Nú er ég á leiðinni í stúdentspróf í frönsku í fyrramálið eins og gengur. Því miður vill samt þannig til að ég hef ekki enn ómakað mig við það að dýfa nefinu ofan í kennslubækurnar. Eftir því sem nær dregur prófinu verð ég máttlausari í olnbogabótunum og löngunin til þess að læra verður minni. Eins og flestir sem hafa verið í þessari aðstöðu þekkja þá gerir maður yfirleitt einmitt allt það sem maður ætti ekki að gera frekar en að fara að læra.
Nú þar sem ég hef lokið að rekja tildrög þessarar greinar er kannski rétt að snúa sér að meginviðfangsefninu: Greininni sjálfri. Fyrst vil ég samt taka það fram að ég harma að þurfa að spreða þessum texta á yfiráhugamálið Tilvera, þangað sem engin kemur, en því miður fann ég engan hæfilegri stað.
Fanta er undarlegur drykkur. Í grunninn er hann kolsýrt sykurvatn blandað ýmsum ávanabindandi efnum, líkt og aðrir drykkir af sama tagi. Til eru margar sortir af Fanta, með ýmsum viðbættum bragðefnum. Í fljótu bragði er vandséð hvað sameinar þessar sortir að öðru leiti nema nafnið. Til að mynda hef ég nú í höndunum þann undursamlega drykk Fanta Lemon en hann á fátt sameiginlegt með illum tvíburabróðir sínum Fanta Orange, ef ekki væri nema það að vera andstæða hans í öllu. Fanta Lemon hefur löngum verið afskiptur af framleiðanda sínum Vífilfelli. Á meðan varla er þverfótað fyrir Fanta Orange á ólíklegustu stöðum þarf talsverða leitarhæfileika til þess að geta þefað hinn drykkinn uppi. Jafnfram virðist svo vera sem að Fanta Lemon sé ekki framleiddur nema í hálfs líters ílátum, eins og neytendur hans séu aðeins einstæðir piparsveinar. Það er afar óhentugt fyrirkomulag og hefur eflaust gert margan ilvonandi aðdáandann honum fráhverfan strax í upphafi.
Þannig er í pottinn búið að fjölmargar aðrar bragðtegundir fanta eru framleiddar víða um lönd. Á Íslandi hef ég af og til séð einhvern grænan viðbjóð á stangli auk hinna fyrrnefndra tveggja tegunda, Orange og Lemon. Raunar hef ég ekki rekið augun í Fanta Lemon nein staðar annarstaðar á ferðum mínum um heimsbyggðina. Að vísu hef af og til orðið var við eitthvað sem tjallinn kallar Icy Lemon, en ég legg það ekki við saman við hina eðlu íslensku útgáfu.
Fanta er selt í 180 löndum og má segja að útgáfurnar séu jafnmargar. Engin er þó jafn uppfinningasamur og Japaninn þegar kemur að Fantategundum (frekar en í öðru). Meðal tegunda sem fást í Japan eru t.d. Grape, Melon, Melon Soda, Tropical Fruits, Plum, Club Soda, Apple, Icy Lemon, Golden Grape, Fruit Punch, Pine Fruits, Apple Mix, Strawberry, Pineapple, Peach, Tropical punch, Green Apple, Muskat Grape, Guarana, Grapefruit, Squash Punch, Clear Pine, Golden Pineapple, Green Muskat Grape, Clear Peach, Southern Islands Fruits, Refreshing Apple, Clear Lychee, Simply Berry, Funky Lemon C, La France, Fruity Grapefruit, White Peach, Golden Apple, Sweety, Refreshing Peach, Lychee, White Strawberry, WinterStrawberry, Winter Apple, Fruity Meoln, Sweet Grapefruit, Vitamin C Squash, Amino Cider, Satsuma Orange, Apricot og svona mætti lengi telja (eða var þetta kannski allt?). Væntalega eru nöfnin samt á japönsku. Ég er ekki að segja að ég hafi ekki prófað þetta allt en ég væri mest til í að prófa Green Muskat Grape.
Margar varíósjónir til viðbótar má finna víðsvegar um heiminn og eru Evrópubúar raunar engir eftirbátar japananna þegar kemur að frumleika. Til dæmis má nefna að hinn forni rúmenski þjóðdrykkur Socată, gerður úr blómum Elderberryrunnans, fékk endurnýjun lífdaga hér um árið í höndum The Romanian Coca Cola Company undir nafninu Fanta Shokata sem Frónbúinn fékk að smakka nú á dögun við ágætis undirtektir.
Raunar er Evrópska útgáfan yfirhöfuð talin betra afbrigði en sú Norður-Amríska. Munurinn felst í því að Evrópskir framleiðendur telja það seint eftir sér að bæta raunverulegum djús út í Fantaið sitt en það er þeim Amrísku mein illa við. Þeir vilja nota einhver gervisykursbragðduft sem sver sig í ætt við MSG (ekki að það sé svo slæmt sosum).
Þessi staðreynd ætti þó ekki að koma sögufróðum mönnum á óvart enda Fanta evrópst að upplagi. Nánar tiltekið er fæðingarland Fantasins hið forna Þriðja Ríki sem er nú búið að brjóta upp í fáeins smærri lönd. The Coca Cola company hefur lengi verið heimsvaldasinnað og var aðalvara þess, The Enjoy Coca Cola, orðin útbreidd um heiminn strax fyrir Kreppu. Stórar sálarlausar fyrirtækjasamsteypur fara sjaldan í manngreinaálit þegar kemur að viðskiptum. Þess vegna urðu CocaCola menn að vera sniðugir þegar tvö helstu viðskiptalönd þeirra voru skyndilega komin í hár saman í upphafi fimmta áratugarins. Skyndilega var loku fyrir það skotu að flytja Kóksýróp til Þýskalands (áttu tundurtufl þar einhvern hlut að máli). Tóku menn þá til þess bragðs að búa til nýja nasista útgáfu af gosdrykknum. Nú er uppskriftin að CocaCola leyndó svo fenginn var náungi búsettur í Þýskalandi, Max Keith (sem þrátt fyrir nafnið var ekki gyðingur), og hann bjó til nýjan drykk sem kenndur var Fantasíuna, þ.e. Fanta, líklega þar sem neysla drykksins höfðaði til ímyndanraflsins. Til þess notaði hann aðallega afgangsafurðir úr ostavinnslu og sultugerð. Þekkta vakti skiljanlega mikla lukku.
Svo mikla lukku raunar að seinna, eftir að Þjóðverjar höfðu verið beygðir í duftið af hinum dyggðugu sovésku dátum, tók The Internatinal Coca Cola Company sig til og tók drykkinn á sína armar. Það var upphafið að sigurgöngu drykksins um heiminn sem ekki sér enn fyrir endann á (sbr. nýlegar auglýsingar um Bamboocha, sem ku vera eins og að borða heiminn með stórri skeið).
Ég var að spöglera hvort ég ætti að ræða þetta mál eitthvað nánar en komst að þeirri niðurstöðu að gera það ekki. Ég ætla bara að nota tækifærið í lokin og hvetja fólk eindregið til þess að hlusta á bublurnar!