
Ég veit að margar hugmyndir hafa verið í gangi um beinan stuðning við Svavar. M.a er í gangi hugmynd að selja boli með hinum ýmsu áletrunum (ekkert ósiðlegt) sem myndu kosta það sama og geisladiskur út úr búð. Slagorð eins og Geisladisk í jólagjöf? Nei takk! Væri eitt dæmi.
Þá hefur einnig verið í gangi umræða um að netverjar almennt muni ekki kaupa höfundarvarið efni s.s. geisladiska eða myndbandsspólur þar sem þeir hagsmunaðilar sem nú standa í lögsókn á hendur Istorrent eru í raun beinir aðilar þeirra listamanna sem nú eru að gefa út efni fyrir þessa jólavertíð. Þá eru þeir sem eru á móti þessum aðgerðum einnig kvattir til að skila þess konar vörum ef þeir fá þær í jólagjöf og fá í staðinn erlent efni af sama toga eða kaupa sér góða bók í staðinn. Það er jú ekki tekið gjald af hverju auðu A4 blaði sem kemur til landsins þó svo hægt sé að nota það til að afrita bækur - líkt og gerist með geisladiska, harða diska, MP3 spilara og svo framvegis.
Eins og staðan er í dag er ekki litið á þetta sem herferð heldur frekar eitthvað sem við Netverjar ættum að velta fyrir okkur nú fram að jólaverslun. Hins vegar hef ég trú á að þessar hugmyndir gætu orðið að sterkum leik til að styðja við bakið á þeim sem á er ráðist líkt og gerst hefur með Istorrent í þessu máli með órökstuddum staðhæfingum og mjög svo hlutdrægu sjónarmiði af hálfu hagsmunasamtaka sem fyrst og síðast hugsa um að maka sinn eigin krók í stað þess að hugsa til neytenda.