Núðlur með sjóara
Á laugardaginn(í gær) fór ég niðrí bæ, ég hitti fyrir fullkomna tilviljun Benna félaga minn og góðvin hans, Arnar, og buðu þeir mér í kaffi og rettu. Ég tillti mér í garðinn þeirra, sem þeir hafa verið að vinna í og gera flottan, og fór að tala, eins og ég geri oft, látlaust, án þess að þagna. Oft þegar ég hef verið einn í langan tíma er ég búin að hugsa svo mikið sem ég þarf að segja, að þegar ég hitti fólk drekki ég því í pælingunum mínum. Ég sagði þeim frá manntafl, og eins og oft þegar sú stórgóða bók bar á góma fór okkur að klægja í skákfingurna. Áður en langt var um liðið röltum við inná Grand Rokk, pöntuðum við barinn, og settumst svo við völlinn(skákborðið). Eins og svo oft þegar tvær hausar vinna við það að leysa þá stærðfræðigátu sem skákin er, dregur að fleiri menn, skyndilega var kominn hópur í hringum borðið af körlum að skeggræða. Þetta er að stærstum hluta okkar sport, að stjórna hermönnum í fullkomnu jafnvægi heilabrota, karlasport. Eftir að hafa teflt, og fylgst með góðum mönnum fara og koma, var ég búin að drekka of mikið, og var farin að tapa fyrir mér verri mönnum. Ég gaf borðið frá mér og fór að spjalla við fólkið í hringum mig. Fyrr um kvöldið hafði sest hjá okkur mjóleit kona, kannski 40-45 ára gömul, sem greinilega hafði tekið árin inná sig fyrirfram, hún leit út fyrir að vera mun eldri en hún var. Með hvella rödd og sterka framkomu, kinnfiskasogin og með þunnt, stutt svart hár sem stóð soldið útí loftið. Að tala við hana, og að hlusta á hana hugsa, ótrúleg kona. Ég man ekki fullt nafn, hún sagðist heita Þórhildur, kölluð tóta, vera blaðamaður, og greinilegt var á framkomu hennar að hún ætlaði aldrei að láta karlmann, sem ekki átti hana skilið, fara illa með sig aftur. Afsíðis okkur stóð maður á svipuðum aldrei, plómulaga, brosmildur og hlægjandi, en hann hafði sig ekki mikið frammi, heldur hélt bara á jakkanum hennar og hlustaði á hana tala. Hann fór og sótti meiri bjór handa henni þegar hann kláraðist, og hlustaði svo bara og hafði gaman af. Eitthvað hafði búsið farið í mig, og þegar hann greip öðru hvoru frammí fyrir þessu brjálæðislega samtali, sem þó var svo stórskemmtilegt, sem fór okkar tótu á milli, tók ég því einhverra hluta vegna sem móðgun, og sagði honum að pilla sér, ég væri ég að tala við merkilega konu, og að hann gæti alltaf talað við hana, en ég hefði hana bara í kvöld. Hann hló bara og rölti á annað borð, settist þar og fór að spjalla við annað fólk. Við töluðum saman ég og tóta í örugglega klukkustund , eða hálftíma meir, þegar hún ákvað að þetta væri komið nóg, skrifaði símanúmerið sitt og nafn á miða, afþví eitthvað hafði síminn minn fengið að kenna á kæruleysinu í mér. Þessum miða týndi ég að sjálfsögðu, eins og flestu því sem ég fæ á milli handanna .
Ég ákvað samt að elta hana, afþví hún hafði sagt mér að koma seinna um kvöldið heim til sín, þar sagði hún að merkilegt fólk ætlaði að drekka vín og spjalla saman. Og hún tók það margoft fram að hún ætti mat handa mér, hún gæti alveg gefið mér að borða sko. Það að mönna var mér ekki ofarlega í huga, ég vildi bara spjalla sko, allavega á meðan einhver er að hlusta.
