Það er orðið alltof algengt að krakkar á mínum aldri eru byrjaðir að drekka og reykja. Ég hef ekki nákvæma tölu yfir það en mér finnst sláandi hvað ég þekki marga sem reykja og/eða hafa einhverntímann drukkið sig fulla.
Er lífið virkilega orðið það leiðinlegt að það þarf að sljóvga skilningarvitin eða eitra sig til að það sé gaman? Hvað veldur þessu?
Reyndar þá er sannleikurinn sá að þessir umtöluðu krakkar eru hið besta fólk þrátt fyrir þennan veikleika. Þetta er einungis lítill partur (þótt hann sé áberandi) af þessum skemmtilegu og skapandi krökkum. Þau eru mjög oft voðalega umburðalynd og góðar manneskjur og eru á engan veg öðruvísi en allt annað fólk en samt reykja þau og drekka?
Ég skil að unglingsárin er sá tími þar sem mann langar að brjóta reglur og prófa allt. Ég lend oft í því að langa til að ögra norminu og hneyksla fólk. Ég geri samt frekar lítið af því þar sem ég hef ekki nóogu mikla þörf til þess og það sem meira er, ég sé enga ástæðu í því að gera þessa hluti. Kannski er þetta bara rökhugsunin að flækjast fyrir mér, hver veit? Kannski hef ég ekki lent í nógu miklum hópþrýstingi til að ég myndi byrja, þannig að það er spurning hvor unglingar sem reykja séu í rauninni veiklyndari.
Annar möguleiki sem gæti útskýrt drykkjuskapinn hjá krökkum eru foreldrar, augljóslega. Foreldrar eru ímynd barnanna sinna, það þarf ekki einu sinni að segja það, fólk veit það. En ef þessi ímynd er reykjandi og drekkandi fyrir framan krakkann, þá skilgreinir krakkin þetta sem eitthvað forvitnilegt og fullkomlega eðlilegan hlut, þar sem foreldrar manns eru að þessu. Auðvitað eru foreldrar mannlegir og gera jafnmikið af mistökum og allir aðrir, en þetta er eitthvað sem á ekki að gerast, finnst mér.
Annars held ég að þetta sé í lagi svo lengi sem þetta er ekki orðið að vandamáli sem hefur áhrif á aðra parta lífs þeirra. Þau eru flest a.m.k. það meðvituð að þau vita hvenær á að hætta, þannig að það er kannski ekki mikil hætta á að þau finnist kl. 7 um morguninn, búin að míga í sig og næstum búin að drukkna í eigin ælu……….
Síðan sýnir þetta kannski líka sjálfstæði, þau geta séð um sig í þessu ástandi, þ.e. þau eru ekki alvarlega að bjóða hættunni heim, og staðreyndin að þau vita hvenær á að stoppa, sýnir einfaldlega að þau þurfa ekki einhvern til að segja sér að það sem þau eru að gera sé mjög áhættusamt.
Þá er kannski pælingin hvort vaxandi drykkja hjá yngri kynslóðinni sé vandamál. Auðvitað eyðileggur þetta þroska, við vitum það öll, en þá eiga fullorðnir að vita betur en að sýna það vont fordæmi að krakkarnir sýnist það vera í lagi að fylla sig og reykja. Betra að foreldrarnir segji frá þeirra reynslu og láta unglingana hugsa sig betur um frekar en að þau læri það “the hard way”.
Reyndar þá er það áþreifanlegri lífsreynsla ef maður lenti í því sjálfur, en þegar maður fattar það, þá gæti það verið of seint.
En hvað veit ég? Ég held að ég sé byrjaður að bulla frekar mikið…….