Ég var smá óviss um hvert ég ætti að setja þessa grein þar sem það er ekkert íslensku áhugamál, en mér fannst hún passa best hérna.

Ég ætla að ræða aðeins og um ábyrgð sem orð og hugtak. Fyrst skulum við aðeins fjalla um hvernig orðið ábyrgð er notað því ég vil nefnilega vekja athygli á því að orðið er oftast notað á neikvæðan hátt í íslensku.

Dæmi:
- Þú berð ábyrgðina!
- Berð þú ábyrgð á þessu?
- Þetta er þín ábyrgð!
- Ætlar þú að ábyrgjast þetta?

Hins vegar er orðið ábyrgð jákvætt í flestum öðrum tungumálum. Tökum t.d. ensku. Þar er orðið “responsable”. Ef við skoðum aðeins uppbyggingu orðsins finnum við tvær rætur. “Response” og “able”. “Response” þýðir að bregðast við og “able” þýðir að vera fær um að gera eitthvað. Svo “responsable” þýðir að vera fær um að bregðast við. Það er jákvætt að vera fær um að bregðast við svo við skulum líta á orðið ábyrgð sem jákvætt orð það sem eftir er af greininni.

Ábyrgð er hægt að finna í daglegu lífi svo sem í lögum landsins, venjulegu heimilislífi og í umferðinni. Í lögum landsins stendur t.d. að ríkið treysti einstaklingum til að sjá um sig sjálfir þegar þeir eru orðnir 18 ára en þá eru þeir sjálfbjarga, þá er einstaklingurinn fær um að bregðast við. Einnig er einstaklingnum treyst fyrir því að keyra bíl þegar hann hefur lokið bílprófi 17 ára. Í daglegu heimilislífi er ábyrgð eitt af megin stöplum heimilishaldsins. Ef einstaklingarnir væru ekki færir um að bera ábyrgð á sjálfum sér þá væri heimilislífið mikið erfiðara. Þá erum við komin að setningu greinarinnar: Einstaklingurinn ber ábyrgð á sjálfum sér. Þetta er algjört grundvallaratriði í sambandi við ábyrgð. Það er ein undantekning og það er að foreldrar bera ábyrgð á börnunum sínum en þegar út í lífið er komin ber einstaklingurinn ábyrgð á sjálfum sér. Það ber enginn annar ábyrgð á einstaklingnum. Hann ber ábyrgð á því að halda sér lifandi, borga skuldir, þrífa sig, mæta í vinnu. Foreldrar bera margvílega ábyrgð. Ábyrgð sem ríkið hefur gefið þeim. Ríkið á alla ríkisborgar sína og ber þess vegna ábyrgð á okkur, en það setti lög um það að foreldrar skildu bera ábyrgð á börnum sínum. Í þessari ábyrgð fellst það að halda þeim lifandi og við góða heilsu, mennta þau og gefa þeim ást og umhyggju.

Ég sagði í byrjun að ábyrgð ætti að vera jákvætt orð, í rauninni er það eftirsótt að bera ábyrgð. Það er t.d. mikill heiður að vera alþingismaður, forstjóri, forseti, ráðherra, sendiherra, íþróttamaður eða fræg persóna en því fylgir líka mikil ábyrgð. Þarna er dæmi um jákvæða ábyrgð, ábyrgð sem fólk er sátt við að taka. Nú er ég aðeins búin að tala um ábyrgð en það eru bara svo miklu fleira sem hægt væri að segja um ábyrgð og það er hægt að velta þessu hugtaki fyrir sér aftur á bak og áfram og mér þætti mjög gaman ef það myndi hefjast smá umræða um ábyrgð hér fyrir neðan.
Ég ætla svo að henda fram nokkrum spurningum hérna í lokin sem að þið hafið kannski gaman að glíma við.

- Ber ég ábyrgð á því að greinin mín er rétt stafsett?
- Ber ég ábyrgð á því að greinin mín brjóti ekki gegn lögum?
- Ber ég ábyrgð á þvi ef ég fer með einhverja vitleysu í greinninni minni?
- Ber ég ábyrgð á því að geta ekki heimilda ef einhverjar væru?
- Er ábyrgðin sem fellur mér í skaut við það að skrifa grein á netið jákvæð eða neikvæð?

Með von um öflugar umræður
peacock