Þjálfari Frakklands mun þjálfa Tottenham í haust.
Þetta kom ábyggilega mörgum á óvart, þar sem Englendingar eru í sama riðli og Frakkland og keppa við þá þann 13. júní. Silvestre og Lizarazu segja þetta ekki munu hafa áhrif á spil liðsins. Sven-Göran Eriksson, þjálfari Englands, tók í sama streng. Hann sagði að leikmennirnir væru of fagmannlegir til að láta það hafa áhrif á sig.
England í vandræðum með miðjuna
England notaði tígulmiðju [einn miðjumaður eilítið framar og annar aftar - tígull] á móti Japönum á Manchestermótinu síðustu helgi. Eins og þeir sem horfðu á leikinn tóku eftir héldu Englendingar varla boltanum og Japan yfirspiluðu þá einfaldlega á miðjunni, en leikurinn fór 1-1. Sven-Göran hefur ákveðið að skipta yfir í 4-4-2 fyrir leikinn á móti Íslandi. Hann ætlar að tefla fram sama byrjunarliði á móti Íslendingum fyrir utan David James og John Terry. Paul Robinson verður í markinu en Carragher fyrir Terry, sem á við minni háttar meiðsl í kálfa að stríða.
Hiti í Portúgal
Veðrið gæti hjálpað heimamönnum eitthvað, en Portúgalar hafa verið að æfa í miklum hita, sem fór yfir 39°C í gær (fimmtudag). Miðjumaður Porto, Francisco Costinha, sagði að þeir þyrftu að vera við öllu búnir, því það spáir mjög heitu veðri meðan EM stendur yfir.
Evrópuboltinn veldur áhyggjum
Boltinn sem UEFA hefur valið veldur mörgum spilurum áhyggjum, og segir Francesco Totti, leikmaður Ítalíu, að hann sé of harður og skoppi ekki vel. Áður hafa markverðir kvartað yfir því hvað boltinn sé sleipur en Totti segir boltann munu valda sóknarmönnum meiri vandræðum en markvörðunum. Totti mun spila á milli sóknar og miðju fyrir Ítala.
95% miða á EM seldir
Um það bil 95% af þeim 1,2 miljón miðum sem í boði eru fyrir EM hafa selst. Einn stjórnendanna í Portúgal sagði í útvarpinu þar í landi að u.þ.b. 350.000 af þessum miðum væru keyptir af útlendingum, restin af heimamönnum. Stjórnvöld búast við hálfri miljón erlendra ferðamanna til Portúgals á meðan EM stendur yfir, ef vinir og vandamenn miðaeigenda eru meðtaldir. Vonir stóðu til að selja 75% miðanna. UEFA á von á yfir 60 miljarða króna hagnaði af keppninni, en meira en 80% þess af sjónvarpsútsendingum, restina af sölu á miðum og varningi.
Heimildir:
Fox Sports
BBC Sport
Citizen