Draumar
Það er stundum talað um drauma sem þeir séu spegill sálarinnar(fyrir utan augun). Þeir birta okkur það sem undirmeðvitundin hugsar. Það má í raun segja að við séum með tvö hugsanamengi í gangi í einu, undirmeðvitundin, og “yfirmeðvitundin”.(hvað heitir þetta aftur?)
Stundum gerist það fyrir mann að maður hefur lent í einhverju sem þarfnast mikillar úrlausnar.(Ég geri ráð fyrir að flest ykkar hafið lent í svoleiðis.) Þá hendir stundum að maður gerist óskaplega þreyttur, og skríður uppí rúm með göngulagi eins og maður hafi þyngst um 70%. Og mann dreymir, já manni dreymir. Mann dreymir kannski hið versta bull, en allt bullið hefur sína merkingu og boðskap. Svo vaknar maður aftur, hress og endurnærður, og er þá oft með lausn á vandamálinu, eða er kominn með skýringuna á einhverjum atburði. Þetta er það sem kallast “að sofa á einhverju”.
Það sem ég ætla að segja ykkur núna er draumur sem mig dreymdi í dag, þegar ég varð fyrir þessari svefnhöfgi. mig langar nefnilega til að vita hvað þið lesið úr honum:

Ég vakna uppí rúmi. Það er ekki rúmið mitt. Ég lít í kringum mig, og sé að ég er á geðveikraspítala. Ég þýt upp úr rúminu, og byrja að labba um, þótt ég viti hvernig spítalinn lítur út og hvernig hann er byggður(þetta kemur samt fyrir í mörgum draumum). Hann er 12 hæðir alls, 6. hæðin er án lyftu(það eru 2 lyftur í húsinu sem skiptast í miðju, svo að sjúklingar á neðstu 5 hæðunum geti ekki séð þá á efstu hæðunum). Engir gæslumenn eru á honum. Allur spítalinn er með áferð eins og á málverki, það er eins og veggirnir séu úr striga, sem og gólfið, hurðirnar o.s.frv. Þetta er mjög fallegur spítali, afskaplega listrænlega byggður, rétt eins og ég sé fastur í þrívíddarmálverki. Ég byrja allt í einu að horfa út um gluggann, og sé þá myndir af vinum mínum þjóta frá, og hverfa svo í móðu. Ég horfi og horfi, og verð allt í einu afskaplega sorgmæddur yfir því að þeir geti verið frjálsir úti við meðan ég geðsjúklingurinn sé fastur inni á spítala. Dramatíska stefið úr myndinni Being John Malcowich hljómar allan drauminn og gefa honum móðukennt yfirbragð.

Mér tekst að komast upp á 6. hæðina. Þar er draugalegt að svpast um, þótt að hábjartur dagur sé, og ég fæ snögglega ónotatilfinningu. Tveir flyglar snúa frá hvor öðrum(svo að nótnaborðin liggja saman) og ég veit að annar þeirra er flygill dauðans, en hinn er venjulegur flygill. Þegar ég spila á flygil dauðans finnst mér allt vera svo vonlaust og að ég sé glataður.
Ég næ að rífa mig upp frá flyglinum og held áfram. Ég labba frekar upp stigann heldur en að taka lyftuna. Stiginn er mjög fallegur, og er líkari málverki heldur en allt annað. Engar hæðir birtast, stiginn heldur bara áfram og áfram upp. Þegar ég kem upp sé ég að vinur minn(við skulum kalla hann Jón) liggur nær dauða en lífi í rúminu. Hann er einn á hæðinni, og ég fæ sömu ónotatilfinninguna og þegar ég spilaði á flygilinn.

Jæja fólk, þetta er allt sem ég man af honum. Hafið þið einhverja hugmynd um hvað þetta merkir? Ég held að ég viti það, gaman verður að sjá hvernig þið takið þetta í ykkur.


“Höldum við stavsetnýnguna”