100 þættir og hvergi nærri hættir
Grein úr fókus
Teiknimyndaþættirnir South Park eru ungum Íslendingum og sjálfsagt nokkrum eldri vel kunnugur. Árið 1998 urðu þeir feikivinsælir á afar stuttum tíma, jafnt hérlendis sem og annars staðar. Það tískuæði gekk yfir, eins og svo oft áður, og héldu margir að líftími þáttanna yrði ekki langur eftir að kvikmyndin kom út ári síðar. Þvert á móti þrífast þættirnir sem aldrei fyrr og lítur ekki út fyrir að þeir hætti í náinni framtíð.
Það eru sjálfsagt margir sem halda að tími South Park sé liðinn. Vissulega eru vinsældir þeirra ekki nærri því sem þær voru þegar þættirnir byrjuðu en þá þótti ekkert heitara en South Park. Mennirnir á bak við þættina, Matt Stone og Trey Parker, segja sjálfir að þeir séu nú, eftir 100 þætti, að gera sína bestu þætti til þessa. Og ef sú þróun heldur áfram má sjá fram á að þættirnir verði framleiddir í nokkur ár í viðbót, í það minnsta. Að lokinni núverandi þáttarröð, sem er sú sjöunda í röðinni, eru þeir búnir að semja við Comedy Central, sjónvarpsstöðina sem sýnir þættina í Bandaríkjunum, um að búa til þrjár til viðbótar.
Vinsældir þáttanna hér á landi eru þó nokkrar. Sjónvarpsstöðin Sýn hefur verið dugleg að taka þættina til sýninga fljótlega eftir að þeir eru sýndir í Bandaríkjunum og þá hefur Popptívi tekið upp á því að sýna gamla þætti í bland við þá nýju. Það er líka drjúgur hópur fólks hér á landi, sem og annars staðar í heiminum, sem fylgist með þáttunum á Netinu en fremur auðvelt er að nálgast þá þar, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þeir eru sýndir í Bandaríkjunum.
En af hverju eru þeir svona vinsælir? Og hvað er það sem gerir þá svo góða? Svarið liggur í þeirri einföldu staðreynd að þeir Matt og Trey eru þeir sem völdin hafa þegar komið er að gerð þáttanna, allt frá handritsvinnu að talsetningu. Þessir drengir láta sér fátt fyrir brjósti brenna og hika ekki við að segja nákvæmlega hvað sem er í þáttunum sínum; aðstæður þeirra hjá Comedy Central eru þannig að þeir geta sýnt bókstaflega hvað sem þeim sýnist.
Nýlegt dæmi um það er þegar hinn lamaði Christopher Reeve, sem er líklega þekktastur fyrir að leika Súperman, er sýndur drekka blóð úr ófæddum barnsfóstrum til að styrkja sjálfan sig með stofnfrumum svo hann geti gengið á ný.
Sveinki og Jesús
Lítum á upphaf South Park. Þegar þeir Matt og Trey voru háskólanemar í Colorado gerðu þeir litla teiknimynd sem þeir nefndu Jesus vs. Frosty. Hún fjallaði um nokkra litla drengi sem bjuggu til snjókall sem síðan lifnaði við og tók að drepa allt kvikt í litla smábænum þar sem drengirnir bjuggu. Það var ekki fyrr en sjálfur frelsarinn, Jesús Kristur, kom til sögunnar að hann náði að stöðva snjómanninn illa með því að varpa geislabaug sínum að honum.
Fyrir einhverja mikla tilviljun komust yfirmenn hjá American Fox Network sjónvarpsstöðinni í teiknimyndina. Einn þeirra, Brian Graden, fékk þá Matt og Trey til að búa til aðra stuttmynd sem hann sendi svo vinum og ættingjum sem jólaglaðning. Og þar með hófst ævintýrið. Þessi litla teiknimynd, The Spirit of Christmas, þar sem jólasveinninn og Jesús slást um boðskap jólanna, varð eitthvað sem allir urðu að sjá. Sögur hafa gengið um að George Clooney hafi látið búa til 300 afrit af teiknimyndinni sem hann sendi vinum sínum.
Matt og Trey urðu frægir á svipstundu og ákváðu eftir gylliboð víðs vegar að, meðal annars frá MTV, að ganga til liðs við kapalsjónvarpsstöðina Comedy Central sem lofaði þeim algjöru listrænu frelsi.
Þannig var komið fyrir Comedy Central að óhætt er að segja að South Park hafi bjargað sjónvarpsstöðinni. Allt í einu gat stöðin rukkað inn þrefalt eða fjórfalt venjulegt auglýsingagjald og þátturinn tryggði að útsendingum stöðvarinnar yrði dreift um allt land.