Hún settist svo uppí bíl með karlinum þegar ég var búin að elta hana í soldinn tíma og spjalla, ég lofaði að hringa seinna um kvöldið, sem ég að sjálfsögðu gerði ekki afþví miðinn var horfinn að eilífu, og svo tóku aðrir merkari hlutir við seinna um kvöldið. Ég man ekki alveg hvernig það gerðist, en á einhverjum tímapunkti, þegar ég stóð einn og yfirgefinn á Laugarveginum og var að horfa á sætar stelpur, kom til máls við mig eldri maður, og fór að spjalla, hann var bersýnilega mjög drukkinn, og byrjaði að röfla við einhverjar sætar stelpur sem sátu á bekk að þær væru sætar, og hvort þær vildu ekki reyna aðeins við mig. Ég dró hann í burtu og fór að tala við hann, ný eyru til að hlusta, fullt af hlutum til að segja. Eftir stutta stund leggur hann til að við förum inná einn bar, ég bjóði honum uppá öl, og svo förum við heim til hans, því þar eigi hann eina bokku.
Þegar við vorum að labba til hans á Frakkarstíginn tók ég eftir því að hann lyfti öllum bjórdósum og flöskum sem hann sá og hristi þær, og ef eitthvað var í sturtaði hann því í glasið og hélt áfram að drekka…. þetta þótti mér í meira lagi furðulegt.
Þegar við komum inn til hans, í litla, draslaralega, en þó samt undarlega vel skipulagða íbúðina hans héldum við áfram að drekka. Ég hafði logið því að honum, eins og ég geri svo oft undir áhrifum, að ég væri prestur, og talaði lengi vel út frá því um hitt og þetta. Svo fór hann að tala. Hann sagðist vera búin að drekka núna samfellt í 3.vikur, án þess að missa út dag, og væri ekkert búin að borða undanfarna 2 daga, afþví þá þyrfti hann meira áfengi til þess að vera fullur, og því tímdi hann ekki. Ég fór smám saman að taka eftir því að hann var nánös, þvílík nánös. Eftir að hafa rennt augunum nokkrum sinnum yfir íbúðina hans ákvað ég að hér væri maður sem aldrei hennti neinu, svona bara ef…. fattiði. Ég gæti komið með langar lýsingar á glösum fullum af einakrónum og bréfaklemmum, gleraugu útum allt, pennar… og svo framvegis, en því ætla ég að sleppa. Þið verðið bara að gera ykkur í hugarlund hversu nískur einn maður getur orðið… án þess þó í rauninni að eiga neitt. Svo fór hann, í ölvímu, að draga fram gamlar myndir af sér, hann á fermingunni sinni, og svo hann 22 ára. Virkilega myndarlegur ungur maður. Árin höfðu greinilega farið hann ómjúkum höndum. Hann var á að giska 170 á hæð, samangenginn, grátt hárið var úfið og hann var soldið bústinn, en hann var kraftmikill, þrátt fyrir að hafa ekki étið í tvo daga, bæði á sál og líkama. Síðar fór hann að tala mikið um hvað þessi 22 ára hann hefði farið illa með konur, sofið hjá þeim, sært þær og svívirt með gjörðum, framhjáhöldum og lygum. Ég fylgdist með honum byrja að opinbera sig. Ég spurði hvort það gæti ekki verið afþví hann vildi ekki að þær særðu hann, og því kæmi hann svona fram við þær. Hann velti þessum orðum fyrir sér, og sagði svo að þetta væri örugglega hárrétt hjá mér. Við töluðum og töluðum, og ég tók upp þann sið að steinþegja þegar hann opnaði á sér munninn, ég var kominn til þess að hlusta á þennan mann, sem ekki nógum margir höfðu hlustað á uppá síðkastið.
