(Annar hluti af tveimur af fyrsta hluta í þríleiknum)
PERSÓNUR + LEIKENDUR
Buster Bunny
Hannaður eftir hinum rólega og hnyttna Bugs Bunny. Hann er lítil blá kanína í rauðri peysu. Hann getur kallast fyrirliði Toon-anna, enda mjög slægur og hnyttinn. Buster gerir hvað sem er til að fá fólk til að hlæja en er þó aðeins minna geðveikur en besta vinkona hans, Babs (sjá fyrir neðan). Hann lítur mjög mikið upp til „mentor“ síns, Bugs, og gengur stundum svo langt að reyna að nota sömu aðferðir og hann til að losna úr einhverju klandri eða bara til að búa til gott grín (gott dæmi um þetta er þegar hann notar „Slap-Dansinn“ sem Bugs notaði á sínum tíma í “Bully For Bugs“, en það heppnaðist ekki alveg eins vel).
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=vq_Rvdafb8M&
Þó Buster sé eins og áður sagði frekar slægur karakter kemur það stundum fyrir að aðrar persónur ná að plata hann líka (þó er það örsjaldan) og er hann helst þannig ólíkur Bugs, sem náði alltaf yfirhöndinni á endanum.
Tveir menn töluðu fyrir Buster og var afar sérstök ástæða fyrir því. Þó að Buster sé aðalpersóna þáttanna var hann sú síðasta sem fékk raddleikara og einnig sú erfiðasta að velja um. Að lokum var það svo Charlie Adler sem fékk hlutverkið og gerði það með glæsibrag. Í fyrstu vildu Spielberg og aðrir framleiðendur ekki að hann fengi hlutverkið en Tom Ruegger, leikstjóri, framleiðandi og skrifari, og Andrea Romano, raddleikstjóri, börðust fyrir honum og létu Spielberg og félagar undan á endanum.
“Þetta er í þrítugasta skipti sem ég tek þátt í svona, en í fyrsta skipti sem ég hef skemmt mér svona mikið í vinnunni!“
Það kaldhæðnislega við þetta allt saman var að seinna meir þegar Animaniacs fór í vinnslu nokkrum árum seinna fór Adler í fýlu. Málið var að hann, sem hafði verið aðalhlutverk í Tiny Toons, fékk ekkert hlutverk í þáttunum en aftur á móti raddleikarar sem höfðu farið með ýmis aukahlutverk (s.s. Rob Paulsen og Frank Welker) fengu mjög stór hlutverk. Hann ákvað því að hætta alfarið en John Kassir var ráðinn í staðinn og lék Buster það sem eftir var.
Barbara Ann „Babs“ Bunny
Hönnuð eftir hinum skrýtna og brjálaða Bugs Bunny sem kvenkyns félagi fyrir Buster (þó er rætt um að hún hafi verið hönnuð eftir gamalli kærustu Bugs, Honey Bunny). Hún er líti bleik kanína í gulri peysu, fjólubláu pilsi með fjólubláar slaufur í eyrunum. Babs er hvað þekktust fyrir það hvað hún er óeðlilega kraftmikil og (ef svo má að orði komast) geðveik. Hún er svo að segja „einnar-kanínu-skemmtisýning“ og fer mikið af húmornum hjá henni í að herma eftir öðrum. Hún er mjög mikið í því, hvort sem er frægir einstaklingar eða aðrar skáldaðar persónur. Babs á sér engan sérstakan mentor, þar sem allir kennararnir í Acme Looniversity eru karlkyns.
Raddleikari Babs er hin ómótstæðilega Tress MacNeille. Ein af höfuðástæðunum fyrir því að MacNeille fékk hlutverkið var sú að hún gat svo vel gert grín af því fólki sem Babs var að herma eftir með röddinni einni saman. Margir hafa í gegnum tíðina velt því fyrir sér hvort MacNeille hafi í alvörunni talað fyrir allar þessar eftirhermur. Ef einhver Hugari er einn af þessu fólki get ég alveg staðfest að: já, hún talaði ein fyrir Babs og allar hennar eftirhermur.
