Sæl öll,
Langaði bara að vekja athygli á því að Sambíóin tóku þá ákvörðun að sýna nýju Disney myndina, The Princess and the Frog, aðeins á íslensku í bíóum! Ég er alveg einstaklega ósátt við þessa ákvörðun, enda finnst mér að myndir njóti sín alltaf best á upphaflega tungumálinu.
Ég hringdi á skrifstofuna þeirra og þeir staðfestu þetta, hún væri bara í sýningu á íslensku núna, var víst eitthvað nýtt sem þeir vildu prófa. Mér finnst nú óþarfi að vera með tilraunastarfssemi á nýjustu Disney-teiknimyndina sem margir hafa beðið eftir. Þeir eru reyndar eitthvað að íhuga að sýna hana kannski á ensku, en vita ekkert hvenær það yrði eða í raun yfirhöfuð. Ástæðan sem þeir gáfu er bara af því þetta sé teiknimynd þá eru náttúrulega bara 4-ára krakkar að fara á þetta sem kunna vitaskuld enga ensku.
Mér finnst þetta bara móðgun við íslenska bíóáhorfendur. Teiknimyndir eru vissulega upp til hópa stíluð á yngri áhorfendur, en Disney myndir hafa nú það orðspor að höfða til allra aldurshópa. Ég hefði mögulega skilið að þeir hefðu prufað þetta á aðra teiknimynd sem væri 100% “krakkamynd”, en að prófa þetta á nýjustu Disney myndina er rugl. Ég er viss um að þetta muni verða til þess að töluvert færri fari á hana–sem er ekki gott, þar sem þetta er fyrsta 2D Disney teiknimynd í langan tíma og þeir munu ákveða framhald þannig mynda eftir því hvernig þessari gengur í bíóum.
Svo ég hvet fleiri til að hringja eða senda póst á Sambíóin og ýta eftir því að fá myndina á ensku í íslensk kvikmyndahús!