Þegar hann fór svo að sýna mér myndir af börnunum sínum, 14 ára stelpu og 15 ára strák mýktist hann enn meira, við vorum loksins orðnir vinir, og ég fann meira og meira fyrir því, hvað þessi maður mér æðri í árum og hugsunum, vildi opna sig og tala við mig, og treysti mér, meira og meira með tímanum, og gaf mig sér fullkomnlega á vald fyrir rest. “Þau tala ekkert við pabba sinn, þau vita að hann er helvítis bitta og auli. Strákurinn kemur stundum til mín og biður mig um peninga fyrir bíó og svona, og pabbi verður alltof oft reiður útí hann, afþví ég vil bara eyða öllu sem ég á í vín. Ég er flak, brennandi flak”. Og djöfull fór það í mig, að stór hluti af nóttinni fór bara í að segja honum að hann væri enginn auli, hann gæti þetta alveg ef hann vildi og hætti að drekka svona rosalega mikið, það væri byrjunin á bættra lífi. Ég hlustaði lengi vel á hann, og þagði, og stundum langaði mig til þess að gráta, og hann grét. Eftir nokkra tíma fór ég svo að tala, og ég þagnaði ekki fyrren hann var minn.
Ég sagði honum söguna af pabba, og hvernig hann reddaði sínum málum stórkostlega með einföldum hugarfarsbreytingum, og svo sagði ég margt meira. Ég gerði þessum gamla manni vonandi að hluta til ljóst að hann væri sinn eigin guð, og enginn hefði stjórn á því hvernig honum liði, nema hann sjálfur. Hann hlustaði og hlustaði, og spurði mig alltaf öðru hvort ég væri ekki að ljúga því að ég væri 21 eins árs, honum liði eins og hann væri að tala við mun eldri mann. Ég útskýrði það haganlega með því að við prestarnir ættum nú einusinni það til að vera svo djöfull háflegi alltaf, að hlutir sem annað fólk hugsar, í öðrum orðum, verður fyrirtaks viska ef maður notar bara rétt orð til þess að lýsa því.
Hann var sjóari, sagðist vera fullhæfur í vinnu, og það sá ég alveg á honum, hann hafði þetta ennþá í sér, hann skorti bara kjarkinn og hugrekkið til þess að þjóna sjálfum sér, en ekki þeim stórskrítna drykkjufélaga og pínara sem Bakkus getur verið ef maður leyfir honum það. Einnig tók hann það fram að hann gæti vel eldað, hefði verið kokkur á skipi í mörg ár,og við fórum að skiptast á sjóarasögum, það er alltaf gaman að tala við gamla sjóara, þeir hafa frá svo fáránlega mörgu að segja, og hafa séð svo mikið af furðulegum hlutum, að ekki er hægt að þreytast á því að hlusta á þá. Mín ævintýr á hafinu bláa komust ekki í hálfkvisti við það sem þessi maður hefur upplifað.
Ég fór að beina samtalinu meira á þá braut hvort hann vildi ekki hætta þessu rugli, hætta að drekka, hætta, og byrja á einhverju öðru. Hann sagðist vilja það, en kom svo með langa ræðu um hvað hann væri mikill djöfuls aumingi, og að hann yrði eflaust svoli þartil hann dytti niður dauður. Ég þurti að byggja hann soldið upp, hann var niðurbrotinn, algjörlega. Þegar ég sá að það kom spenningur í hann, og hann fór að tala hratt og öruggar, einnig eftir því sem meira rann af honum áfengisvíman, og víma mun betri, hrein lífsgleði, fór að þjóta um æðar hans. Ég fór að tala um hvort hann þyrfti ekki bara að koma sér í vinnu, eða “Drulla sér bara útá sjó” eins og við orðuðum það allt kvöldið, og því var hann sammála…. þessu nennti hann ekki lengur. “Um leið og ég er kominn útá sjó, þá er þetta í lagi, þá er ruglið einhverstaðar annarstaðar”
“En þú þarft samt að taka á ruglinu, það þýðir ekkert að flýja útá sjó og horfast ekki í augu við sannleikann þegar þú kemur í land.”
“Það er allveg rétt”
Hann fór að spyrja hvort ég gæti ekki reddað honum plássi á bát, og ég sagðist ætla að gera allt sem ég gæti fyrir hann, en ég gæti bara beint honum á rétta braut, sjálfur yrði hann að ganga. Við töluðum mikið, mjög mikið, meira en ég nenni að telja upp, um þessa pælingu, að hann færi að vinna, og hún gerði honum mjög gott, mjög gott.
