Í C riðli hlýtur Brasilía að teljast siguratranglegasta í riðli sem samanstendur, ásamt þeim, af Tyrklandi, Kína og Kosta ríka.
Brasilía er eina þjóðin sem tekið hefur þátt í öllum heimsmeistaramótum til þessa. Þrátt fyrir það eru ekki margir á þeirri skoðun að þeim takist að bæta við fimmta titli sínum í Japan og S-Kóreu. Leikstíll Brasilíu hefur breyst mikið síðustu ár og sú glæsispilamennska sem þeir voru þekktir fyrir á árum áður lifir nú góðu lífi í minningu knattspyrnuáhugamanna en sést æ sjaldnar inn á vellinum.
Listamenn í anda Pele, Zico og Socratesar hafa orðið að víkja fyrir vinnusömum miðjumönnum, í anda fyrirliða þeirra á HM 94 Dunga, sem hafa það markmið helst að stöðva spil andstæðingana. Luiz Felipe Scolari er ötull talsmaður þessa nýja brasilíska leikstíls. Hann fer í engar grafgötur með að hann vill að leikmenn sínir brjóti á andstæðingunum, tefji tímann ef þörf krefur og velur oft allt að átta varnarsinnaða leikmenn í liðið í hverju sinni.
Brasilía lenti í miklum vandræðum á leið sinni til Asíu. Meðan á undankeppninni stóð notuðu þeir fjórir þjálfarar sem stjórnuðu liðinu fimmtíu og níu leikmenn og töpuðu sex leikjunum af átján. Þeir eru þó komnir í lokakeppnina og ef Ronaldo heldur sér heilum og Rivaldo og aðrir toppklassaleikmenn þeirra sem spila víðsvegar um Evrópu ná sér á strik geta þeir náð langt.
Scolari mun spila sama kerfi og hann hefur notað með liðið í þeim leikjum sem hann hefur stjórnað þeim. Hann notar þrjá miðverði, tvo varnarsinnaða miðjumenn og svo framsækna bakverði. Þar fyrir framan eru síðan þrír framherjar. Tveir sem liggja til baka og einn sem er fremstur.
Líklegt er að Scolari haldi sig við Marcos í markinu, sem haldið hefur fyrrum markmanni AC Milan,Dida, á eftir sér síðustu tólf mánuði. Dida mun því líklega þurfa að sætta sig við sæti á bekknum ásamt Rogerio.
Roberto Carlos og Cafu hafa mikla sóknarskyldu sem bakverðir og munu sjá um að skapa hættu upp kantana ásamt því að sinna varnarskyldu. Lucio hinn feikisterki varnarmaður Bayern leverkusen mun síðan binda þriggja manna vörnina saman. Með honum verða líklega þeir Anderson Polga og Rouque Junior. Aðrir varnarmenn í hópnum eru Beleti, Junior og Edmilson.
Leiðtogi liðsins á miðjunni verður Rómverjinn Emerson. Hann er í miklu uppáhaldi hjá Scolari og mun hvíla á honum mikil ábyrgð á miðjunni. Hann er feykisterkur og þykir illvígur í návígum. Með honum, ef Scolari spilar með varnarsinnaða miðju, verður líklegast Gilberto Silva. Þó á Scolari þann kost að kalla á Vampeta sem býr yfir ágætri reynslu með landsliðinu. Ef hann ákveður að fá með Emerson betur spilandi miðjumenn á hann um að velja Juninho, fyrrum leikmann Middlesbrough, sem virðist vera að nálgast sitt besta form með Flamengo, Denilson leikmann Real Betis, Kleberson frá Atletico Mineiro eða hinn geysiefnilega Kaka frá Sao Paulo.
Sóknarábyrgð Brasilíu í mótinu mun fyrst og fremst hvíla á Rivaldo, Ronaldinho og Ronaldo. Rivaldo hefur að mati margra aldrei náð að fylgja eftir góðu gengi hjá Barcelona með landsliðinu en menn gera þó miklar vonir til hans í sumar. Ronaldinho leikmaður Paris St. Germain mun að öllum líkindum liggja með Rivaldo fyrir aftan fremsta mann og hjálpa til við að tengja miðju við sókn.
Ronaldinho þykir feykilegt efni og hefur hann staðið sig vel í flestum landsleikjum sem hann hefur spilað. Þó hefur hann enn ekki sannað sig á stórmóti og er því að miklu leyti óskrifað blað fyrir mótið í sumar. Fyrir framan þessa tvo mun síðan Ronaldo eiga að sjá um að setja boltann í netið.
Ronaldo er einn allra besti knattspyrnumaður heims ef hann er heill heilsu, en hann hefur ekki spilað mikið síðustu ár vegna meiðsla. Hann kláraði þó mótið á Ítalíu mjög vel og sýndi að hann er óðum að ná fyrri styrk. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu hættulegir þessir þrír munu reynast ef allir halda heilsu. Edilson leikmaður Cruzeiro og Luizao leikmaður Cremio munu síðan vera þeim til halds og trausts á bekknum.
Athygli vekur að ekkert pláss er fyrir Elber, Jardel eða Romario í liðinu. Það lá við óeirðum í Brasilíu vegna þess að Scolari valdi hinn 36 ára gamla Romario ekki í liðið. Romario hefur skorað mark að meðaltali í leik í brasilísku deildinni í vetur og er enn einn allra hættulegasti sóknarmaður heims þrátt fyrir háann aldur.
Scolari hefur valið þann hóp sem hann telur að muni skila sér því markmiði sem hann veit að brasilíska þjóðin krefst. Ekkert annað en heimsmeistaratitill er ásættanlegur árangur og á leikmönnum og þjálfara liðsins hvílir mikil pressa. Scolari mun finna sérstaklega mikið fyrir andúð þjóðarinnar ef liðinu gengur illa að skora í leikjum sínum vegna þeirrar umræðu sem varð um Romario fyrir mótið.
RS