Hérna er frétt sem kom í Fréttabl. í dag um þetta.
Simpsons á íslensku í sjónvarpi
Ákveðið hefur verið að fjögur hundraðasti þátturinn um Simpsons-fjölskylduna verði á íslensku.
Ákveðið hefur verið að fjögur hundraðasti þátturinn um Simpsons-fjölskylduna verði á íslensku. Þetta staðfestir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, en reikna má með því að þátturinn verði sýndur í byrjun júlí. “Simpsons-fjölskyldan er ein vinsælasta sjónvarpsþáttaröð sem Stöð 2 hefur sýnt og í tilefni af frumsýningu myndarinnar með íslensku tali ákváðum við að gefa aðdáendunum smá forskot á sæluna,” segir Pálmi en sömu leikarar og tala í myndinni munu skipa hlutverkin. Harðir aðdáendur gulu fjölskyldunnar á ensku þurfa þó engu að kvíða því strax eftir “íslenskan” Simpsons verður sá enski sýndur.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Davíð Þór Jónsson þýða þáttinn en hann vildi ekki staðfesta það í samtali við Fréttablaðið. Hann hefði hvorki séð handrit né þáttinn sjálfan. Hann hefur hins vegar setið sveittur undanfarnar vikur yfir því að þýða myndina en til stendur að hefja upptökur á talsetningunni í dag. Davíð segir þessa þýðingu vera langt frá því sína erfiðustu enda muni Simpsons-fjölskyldan tala reykvísku frá 2007. “Yfirleitt þegar ég hef verið að þýða þá hef ég reynt að láta persónurnar tala gullaldar íslensku en það á einfaldlega ekki við núna,” segir Davíð.
Þýðandinn segist ekki ætla að fara út í það að staðfæra einhverja brandara enda eigi Simpsons-fjölskyldan og húmorinn hennar sér langa sögu hér á landi. “Kannski einn og einn en ekkert meira,” útskýrir Davíð sem fannst erfiðasta verkefnið að koma hinum guðhrædda og kirkjurækna Ned Flanders til skila sómasamlega. Enda talar hann með miklum krúsídúllum og viðbótum í lok hverrar setningar. “Ég held samt að hann eigi eftir að hljóma mun asnalegri á íslensku heldur en ensku,” segir Davíð.-fgg
Mér finnst þetta út í hött.
Nú er ég með Fjölvarp 365 og að horfa á Simpsons dubbað á þýsku á Pro Seben er :(
Samt langar manni nú að fara á Ísl-simpsons myndina þegar hún kemur. Bara svona upp á gamnið, en enska verður alltaf hjá mér nr 1-2-3