Eftir því sem rann af okkur varð ég helsvangur, tómur mallinn fór að gaula og ég stakk uppá því að við færum og fengum okkur að borða….. en hann var ekki alveg á þeim brókunum. Við höfðum nefnilega öðru hvoru rætt um það, og þó var það yfirleitt hann sem stakk uppá því, að fara í ríkið þegar það opnaði, kl 11, svo við gætum nú dottið almennilega í það aftur. Ég sagði að það væri miklu sniðugra að fá okkur að éta, leggja okkur, og drekka svo, því þá liði okkur betur og við hefðum meira þol. Ég hafði samt enga löngun til þess að ganga á eftir þessum orðum, því ég var svangur og þreyttur, og get ekki drukkið vín ef ég er mjög þunnur, ég þarf allavega að láta líða viku, helst mun meira á milli þess sem ég sulla. Ég dró hann tuðandi á eftir mér útí búð, þarsem ég týndi í körfu hakk, spagettí, lauk, paprikku og allt það sem þarf til þess að búa til gott spakk og hagettí. Ég áttaði mig líka strax á því að hann var ekki mikill spagettímaður, hann kallaði þetta alltaf “Núðluruslið þarna”…. ég áttaði mig líka á því að þarna var maður sem þurfti sitt kjöt. Ég borgaði fyrir matinn…. ég…. hehe… fyndið….. ég gaf honum líka pakka af sígarettum, hann reykir Winston 100’s afþví þá færðu sko meira tóbak, vildi hann meina, samt reykti hann aldrei alla rettuna, yfirleitt bara hálfa og þá fór hann að hósta. Fyndinn karl. Þegar við komum heim fórum við að elda, og þá var kátt á hjalla, við hlustuðum á harmonikkumússík, og Ellý Vilhjálms, stóðum yfir pottunum eins og karlmenn elda einatt, hátt og miklu salti. Við settumst svo niður með mjólkurglas og fórum að borða. Ég fékk mér bara spagettí, bæði afþví hann vildi það ekki, og svo er ég víst grasæta. Það sagði ég honum þó allsekki, hann hefði hlegið af mér og sagt að fara í kjól, sjómenn eru stundum soldið erfiðir í umburðarlyndi við öðruvísi fólk. Eftir að hafa étið ekki nema nokkra bita af kjöti fór hann inná klósetti, ég veit ekki hvort hann var að æla eða ekki afþví allan tímann var tónlistin hátt stillt, og vatnið rann inná WC hjá honum allan tímann. Hann kom útaf því, náfölur, sagðist alltaf verða svona eftir að hafa ekki borðað í nokkra daga, tók fötu, fór inní svefnherbergi, en bjó samt fyrst um mig í sófanum, með sænginni sinni(sem mér fannst fáránlega fallega gert) og fór svo að sofa. Ég sat andvaka eftir á, einn með hugsunum mínum sem voru svakalega margar. Ég pældi og pældi, vafði hverja rettuna á fætur annarri og drakk appelsínið mitt stíft. Eftir u.þ.b 3-4 tíma kom hann aftur fram á nærbrókunum, settist við eldhúsborðið, og byrjaði að skófla í sig hakki, og smá svona “Núðlurusl með”.
“Þær eru ágætar þessar núðlur.” Sagði hann og stóð upp.
“Já, en þú skalt samt frekar kalla þetta spagettí, þetta heitir það víst.”
“Nei, það geri ég ekki, það er ekkert hægt að kenna gömlu hundi að sitja.” Ég stóð upp, fletti af mér sænginni og fór að klæða mig í um leið og hann sagði þetta.
“Ertu að fara?” spurði hann soldið hissa.
“Ef þú getur ekki breytt lífi þínu á eins lítinn hátt og það er að kalla spagettí spagettí en ekki núðlur, þá er tilgangslaust fyrir mig að tala mikið lengur við þig.”
“Nei, láttu ekki svona”
“Nei, látt þú ekki svona” svaraði ég.
“Jæja þá, ég kalla þetta þá spagettí.” Svo kom blótmuldur og ég hló alveg helling inní mér.
