Þá hefur Einelti – helvíti á jörð verið sjónvarpað inn á heimili landsmanna. Dregin var upp góð mynd af einkennum og afleiðingum eineltis fannst mér. Allir þeir sem sögðu sögu sína eiga hrós skilið. Það er kominn tími til að þjóðin fari að taka á þessu algenga samfélagslega vandamáli sem eyðileggur æsku fjölmargra ungmenna, er skyldug ganga menntaveginn. Þeir sem þessa kerfisbundnu útskúfun upplifa vita hversu mikið helvíti þetta er. Sum sárin gróa sjálfkrafa með tímanum en mörg sitja eftir í sálinni. Við sem samfélag megum ekki og eigum ekki að sætta okkur við að slíkt viðgangist. Ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem börn eru kerfisbundin brotin niður þar sem þau eiga að öðlast uppbyggilega fræðslu. Myndin var stutt en það sem kom fram var gott. Maður hefði viljað hafa myndina lengri og að tekið hefði verið meira á forvörnum og viðbrögðum þegar upp kemst um einelti. Mér sýnist almennt ljóst að kennarar eru illa í stakk búnir til að takast á við einelti. Því verður að breyta. Þó snýst þetta mikið til um gildismat og lífsviðhorf. Úr hvers konar fjölskyldum koma börn sem finnst í lagi að niðurlægja jafnaldra sína upp á hvern dag? Hlýtur ekki uppeldi að koma inn í þetta að stórum hluta? Hvar er nærgætnin við náungann, umburðarlyndið við þá sem eru á einhvern hátt öðruvísi en fjöldinn og þá sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, og tillitsemin?
Það þurfa að vera til skýrar leiðir innan skólakerfisins hvernig tekið er á einelti. Öllum þurfa að vera ljósar alvarlegar afleiðingar eineltis fyrir manneskjurnar er fyrir því verða. Kennarar þurfa að fylgjast grannt með því að enginn sé hafður kerfisbundið að háði og þannig brotinn niður. Það þarf að virkja fjöldann, sem situr hjá og lætur sem ekkert sé þegar níðst er á skólasystkini þeirra, til að taka af skarið og grípa inn í til að stöðva eineltið í fæðingu. Það verður enginn töffari af að níðast á öðrum heldur LÚSER! Gerendurnir eiga að bera skömmina. Ábyrgðin er ekki bara kennara heldur líka foreldranna. Það er hlutverk foreldra að ala upp börn en ekki kennara að mínu mati. Oft bregðast foreldrar þessari meginskyldu sinni og varpa ábyrgðinni yfir á skólakerfið. Skólastjórnendur eru ekki í stakk búnir til að axla þessa ábyrgð. En það er samt þeirra að taka á vandamálum innan skólans í samvinnu við foreldra, námsráðgjafa og skólasálfræðinga. Sjálfsagt er að nota Lífsleiknitímana til að skerpa á áherslum í samskiptum og hvernig eðlilegt er að koma fram við aðra. Við þurfum að búa okkur til samfélag þar einelti líðst ekki. Samfélag þar sem hæfileikar okkar fá að þroskast og við fáum að njóta okkar.
Elís V. Árnason