,
757

Greinin birtist einnig á heimasíðu Unicef Íslands www.unicef.is (ekki stolin)