Hann fór að sofa og það gerði ég líka. Ég vaknaði á undan honum, klæddi mig í, týndi saman dótið mitt í poka og borðaði restina af “núðlunum.” Svo hringdi ég í SÁÁ, fékk samband við Vog, sagði þeim að ég væri með brunarúst í höndunum, mann sem þyrfti og vildi fá hjálp með að hætta að drekka, sagði þá sögu sem þú ert búin að lesa og svo kom bara þögn í símann.
Hann fór vonandi í dag til meðferðarfulltrúa, og í viðtal hjá lækni, ráðgjafa, því ef ekki þá verð ég mjög sár útí hann. Hann ætlaði samt ekki í afvötnun fyrren hann kæmi heim af sjónum, og það fannst mér ekkert vitlaust. Nefnilega flugklár gamall kall þarna á ferð, sem hefur leyft áfenginu að stúta gjörsamlega öllu í hringum sig, hann var, þósvo ég segði honum allt, allt annað, þá var hann eins og hann sagði sjálfur; “Ég er bara flak.”
Svo sagði ég honum líka að drullast til þess að hringja í krakkana sína edrú, bjóða þeim í bíó og biðjast svo afsökunnar á því hvernig hann hefði komið fram við þau. “Þau vilja bara pabba sem drekkur ekki,og á meðan þú getur fært þeim það þá bera þau virðingu fyrir þér, trúðu mér, ég hef verið í þeirra sporum, en blessunarlega ekki þínum.”
Við töluðum margt meira, ég sagði rosalega mikið af hlutum sem gáfu honum margt, hann gaf mér líka alveg helling, eflaust ekkert minna, þósvo hann viti eflaust ekki neitt af því. Svona vil ég ekki verða. Aldrei. Aldrei. Aldrei.
Ég fór og stjakaði við honum sofandi, lét hann fá miða með nafninu mínu og símanúmeri, og sagði honum í leiðinni að ég væri enginn prestur. Hann var milli svefns og vöku, en ég vona að hann hafi skilið hvað ég var að segja við hann. Ekki bara þetta, heldur allt. Svo rölti ég bara útúr litlu íbúðinni hans, sem angaði að steiktum lauk og hakki, útí skýjaðan dag í júní, og skildi eftir mig aðeins hamingjusamari, vona ég, því annars var þetta tóm tímaeyðsla, mann með eitthvað eftir til að lifa fyrir.
Ég er orðinn þreyttur á að skrifa, ég hef ekki hætt síðan ég byrjaði og kaffið mitt er orðið kalt, en ég bara varð að koma þessu frá mér á meðan ég man þetta svona vel, ég vil muna þessar stundir með þessum gamla og góða sjóara, því ég mun ekki oft upplifa svona rússíbana, ekki svona. En ég væri alveg til í þetta aftur, því mér líður vel að hafa hjálpað til. Þetta mun ekki breyta heiminum, það sem ég gerði er bara þögull þakklætirvottur frá mér til einhvers og einhverra sem sköpuðu mig og gáfu mér allt sem ég á. Ég veit að ég mun deyja og hann líka, og þessi frásögn sem þú ert búinn að vera lesa mun gleymast. Ég er allavega að gera mitt allra allra besta, og ef þú gerðir það líka, á þinn hátt með þínu tötsi, þá yrði heimurinn, og nú er ég að tala um dropa í rosalega rosalega stórt haf, en þá yrði hann pínkuponsu betri staður til að lifa á. Það þarf ekkert mikið. Bara hlusta og tala.
Ég ætla að koppí peista þennan texta á bloggið mitt, pöbblissa og fara að sofa, rotast á koddanum mínum, það er planið. Ef þér fannst þetta skemmtilegt, segðu mér þá frá því, en ef þú ætlar að vera með leiðindi, slepptu því þá, það er algjör óþarfi. Ég er á engann hátt að reyna að upphefja sjálfan mig, ég vil bara fá ykkur til þess að hugsa aðeins eins og ég, afþví mér finnst það svo rosalega gaman.
Góða nótt krakkar, sofiði vel, það er víst mikilvægt.
(Séra)Bragi Páll Sigurðarson
Sjóaravinur mikill.