Hundatónik
Nokkuð hefur verið rætt um hundakjöt í tengslum við HM í Suður Kóreu. Þar í landi er borðað hundakjöt og margir eru á því að landsmenn ættu að hætta þeim sið þegar erlenda gesti ber að garði. Sinn er siðurinn í hverju landi og vitanlega finnst heimamönnum þetta ófært. Þeir vilja endilega bjóða gestunum upp á allt hið besta og telja hundaketið gott en vita sem er að það falli líklega ekki í kramið hjá mörgum. Til að gestirnir geti þó fengið nasaþefinn af krásunum ætla sniðugir Kóreumenn að framleiða nýjan svaladrykk með hundabragði og berjast þannig gegn fordómunum. \“Við ætlum að þróa hundaketstónik í dósum og knattspyrnuunnendur geta þá drukkið þetta á leikjunum,\” sagði Choi Han-Gwon en hann er leiðtogi samtaka veitingastaða sem bjóða upp á hundakjöt. \“Þeir geta drukkið þetta í staðinn fyrir kók,\” sagði Choi. Sjálfboðaliðar munu svo gefa drykkinn fyrir utan Sangam leikvanginn í Seoul. Choi sagði hins vegar ekkert til í fréttum um að ætlunin væri að bjóða hundaketshamborgara og samlokur á vellinum.
Samtökin sem Choi er í forsvari fyrir vilja sýna fram á að ekkert sé athugavert við að snæða hund. Fyrr í mánuðinum buðu þau frönskum námsmönnum í Seoul að smakka kræsingarnar á veitingastað í borginni og margir voru afar hrifnir. Þegar Suður Kóreumenn héldu Ólympíuleikana árið 1988 máttu hundaketsstaðirnir loka eða flytja starfsemina frá aðalgötunum en slíkt verður ekki gert nú í sumar. Yfirvöld segja að það sé smám saman að draga úr hundaátinu í Suður Kóreu en engu að síður eru rúmlega milljón hundar étnir árlega í landinu og 92% karlmanna yfir tvítugt og 68% kvenna hafa smakkað réttinn.

Tekið af boltinn.is

Þetta er viðbjóður. Það var líka forsetinn í Uganda í Afríku sem vildi bjóða öllum gestum sínum mannakjöt. Vonandi hætta Kóreumenn að reyna að markaðsetja hundakjöt og einbeita sér að HM.