Í leit minni að lausn á því hvimleiða vandamáli sem ruslpóstur (spam) er, datt ég niður á hugbúnað sem heitir því vinalega nafni SpamPal. Forritið virkar sem milliliður á milli tölvupóstforrits og Internetsins. Áður en pósturinn berst í innhólf póstforritsins sem þú notar fer hann fyrst í gegnum SpamPal sem ráðfærir sig við gagnagrunna er nefnast DNSBL (DNS Blocking Lists). DNSBL listarnir innihalda upplýsingar um vistföng þeirra sem staðnir hafa verið að því að senda ruslpóst áður og síar SpamPal út allan póst frá þessum aðilum. Þú getur stillt forritið þannig að það hendir öllum slíkum pósti beint í ruslakörfuna eða þá að þessi póstur endi í sérstakri möppu sem þú skilgreinir í póstforritinu. Uppsetning forritsins fer fram í nokkrum skrefum sem útskýrð eru á heimasíðu SpamPal á slóðinni http://www.spampal.org.uk
SpamPal er ókeypis hugbúnaður og virkar með póstforritunum Eudora, Mozilla, Netscape Communicator, Outlook Express, Pegasus Mail og PocoMail.
Ég hef notað SpamPal í nokkrar vikur og get vottað að forritið virkar mjög vel. Ég hef verið að fá á bilinu 40-50 ruslpóstsendingar á dag og áætla að SpamPal nái að sía út á bilinu 90-95% af öllum óumbeðnum auglýsingum sem ég fæ í dag. Aðeins einu sinni hefur það komið fyrir að tölvupóstur sem mér var ætlaður og var ekki spam, lenti í ruslakörfunni. En til er ráð til að koma í veg fyrir að slíkt hendi oftar en einu sinni, því SpamPal inniheldur s.k. „Whitelist“ þar sem þú getur sett inn addressur sem þú vilt að berist í innhólfið þitt undantekningalaust.
http://www.spampal.org.uk/