Hérna er lítil hugleiðing um Frelsarann sem ég vil beina til ykkar sem eigið eftir að frelsast í Jesú Kristi
Drottinn rekur engan á brott vegna þess að hann elskar okkur meira en við getum nokkurn tímann hugsað okkur. Slíkur kærleikur finnst ekki á jörðunni nema frá Drottni Jesú. Jesús hefur búið til brú sem gerir það að verkum að öll bænarefni sem við biðjum og liggja á hjarta komast til Guðs. Drottinn er trúfastur Guð og hann mun aldrei bregðast. Hann hefur ekki brugðist, og mun ekki bregðast. Það erum við mennirnir sem höfum oft og mörgum sinnum brugðist honum en samt elskar Jesús okkur svo mikið að þegar við komum til hans, þá tekur hann okkur með opnum örmum og segir: ?Velkomin/n barnið mitt, ég elska þig og þú ert dýrmæt/ur í augum mínum. Það er eitt sem við verðum að hugsa um og það er efinn. Það eru margir sem eru haldnir efahyggju og efast um t.d.. tilvist Guðs en svo þora þeir ekki að stíga skrefið og athuga hvort Guð sé raunverulegur eða ekki. Einnig vil ég benda á að sumir kunna ekki að taka skrefið og þess vegna finnst mér að við kristnu ættum og taka okkur til og hjálpa þeim við það. Þú getur tekið á móti Jesú hvar sem er, hvenær sem er.
Við þurfum að taka okkur stöðu og standa stöðug. Það þýðir ekki að vera hálfvolg því Biblían segir að ef við erum hálfvolg, þá muni Drottinn skyrpa okkur úr munni sínum. Það sem ég er að segja að ef við tökum okkur ekki stöðu, þá gætum við leiðst út í hálfvelgju og þegar við komum á það stig, þá verður leiðinlegt að vera Kristinnar trúar. En ef við erum brennheit í trú , þá verður lífið spennandi og skemmtilegt að auki því við njótum hylli bæði Guðs og manna. Við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki barátta við menn af holdi og blóði. Þess vegna þurfum við að íklæðast herklæðum Drottins eins og segir í Efesusbréfinu 6.kafla.
Efesusbréfið 6:10-20
Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
Ég hef verið að hugsa hver ætti að vera ást mín og hef komist að því hver það er. Ég hef aðeins eina ást í lífi mínu í dag og það er Jesús Kristur sem dó fyrir okkur á krossinum til að við gætum eignast eilíft líf. Jesús er ást mín að eilífu, engin er sem hann. Jesús er Konungur konunga, Drottinn Drottna. Viljum við kynnast Jesú? Tölum við hann og hann mun sýna að hann elskar okkur.
Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. (Jóhannesarguðspjall 3,16)
Guð blessi ykkur
Guðbjörn