Tónlistin mikilvæg
Aðalsöguhetjurnar í South Park eru, eins og flestir vita sem nokkurn tíma hafa horft á þáttinn, fjórir ungir drengir sem búa í fjallabænum South Park í Colorado-fylki í Bandaríkjunum. Þetta eru vinirnir Kyle Browlofsky og Stan Marsh, sem margir vilja meina að séu byggðir á sjálfum Matt Stone og Trey Parker, fitubollan Eric Cartman og fátæklingurinn í hettuúlpunni, Kenny McCormick.
Auk þeirra er fjöldinn allur af persónum sem koma við sögu, flestir íbúar South Park. Þó eru nokkrir utanaðkomandi sem hafa reglulega birst í þáttunum, til að mynda kanadísku grínararnir Terence og Phillip, hinn fallni Íraksforseti Saddam Hussein, jólasveinninn og Jesús (sem að vísu býr í South Park þar sem hann kemur reglulega fram í eigin spjallþætti, Jesus and Pals) svo einhverjir séu nefndir.
Eitt af því sem hefur ávallt leikið stórt hlutverk, bæði í þáttunum og í South Park-kvikmyndinni Bigger, Longer, Uncut, er tónlistin. Reyndar hafa Matt og Trey lýst því þannig að þeir séu í raun frústreraðir rokkarar sem fá tónlistarútrás sína á þáttunum. Þrír South Park geisladiskar hafa verið gefnir út og ótal lög sungin í þáttunum, ekki síst af hinum þekkta tónlistarmanni Isaac Hayes, sem ljær hinum vinalega matreiðslumanni Chef rödd sína. Þeir voru meira að segja tilnefndir til óskarsverðlaunanna fyrir lagið Blame Canada úr kvikmyndinni. Robin Williams gerði það svo ódauðlegt á sjálfri hátíðinni.
Það er líka greinilegt að þeir félagar hafa mun meiri mætur á tónlistarmönnum en leikurum en sjálfir hafa þeir sagst miklu frekar vilja umgangast músíkanta en Hollywood-stjörnur. Og þeir eru ekki feimnir við að láta það í ljós ef þeim líkar ekki við einhvern, hvort sem sá hefur gert eitthvað á þeirra hlut eða ekki.
Ekkert óviðkomið
Þeir láta sig í raun allt mögulegt varða. Íraksumræðan er þar engin undantekning og gengu þeir jafnvel svo langt í lokaþætti 6. þáttaraðar að láta drengina hjálpa jólasveininum að bera boðskap jólanna til borgaranna í Írak. Afleiðingar þess eru svakalegar, svo ekki sé meira sagt. Í 100. þættinum, sem sýndur var á meðan stríðsreksturinn í Írak stóð sem hæst, tóku þeir fyrir afstöðu hins almenna Bandaríkjamanns til stríðsins og hvernig þjóðin hefur skipst í tvær fylkingar.
Óhætt er að segja að þeir hafi, eins og alltaf, hitt beint í mark með háðdeilu sinni og ekki á færi hvers sem er að gera þannig grín að ástandinu að það sé bæði drepfyndið en um leið koma fram með mjög þarft innleg í annars stóra umræðu.
Það er í raun það sem heillar við South Park. Þjóðfélagsádeila þeirra er hárfín og hlífir engum, auk þess sem uppátæki þeirra drengja (sérstaklega Cartmans) eru einfaldlega stórkostlegt grín. Fyrir þá sem hættu að horfa á South Park þegar mesta tískubólan hafði hjaðnað er óhætt að mæla með að þeir reyni að nálgast nýja þætti með einum eða öðrum hætti. Þeir munu ekki sjá eftir því.
Bestu þættirnir að mati Matt & Trey
Í tilefni af 100. þættinum fékk tímaritið Hollywood Reporter þá Matt Stone og Trey Parker til að útbúa lista yfir þá 10 þætti sem væru í uppáhaldi hjá þeim. Eins og þeim einum er lagið brugðu þeir út af vananum og nefndu 11. Hér eru þeir, frá þeim elsta til hins yngsta. Greinilegt er að þættir í 5. þáttaröðinni eru í miklu uppáhaldi:
Mr. Hankey the Christmas Poo (110)
Terrence & Phillip in Not Without My Anus (201)
Rainforest Schmainforest (301)
Jewbilee (309)
Timmy 2000 (404)
Cripple Fight (503)
Super Best Friends (504)
Scott Tenorman Must Die (501)
Osama bin Laden Has Farty Pants (509)
Butter's Very Own Episode (514)
The Return of the Lord of the Rings to the Two Towers (613)