Mín spá um 8 Liða Úrslitin:
Vinsamlegast ekki gagnrýna mig eða kalla mig vitleysing og hálfvita af því að ég spái því að uppáhalds liðið þitt sigri ekki. Þetta er einfaldlega mín spá, ekkert sem segir að ég hafi rétt fyrir mér. Endilega komið með eigin álit, en ekkert væl takk. Öll megum við hafa skoðun.
Leikur 1
Þýskaland – Argentína
Ég held að leikur Þjóðverja og Argentínu verði einn sá mest spennandi leikur mótsins hingað til. Hér mæta tvö þrusugóð lið til leiks og verður að sjálfsögðu allt lagt í sölurnar enda þýðir tap flug til heima (allavega hjá Argentínu).
Argentína: Menn hafa verið fjári duglegir að spá Argentínu mönnum sigur í þessari keppni. Sérstaklega eftir 6 – 0 sigurinn gegn Serbíu. Það skal þó segjast að Serbía voru ekki með sérstaklega gott lið í keppninni. Hinsvegar voru Hollendingarnir með nokkuð gott lið og gerðu þeir jafntefli við Argentínu menn. Svo var það 16-liða leikurinn gegn Mexíkó, leikur sem átti (samkvæmt spám flestra) að enda með yfirburðar sigri Argentínu manna. Hinsvegar voru Mexíkó menn fyrsti til að skora og voru hvergi verri í leiknum. Bæði lið voru svo orðin vel þreytt í framlengingu og mega Argentínu menn þakka Maxi fyrir sitt glæsilega mark. Þannig að við höfum séð að Argentínu menn eru ekki að standast undir körfum þegar þeir mæta almennilegu liði. Hinsvegar eiga þeir glæsilega leikmenn sem kunna að klára færin sín og spurning hvort þeir nái að brjóta niður þýsku vörnina sem verður betri og betri með hverjum leik.
Þýskaland: Eitt mest gagnrýnda liðið fyrir mótið og án vafa mest gagnrýndi þjálfarinn fyrir mótið hafa nú breyst í sannkallaðar þjóðar hetjur. Þýska liðið hefur verið ferskt og hefur spilað góðan sóknarleik í þessu móti en þetta tvennt hefur ekki einkennt þýska landsliðið undanfarin ár. Riðilinn var nokkuð auðveldur og tókst þeim því að sigra alla leikina. Vörn Þjóðverja var afskaplega léleg í fyrsta leiknum en virðist verða betri með hverjum leik sem líður. Sóknarleikur Þjóðverja virðist vera þeirra sterkasti liður í ár enda Klose og Podolski alveg frábærir saman og fá þeir stuðning frá klassa miðjumönnum eins og Ballack og Frings. Spurningin er, mun Þýska stálið geta brotið niður Argentínu. Þótt Argentínu mönnum hafi ekki tekist að vera sannfærandi gegn stórliði þá má ekki vanmeta þá og má segja að varnarmenn Þjóðverja eiga að vissu leiti eftir að ráða úrslitum leiksins. Ef framherjar Þjóðverja, og þá sérstaklega Klose og Podolski, ná að spila jafn vel og þeir gerðu á móti Svíum ættu þeir að vera í litlum vandamálum með að setja inn mark.
Mín spá: Þýskaland 2 – 0 Argentína
Leikurinn verður verulega harður og mikið barist og því erfitt að spá um úrslitin. Hinsvegar held ég að Þjóðverjar ná að setja inn tvö mörk snemma leik (kannski ekki alveg jafn snemma og gegn Svíum) og pakka síðan hægt og rólega í vörn. Argentínumenn eiga svo sennilega eftir að sækja það sem eftir er leiks en mun hinsvegar ekki takast að setja inn mark og mun leikurinn enda 2 – 0 fyrir Þjóðverjum. Klose og hugsanlega eftir að setja inn mark, kannski tvö. Nema hann gefi á Podolski og hann klári þetta bara. Þrátt fyrir hugsanlega yfirburði hjá Suður Ameríku mönnunum eiga Þýsku hetjurnar eftir að innsigla sigur úr þessari viðureign.
Leikur 2
Ítalía – Úkraína
Hér er annar leikur sem gæti hugsanlega orðið spennandi, Úkraínu menn hafa staðið sig þokkalega hingað til og það sama má segja um leikmenn Ítalíu. Hvorki Ítalíu né Úkraínu hafa þó tekist að vera verulega sannfærandi hingað til og lentu bæði lið í basli í 16-Liða úrslitunum. Úkraínu menn að sigra Svisslendinga í vítaspyrnukeppni og Ítalir fengu víti á 95 mínútu sem tryggði þeim 1 – 0 sigur gegn Ástralíu.
Ítalía: Margir bestu knattspyrnumanna í heimi koma frá Ítalíu og spila margir þessir snillingar með landsliðinu hér á HM í ár. Hinsvegar hefur þeim ekki tekist að komast á rétt spor í þessari keppni og lentu þeir t.d. í miklu basli gegn Bandaríkjamönnum og endaði sá leikur í jafntefli þótt Ítalir hafi verið einum manni fleiri nánast allan seinni hálfleikinn. Einnig áttu þeir í vandræðum með Ástralíu í 16-Liða úrslitum og endaði sá leikur með því að Ítalir fengu vítaspyrnu á 95 mínútu. Ítalir sluppu með rassinn þar en ef þeir ætla sér lengra í þessari keppni verða þeir að taka sig á og spila eins og Ítölum sæmir, hratt og örugglega. Þeir eru vissulega ekki að fá erfiðasta andstæðinginn gegn sér af þeim liðum sem fara áfram í 8-Liða úrslitin enn Úkraínu menn eru þó til alls líklegir og gætu vel borið sigur úr býtum ef Ítalir taka sig ekki saman í andlitinu og gera þetta almennilega. Ég held að flestir búist við meiru af þeim og ég er handviss um að ef þeir spila eins vel og þeir mögulega geta í leiknum eiga þeir eftir að sigra með yfirburðum.
