Ég þurfti að skrifa ritun í samfélagsfr. vali um mína fermingu núna í vikunni og datt í hug að senda þetta hér inn svo að fólk geti fræðst smávegis um það sem er gert í borgarlegri fermingu ef það hefur áhuga.

Ég fermdist 17. apríl 2005 kl. 11:00 í Háskólabíói. Hér kemur smávegis um það sem var gert þar og svo um fermingaveisluna mína sem var haldin heima. Fyrir ferminguna mættu allir krakkarnir í fermingarfræðslu í Kvennaskólanum sem var mjög áhugavert. Ég fermdist borgarlega. :)

Ég man ekki klukkan hvað ég vaknaði á fermingardaginn en ég var a.m.k. tilbúin kl. 10:00 og þá héldum við, fjölskyldan, af stað útí Háskólabíó þar sem við vorum mætt 10:30. Öll fermingarbörnin þurftu að bíða fyrir utan salinn og nöfn voru lesin upp til að það væri á hreinu að allir væru mættir. Klukkan 11:00 var labbað inní sal og það var spilað undir á trompet, settust svo allir í sín sæti og hélt Felix Bergsson leikari ræðu, og svo hélt Halldóra Geirharðsdóttir leikkona líka skemmtilega ræðu um lífið eftir fermingu. Einnig voru nokkur atriði þar sem fermingarbörn sungu, lásu ljóð eða spiluðu lög með sinni hljómsveit.
Þegar ræðumenn og söngvarar höfðu lokið sér af fóru allir hópar á svið (þriðjudags, fimmtudags og föstudagshóparnir) í röð og hvert og eitt fermingarbarn fékk viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. Var svo tekin mynd af öllum og ég held að við höfum verið meira en 100 samankomin að fermast í einu þann dag. Var það nýtt met í þátttöku í borgarlegri fermingu.
Eftir athöfnina fórum við fjölskyldan út að borða hádegismat á Ítalíu og svo beint í fermingarmyndatöku eftir það. Þegar því var lokið fórum við heim að klára að undirbúa allt fyrir veisluna og komu gestir kl. fjögur. Það komu margir og var mjög gaman. Pabbi hélt m.a. ræðu og ég var látin tala til gestanna. Fengu sér svo allir að borða og þegar veislunni var lokið tók ég upp gjafirnar með fjölskyldunni sem var skemmtilegt og ég fékk fullt af nytsamlegum gjöfum.

Fannst mér mjög gaman að fermast borgarlega og hefði ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi. Þetta var skemmtileg lífsreynsla og fékk ég líka að læra mikið í fermingarfræðslunni sem var bæði spennandi og fjölbreytt. :)


Eru einhverjir fleiri hérna sem hafa fermst borgarlega eða eiga það eftir ? Því að þótt að ég persónulega trúi ekki á jesú krist þá trúi ég samt á guð og vildi þess vegna ekki vera að fermast kristnilega bara til að fermast.
——