Í A riðli hljóta Frakkar að teljast sigurstranglegasta liðið. Þeir eru í riðli með Danmörku Uruguay og Senegal. Þeir hafa ekki spilað knattspyrnuleik þar sem eitthvað hefur verið í húfi síðan þeir unnu Ítali á gullmarki í úrslitaleik síðasta evrópumeistaramóts.

Tap fyrir Chile og jafntefli í Ástralíu skemmdu fyrir sannfærandi sigrum á þýskalandi, Japan og portúgal og undirstrikuðu að erfiðir vináttuleikir eru ekki áreiðanlegur mælikvarði á getu liðs.

Síðan Frakkar urðu fyrsta liðið til að bæta evrópumeistaratitli við sigur í heimsmeistarakeppni hefur Roger Lemerre þjálfari einblínt á hverjir verma bekkinn í Japan og Kóreu.

Fabian Barthez mun án vafa standa milli stanganna og Ulrich Rame og Gregory Coupet verða annar og þriðji markvöður honum til stuðnings.

Eina stóra spurningin sem hann stendur frammi fyrir er hver muni taka sæti Laurent Blanc sem miðvörður við hlið Marcel Desailly. Lemerre hefur ekki orðið við beiðni Lilian Thuram um að fá að færa sig úr hægri bakverði í miðvörð og þar með er Frank Leboeuf líklegastur til að hreppa hnossið. Mickael Silvestre hjá Manchester United og Philippe Christanval hjá Barcelona verða þó viðbúnir að taka við. Lilian Thuram og Bixente Lizarazu munu sjá um bakverðina og því verða Willy Sagnol og Vincent Candela að sætta sig við að vera undirspilarar þeirra.

Miðjan er feykisterk hjá frökkum þrátt fyrir að hafa misst Robert Pires í meiðsli. Gamla kempan Youri Djorkaeff var kallaður inn í hans stað en hann er komin af léttasta skeiðinu og erfitt verður að segja til um hvernig formið verður hjá honum. Patrick Vieira og Emanuel Petit eru báðir líklegir til að mynda sterkt par á miðjunni með Zinedine Zidane sem leikstjórnanada þar fyrir framan. Aðrir miðjumenn sem koma munu til greina eru þeir Claude Makalele, Alain Boghossian og Johan Micoud. Fullvíst er að erfitt er að finna miðju sem er jafnvel skipuð og miðja Frakka.

Ekki eru frakkar á flæðiskeri staddir varðandi sóknarmenn heldur hafa þeir yfir að ráða nokkrum af hættulegustu sóknarmönnum heims í dag. Thierry Henry kláraði leiktíðina á Englandi sem markakóngur, David Trezeguet hefur staðið sig mjög vel í liði Juventus sem vann ítölsku deildina fyrir skömmu og Djibril Cisse þykir einn sá efnilegasti í boltanum í dag. Þar fyrir utan taka Frakkar með sér Silvain Wiltord og reynsluboltann Christophe Dugarry.

Af þessari upptalningu má sjá að Frakkar eru til alls líklegir í Japan og S-Kóreu í sumar. Fyrir utan mjög vel mannað lið hafa þeir einnig unnið tvö síðustu stórmót og búa því yfir mikilli reynslu, sigurvilja og frábærri liðsheild. Með þetta í farteskinu hljóta menn að gera ráð fyrir þeim á allra síðustu stigum mótsins í sumar.

Allavega mundi ég vilja að einhverjir aðrir en þeir sem unnu síðast muni vinna HM núna.

By RaggiS