Plucky Duck
Hannaður eftir Daffy Duck og er persónuleiki hans að mörgu leiti nákvæmlega eins og Daffy. Hann er lítil græn önd í hvítum hlírabol. Líkt og mentorinn sinn er Plucky gráðugur, sjálfselskur og skapstór og er yfirleitt alltaf að plana eitthvað sem gæti verið gott fyrir hann sjálfan eða sem hann sjálfur getur grætt á. Eins og við má búast takast þessar áætlanir aldrei.
Samband Plucky við hinar persónurnar er nánast aldrei gott, þar sem egóið í honum fer einstaklega mikið í taugarnar á öllum hinum. Hann og Buster eru nánast alveg eins og mentorar þeirra: Plucky þolir ekki Buster, en Buster elskar að pirra Plucky.
Plucky er sennilega eina Tiny Toons persónan sem birtist bæði sem unglingur og sem barn. Ég man sjálf ekki eftir nema tveimur þáttum með Baby Plucky: annars vegar þegar það var verið að venja hann á klósett og hins vegar þegar hann fór með mömmu sinni í kringlu. Í bæði skiptin ákvað hann að eigna sér eitthvað („You no flush, I flush!“ „You no push da button, I push da button!“), eins og barni er lagið, og fannst alveg makalaust þegar eitthvað fór niður gaaaaaaaaaaatið („Water go down da hoooooooooooole…“ „Ellelator go down da hooooooooooooooole…“). Það var hinn ungi Nathan Ruegger, sonur Toms Ruegger sem ljáði Baby Plucky sína yndislegu rödd.
Plucky er leikinn af hinum hæfileikaríka Joe Alaskey sem er líklega hvað frægastur fyrir eftirhermur, en einnig hvernig hann túlkar Looney Tunes persónurnar nákvæmlega eins og meistari Mel Blanc gerði forðum. Það var einmitt vegna þess sem hann fékk hlutverkið. Framleiðendurnir vissu að hann gæti hermt fullkomlega eftir Daffy svo það var eiginlega ekki spurning.
“Þeir sögðu: „Sko, við viljum einhvern veginn heyra í Daffy Duck, en ekki í sama Daffy Duck. Gerðu eitthvað öðruvísi, en hafðu það samt líkt“. Þannig að ég hugsaði: (með rödd Daffys) „Látum okkur nú þþjá, Daffy er þoldiþ þþvona, með framanverða þþmámælþku…“ (breytir í rödd Pluckys) Shvo ég færði shmámælshkuna bara aftar.“
Hamton J. Pig
Hannaður eftir Porky Pig og er lítill bleikur grís í fjólubláum smekkbuxum. Hann er besti vinur Plucky, og svolítill „right-hand-man“ í þeim skilningi. Hann er reyndar mjög feiminn og auðvelt að tala hann í eitthvað og Plucky nýtir sér það alltaf. Hamton er ólíkur mentornum sínum að því leiti að hann stamar ekki, en það var eitt af helstu einkennum Porkys. Hamton er mikill snyrtipinni og gersamlega þolir ekki þegar eitthvað er skítugt eða óhreint í kringum hann (sem er kaldhæðnislegt þar sem hann er jú grís). Hann leynir einnig mjög mikið á sér hvað varðar skap. Þó svo að hann sé frekar róleg týpa á hann það til að missa hreinlega stjórn á sér (t.d. kom þegar hann gat ekki eldað humar rétt).
Hamton var síðasta stóra hlutverk Don Messick áður en hann fékk slag árið 1997.
“Þetta er sennilega einhver besta þáttaröð sem ég hef séð.“
Blessuð sé minning hans.
Fifi La Fume
Hönnuð eftir Pepé Le Pew að öllu leyti, nema fyrir utan þá staðreynd að hún er stelpa. Hún er lítill fjólublár skunkur með bleika slaufu í hárinu og er leikin af Katherine Soucie.
