Fyrir nokkru birti ég grein um söfnun fyrir auglýsingu í dagblaði. Sú grein snerist um pólitík, auglýsingin var þáttur í mótmælum gegn stefnu núverandi ríkisstjórnar.
Nú birti ég grein um mun mikilvægari söfnun og ég hvet alla til að taka þátt. Ég veit ekki hvað það eru margir látnir á þessari stundu, kannski 50.000 en slíkar pælingar eru náttúrulega bara tölfræði. Það er aftur á móti afar sorglegt að löndin við Indlandshaf skyldu hafa lent í óvæntum náttúruhörmungum og við ættum að hjálpa þeim.
Ég hvet alla þá sem á sama tíma og ég lögðu inn pening í eina dagblaða auglýsingu leggi inn pening til að hjálpa eftirlifendum við að endurreisa heimili sín. Það þarf að styrkja spítala á þessum svæðum, það þarf að endurreisa skóla, það þarf að gefa þeim mat sem misst hafa viðurværi sitt.
Ég hvet líka alla þá sem gáfu ekki í fyrrnefnda söfnun til að gefa pening. Enda er þetta ekki pólitískt mál, heldur mannúðarmál.
Rauði Kross Íslands er nú einmitt að safna pening til þess að hjálpa til. Augljóslega getum við lítið annað gert en að redda smá pening eða fötum. Við getum ekki öll stokkið upp í flugvél með hamar og byrjað að endurreisa húsin.
1151-26-000012, þú þarft bara að labba niður í banka og segja þeim að þú viljir færa út af reikningum þínum inn á þennan reikning. Ég sjálfur reif auglýsinguna fyrir söfnunina úr fréttablaðinu, fór niður í banka og sagðist vilja millifæra frá uppleiðarreikningnum mínum yfir á þennan.
Ef þið eruð löt getið þið hringt í síma 9072020 og gefið sjálfkrafa inn þúsund kall.
En hugleiðið það, það skiptir engu hversu lítinn pening við gefum, bara að við gefum eitthvað, bara ef allir sem lesa greininna gefi þó ekki væri nema 500 kall. Það breytir samt heilmiklu, á Indlandi hugsa ég að það dugi fyrir dágóðum slatta af mat.
Og ef þið eigið engan pening, hvetjið þá fólkið í kringum ykkur til að gefa.