Microsoft er á góðri leið með að verða undir í samkeppninni um Internetið. Þar á bæ ætluðu menn sér stóra hluti og stefndu á heimsyfirráð með stofnun MSN á sínum tíma. Síðan hafa ýmsar tafir og vandamál gert það að verkum að Microsoft hefur dregist aftur úr keppinautunum.

Google er nú stærsta leitarvél heims og hefur slíka yfirburði að því verður ekki hnekkt. En Google hefur margt fleira á prjónunum. Eitt af því sem fyrirtækið ætlar að bjóða á þessu ári, er ritvinnsla á vefnum. Sennilega verður um að ræða ritvinnsluforrit sem hægt verður að hlaða niður frítt, eða með litlum kostnaði og vistun skjala verður svo á vefnum.

Þannig opnast hinum venjulega notanda alveg nýr heimur, ekki ósvipað og þegar hotmail.com fór að bjóða ókeypis vefpóst fyrir alla. Með hinni nýju vef-ritvinnslu verður hægt að komast í skjöl hvar sem er, hvenær sem er og vinna með þau. Hægt verður að vista skjöl á öruggan hátt og einnig gefa aðgang að þeim með lykilorði. Hægt verður að prenta út skjölin hvar sem hægt er að komast í netaðgang og prentara.

Þetta er aðeins eitt af mörgu sem Google hefur á prjónunum til að útvíkka notkun Netsins.

Kveðja
Björgvin www.hugverk.com
Björgvin Árnason