Fifi er, líkt og mentorinn sinn, frönsk og reynir við nánast allt sem hreyfist – ef það er karlkyns, það er að segja. Fifi hefur sýnt nokkrum af strákunum í Acme Acres áhuga, þar á meðal Furrball, Calamity Coyote, Buster og Dizzy Devil. Aftur á móti hefur hún sýnt Hamton mestan áhuga á og svo virðist sem nokkrar vísbendingar hafi verið gefnar í gegnum tíðina um að hann hafi haft áhuga á henni líka.
Elmyra Duff
Hönnuð eftir Elmer Fudd hvað varðar útlit og nafn en engan veginn persónulega séð. Hún er ein af tveimur aðalpersónunum sem eru „Toon“ en ekki dýr. Hún er einfaldlega ung rauðhærð stelpa sem elskar allt sem er lítið, sætt og/eða loðið. Hún hikar ekki við að grípa bekkjarsystkini sín ef hún sér þau út á götu og knúsa þau í hel (bókstaflega). Sá eini sem henni finnst ekki þess virði að eltast við er Hamton, því henni finnst hann vera skítugur grís sem þarf að fara í bað (kaldhæðnislegt, ekki satt?).
Tja, kannski laug ég aðeins. Elmyra og Elmer eiga reyndar tvennt sameiginlegt í persónuleika. Eitt er það að Elmer var alltaf á höttunum á eftir Bugs til að skjóta hann. Elmyra er alltaf að elta Buster, Babs og (hvað helst) Furrball til að “knúsa þig og kyssa þig og elska þig að eilífu!“. Hitt er það að bæði voru álitin frekar miklar rolur. Bugs tókst alltaf einhvern veginn að sigra Elmer hvort sem var með orðum eða gjörðum, og Elmyra er bara svo mikið fyrir sæta hluti að það verður henni yfirleitt að falli. Í báðum tilfellum voru búnar til frekari, illri, verri og óþolinmóðari persónur til að trompa þau. Í denn var það Yosemite Sam; hjá Elmyru var það Montana Max (sjá fyrir neðan).
Það mun svo hafa verið Cree Summer sem talaði fyrir þessa litla rugludollu með greindarvísistölu á við mæjóness.
Montana Max
Monty var hannaður eftir hinum geðilla Yosemite Sam en þó einungis í persónuleika (það tók mig til dæmis langan tíma að átta mig á því, vegna þess að allir hinir eru líka líkir mentornum sínum í útliti). Hann er forríkur og nýtur þess í botn vegna þess að hann á náttúrulega miklu meira en allir hinir. Eins og gefur að skilja er hann aðal „vondi kallinn“ í þáttunum en það stafar mest af því að hann er einfaldlega ofdekraður asni sem vill bara sjálfum sér gott.
Í þættinum “Citizen Max“ (augljóslega paródýa af myndinni Citizen Kane) var því reyndar ljóstrað upp fyrir okkur að Monty og Buster voru einu sinni bestu vinir. Það var ekki fyrr en fjölskylda hins fyrrnefnda vann í lottóinu sem hann ákvað að hætta að vera með Buster og varð að þessum asna sem við öll þekkjum í dag. Þetta er einnig höfuðástæðan fyrir því að Buster og Babs þola hann ekki og öfugt.
Þó Monty sé svona leiðinlegur er þó ein manneskja sem elskar hann út af lífinu: Elmyra, og það fer einstaklega í taugarnar á honum. Þau hafa verið aðalhlutverk nokkurra þátta og er alltaf jafn augljóst að Elmyra er hrifin af Monty. Það er stundum gefið í skyn að hann vilji hana líka (í lok þáttarins “My Dinner With Elmyra“ kyssti hún hann duglega og þegar hann labbaði í burtu mátti heyra hann andvarpa: „Ég held að ég sé ástfanginn…!“) en sennilega finnst honum það of asnalegt svo hann felur það alltaf.
Raddleikari Max var Danny Cooksey, sem var sá yngsti af leikaraliðinu eða aðeins fimmtán ára (fæddur 1975).
