Ég bara veit ekkert hvert ég á að setja þetta en Tilveran hljómar vel.
Undirritaður fór á sýningu töfra- og skemmtimannsins Curtis Adams í kvöld (föstudaginn sjöunda apríl) sem haldin var í Austurbæjarbíói. Það er óhætt að segja að ég sé á barmi hins samkynhneigða heims eftir þessa sýningu því þessi maður er meistaraverk af guðs náð, hann er ekki bara fjallmyndarlegt kvikindi með gorgeus hár fullt af geli heldur dansar hann af þvílíkri innlifun að Michael Jackson hefði mátt passa sig. Þar að auki var hann óaðfinnanlega klæddur í gallbuxum og einhverjum rándýrum bol og heimsklassaskóm. Þegar stutt var liðið á sýninguna varð myrkur á sviðinu og þegar ljósin kviknuðu stóð kallinn á miðju sviðinu með Ray Ban gleraugu í svakalegu pósi og með stingandi augnarráð gat ég ekki annað en hugsað “ Er hægt að vera svalari??” Þessi maður er idolið mitt, það er ekki flóknara en það.
Curtis hefur víst verið í bransanum frá unga aldri og honum leiðist ekki sviðsljósið það er víst. Maðurinn er troðfullur af sjálfsöryggi og það er ekki bara vegna þess sem ég nefndi hérna áðan, hann er nefnilega með mjög skemmtilegan persónuleika og er mjög “likable” náungi og hress… Allavega meðan hann er að skemmta okkur almúganum, hver veit nema hann sé allt annar persónuleiki off-camera en mér finnst það einhvern veginn ólíklegt.
Húsið opnaði klukkan 7 og sýningin átti að hefjast hálf átta. Þannig ég var frekar sáttur þegar þetta fór að rúlla svona 5 mínútur yfir hálf, bjóst við meiri seinkun. Þá fengum við að sjá myndband á skjáum (sem hengu á hliðarveggjunum) af honum svona dags daglega, undir var slagarinn We Will Rock You með Queen hátt spilaður. Á meðan myndaðist einhvers konar efnafræði-reyk-gufa sem orsakaði það að margir í salnum fóru að hósta, mjög ertandi andskoti. Allavega, þetta var svona pepp myndband og þegar því var lokið varð myrkur og hann birtist á palli sem stóð við hliðina á sviðinu (þetta er ekki Ray Ban mómentið svo að ég taki það fram) og þá hófst FM lag sem ég man ekkert hvað var. Hann hóf síðan að dansa sem aldrei fyrr með hjálp tveggja föngulegra léttklæddra dansmeyja. Nema hvað? Eftir þetta kynnti hann sig og fór að hvetja salinn aðeins með fögnuði og látum. Hóf hann síðan töfrana sína á klassískri sjónhverfingu þar sem ein stelpan lagðist ofan í kistu með hausinn örðum megin og “fæturna” hinum megin. Minnkaði síðan Curtis kistuna að vild en hann má eiga það að þetta var vel gert. Síðan var komið að öðru dansatriði og kallinn er rétt kominn í ham þegar allt stoppar!!! Eftir stendur Curtis einn og yfirgefinn á sviðinu, aww. Heyrist þá ekki kvenrödd í hátalarakerfinu með ultra-bandarískum hreim sem tilkynnir að we are experiencing some technical difficulties. Þar með fengum við 20 mínútna hlé eftir um hálftíma sýningu.
Aðaláherslan var lögð á dans- og töfraatriðin en á milli þess var Curtis að sprella aðeins í áhorfendum og tók m.a. fyrir Steve Irwin og uppskar mikinn hlátur. Sum dansatriðin voru kannski ekki alveg fyrir yngstu kynslóðina en stelpurnar voru á tímum frekar djarfar og stunduðu það mikið að beygja sig niður í mini-pilsunum þegar dansinn stóð sem hæst. Einnig var atriði þar sem önnur þeirra var í hálf-leðurgalla og með allrosalega svipu sem hún sló út í loftið “fhú-tsi”, hljóðið var magnað. Það voru samt tvö atriði sem stóðu upp úr. Annað var þegar Curtis tók blað og krumpaði því saman þannig úr því myndaðist rós. Þegar blaðarósin lá í höndinni á honum færði hann hina höndina og hélt henni svona 15 cm yfir rósinni og hreyfði fingurna hratt. Lyftist þá rósin og hékk í lausu lofti en hann færði þá hendurnar frá og viti menn, hún hékk enn. Næst tók hann utan um rósina og það næsta sem ég veit er að hún er orðin alvöru. Það var töff.
Hitt atriðið var þannig að hann var með 6 byssukúlur sem hann bað nokkra áhorfendur að merkja með upphafsstöfum eða einhverju álíka. Hann setti síðan byssukúlur áhorfenda inn í byssuhylki en setti alltaf ómerkta kúlu frá sér á milli áhorfendakúlanna. Þegar allar kúlurnar voru komnar í stað var hylkið sett inn í hríðskotabyssu (M4 Carbine, eitthvað þannig) og Curtis stillti sér upp. Síðan var “skotið” á hann úr byssunni en þegar betur var að gáð hengu 6 kúlur í loftinu rétt eins og gerðist í The Matrix! Þær héngu þarna í lausu lofti mitt á milli Curtis og mannsins sem skaut að honum. Líklega einhver ljósabrella an fjandinn hafi það hvað þetta var flott. Síðan duttu kúlurnar í dall sem var fyrir neðan (alveg eins og í Matrix) og að sjálfsögðu voru þetta hinar vel merktu áhorendakúlur.
Sýningin var mjög skemmtileg ef maður spyr um það og hann kann á þetta drengurinn. Eins og ég hafði nú gaman að horfa á hann dansa þá mætti hann alveg fækka dansatriðunum um eitt, kannski tvö.. þrjú ætti að duga. Tónlistin var eins og áður sagði hressandi, bæði var Fm-tónlist en hann tróð einnig nokkrum AC/DC lögum inn á milli sem var gott. Ég held að það hafi nú verið sáttir við þetta sjóv hjá honum, helvíti öflugt. Skellum á hann 4 stjörnum af 5 fyrir kvöldið. Fór einhver hérna eða?
P.S. Eitt atriði gekk út á það að það var kona úr salnum sem átti að ímynda sér brúðkaupsferð með Curtis. Hana dreymdi um Þýskaland og í þau tvö-þrjú skipti sem Þýskaland var nefnt í þessu atriði var alltaf einhver kall sem gerði nazistakverðjuna, what's up with that? Við erum ekki bara að tala um smá rétt, við erum að tala um Heil Hitler!. Án þess að fara eitthvað lengra út í það fór þetta óendanlega í taugarnar á mér.