Sá sem auglýsir ákveður verðið. Ef einhver býður hærra, þá birtist hans auglýsing fyrir ofan þína. Sjálfur eltist ég aldrei við toppsætin, vegna þess að ég get oftast fengið 3. – 5. sæti fyrir mun lægra verð.
Google og Yahoo hafa þróaða auglýsingavefi með langa reynslu, meðan MSN er að opna nýja auglýsingaveitu sem ég hef enn ekki séð.
Google: https://adwords.google.com/select/
Yahoo: http://www.content.overture.com/d/
Ég hef mest notað Google Adwords undanfarið. Þar skráir maður vefinn sinn, velur leitarorð og býr til auglýsingar. Hægt er að vísa beint í einstakar vefsíður og ráða öllum eiginleikum hvers leitarorðs.
Kostnaðinum er stýrt á tvennan hátt. Þú velur hámarksgjald sem greitt er fyrir hvern smell á hvert leitarorð. Það þýðir þó að þú borgar aðeins einu senti hærra en sá sem er í sætinu fyrir neðan þig. Ef þú hefur boðið 15 sent og næsti maður 10 sent, þá borgar þú aðeins 11 sent fyrir smellinn.
Til þess að reikningurinn þinn fari ekki úr böndunum þá ákveður þú hve mikið þú ert tilbúinn að greiða á dag. Ef þú setur mörkin við 5 dollara á dag, þá er honum haldið þar og umferðinni dreift í samræmi við það.
Björgvin Árnason www.hugverk.com
Björgvin Árnason