Shirley the Loon
Líklega hönnuð eftir Melissu Duck, sem var kærasta Daffy einhvern tímann í denn. Er í hnotskurn lítil ljóshærð hvít önd í bleikri peysu með bleika slaufu í hárinu. Af einhverjum ástæðum er hún með nokkra hugarorkukrafta og getur lesið hugsanir. Er leikin af Gail Matthius
Dizzy Devil
Hannaður eftir Taz/Tasmanian Devil. Er lítill fjólublár tasmaníuskolli með gula þyrluhúfu. Líkt og mentorinn sinn er hann aðallega í því að éta, snúast í hringi og elta aðrar persónur, auk þess sem hann talar mjög óskýrt. Leikinn af Maurice LaMarche.
Gogo Dodo
Gogo er eina persónan í Tiny Toons sem er skyld Looney Tunes persónu. Hérna í gamla daga kom út teiknimyndin “Dough For the Do-Do“ sem skartaði Porky Pig í aðalhlutverki. Hann ferðaðist til Wackylands þar sem hann ætlaði að finna síðasta Do-doinn.
[youtube] http://www.youtube.com/watch?v=rNb6jOOgXX8&
Samkvæmt skrifara Paul Dini er þessi Do-Do faðir Gogos. Gogo býr líka í Wackylandi og er líkt og faðir sinn gersamlega geðveikur (eins og upphafslagið segir: „Furrball‘s unlucky, and Gogo is insane!“). Skrýtna en samt sem áður einstaka röddin hans er túlkuð af Frank Welker.
Furrball
Hannaður eftir Sylvester. Hann er blár kettlingur með gat í eyranu og sárabindi um skottið. Er alveg einstaklega óheppinn og mest séður sem gæludýr Elmyru, en þó er hann stundum að eltast við annað hvort Lil‘ Sneezer eða Sweetie Pie.
Frank Welker sér um hljóðin sem hann gefur frá sér.
Calamity Coyote
Hannaður eftir Wile E. Coyote og er alveg eins og hann nema bara í smækkaðri, grárri mynd og í rauðum strigaskóm. Er mjög snjall líkt og mentorinn sinn en talar ekki. Í þau skipti sem hann gefur frá sér hljóð er það Frank Welker sem sér um það.
Little Beeper
Hannaður eftir Road Runner. Er ungur rauður og appelsínugulur road runner í bláum strigaskóm og hagar sér nákvæmlega eins og mentorinn sinn. Frank Welker ljáir honum „hljóð“ sín.
Lil‘ Sneezer
Sneezer litli er bara lítil mús sem þráir ekkert meira en að eignast vini. Því miður fyrir hann er hann með þessi líka ofnæmi að hnerrarnir hans hafa hörmuleg áhrif: allt frá því að feykja persónum í burtu frá honum, til að sprengja heilu byggingarnar. Katherine Soucie talar fyrir hann.
Sweetie Pie
Hönnuð eftir Tweety Bird. Þó hún líti út fyrir að vera mjög yndæl er hún mjög hefndargjörn, þá sérstaklega við Furrball sem er alltaf að elta hana. Candi Milo talar fyrir hana.
Fowlmouth
Fowlmouth var hannaður eftir Foghorn Leghorn en var ekkert svo mikið á skjánum. Hann ber svo sannarlega nafn með rentu þar sem hann blótar eins og hann eigi lífið að leysa. Hann er einnig mjög skapstyggur og er það helsta kveikjan að blótunum.
Rob Paulsen sá um að túlka þennan unga hana.
Vissulega voru fleiri persónur í þessum þáttum, svo sem Mary Melody, Concord Conor og Arnold the Pit Bull, en vegna þess hversu litlar persónurnar eru orðnar á þessum lista ætla ég að segja þetta gott og vona að sem flestir hafi haft gaman af að lesa þetta. Og ef einhver komst alla leið hingað og las allt sem er hér á undan… Gefðu sjálfum/sjálfri þér eitt frítt Internet! Þú átt það skilið! 8D
Næst: Animaniacs!