Úkraína: Úkraínu menn hafa, rétt eins og Ítalir, ekki sýnt nein svaka tilþrif hingað til í þessu móti. Þeim tókst að sigra tvisvar í riðlinum en töpuðu 0 – 4 gegn Spánverjum. Í 16-Liða úrslitum mættu þeir Sviss og endaði sá leikur í vítaspyrnukeppni þar sem Úkraínu mönnum tókst að tryggja sér sigur. Þeir höfðu þó enga yfirburði í þeim leik (stóðu sig reyndar aðeins betur) og má vel segja að vítaspyrnukeppni segi lítið til um getu liðanna. Hinsvegar hefur þeim tekist að komast svona langt og má ekki taka það frá þeim. En ef þeir ætla sér að eiga möguleika í mun sterkari Ítala verða þeir heldur betur að taka sig saman því næsti leikur gæti hugsanlega orðið þeirra erfiðasti, í það minnsta næst erfiðasti. Það er klárt mál að hér má ekkert fara úrskeiðis því Ítalirnir eru duglegir að nýta sér þau mistök sem kunna að verða í varnarleik Úkraínu manna og gæti það kostað þá leikinn.
Mín spá: Ítalía 2 – 0 Úkraína
Ítalirnir vita að þeir eru að fara á móti liði sem er ekki jafn sterkt og þeir og þess vegna tel ég þá eiga eftir að spila mikinn sóknarbolta og Luca Toni mun sennilega setja inn mark. Svo væri nú gaman að sjá Del Piero setja inn mark. Erfitt að spá um markatöluna en ég er hinsvegar viss í mínum sökum að Ítalir sigra þennan leik. Nú keyra þeir fast áfram og Úkraínu menn eiga eftir að lenda í bölvuðu basli þrátt fyrir góða baráttu. Já, vel greiddu gulldrengirnir í ítalíu eiga eftir að ganga út sigurvegarar í þessum leik.
Leikur 3
England – Portúgal
Portúgalir hafa jú tvo leikmenn í banni og hver veit með Ronaldo, verður hann með eða ekki. Spurning sem á mjög líklega eftir að skipta gríðarlega miklu máli. Svo er það líka spurning um hvað Englendingarnir eiga eftir að gera í sínum málum. Eftir frekar slakan leik gegn Ekvador, en ég býst við því að Portúgalar eiga eftir að standa sig talsvert betur en Ekvador menn gerðu gegn þeim Ensku.
England: England er enn ein stórþjóðin sem hefur ekki verið að rúlla yfir litlu liðin. Þeim tókst að sigra Paragvæ og Trinidad og Tóbago, en ekki með einhverjum yfirburðum eins og menn myndu kannski búast við frá þjóð eins og Englandi. Svo virtust þeir ætla að slá í gegn á móti Svíum, en klúðruðu þessu síðan í seinni hálfleik. Þeir geta jú ekki reytt sig á að Beckham skori mark úr aukaspyrnu og tryggi þeim sigur eins og hann jú gerði á móti Ekvador í 16-Liða úrslitunum. En maður hefði viljað sjá miklu meira frá Englendingum í þeim leik og þeir virtust ekki alltaf vera við stjórn í leiknum og Ekvador tókst að gera sig líklega nokkrum sinnum. Englendingar eiga hugsanlega eftir að reiða sig talsvert á Rooney en ef hann verður í stuði er hann til alls líklegur og verða Spánverjar heldur betur að passa sig á þeim ótrúlega leikmanni.
Portúgal: Portúgalar hafa sigrað alla sína leiki hingað til og tókst þeim að sigra Hollendinga 1 – 0 í 16-Liða úrslitum. Þeir tóku alla leikina í riðlinum en lentu þó kannski ekki með sérlega góðum liðum, nema kannski Mexíkó en þeir virtust þó ekki sýna sína réttu hlið gegn Portúgölum. Hinsvegar eru tveir menn í banni og Ronaldo hugsanlega meiddur þegar kemur að leiknum gegn Englendingum og það gæti vel kostað þá sigurinn. Þeir vilja þó meina að það séu 80% líkur á að Ronaldo spili með gegn Englendingum þannig að Ensku fótboltabullurnur verða að gera eitthvað í málunum fyrir leik. Spurningin er hvort Scolari tekst að setja saman nógu sterkt lið til að mæta Englendingum sem hljóta að gera eitthvað í sínum málum.
Mín spá: England 2 – Portúgal 1
Englendingar hafa kannski ekki verið að leika frábærlega á þessu móti hingað til en ég efa að Portúgalar eiga eftir að ná fram sigri samt sem áður. Þá verður erfitt fyrir þá án Deco og ef Ronaldo verður ekki með í leiknum þá eru líkurnar á því að þeir sigri ansi lágar. Það gæti verið 1 – 1 í hálfleik. Ég held að Portúgalar ná forystunni og svo sækja Englendingar í sig veðrið og jafna þetta, og bæta svo einu við rétt undir lokin.
Leikur 4
Brasilía – Frakkland
Frakkar hafa verið harðlega gagnrýndir eftir leiki sína í riðlinum. Hinsvegar eftir frábæran leik gegn Spánverjum þar sem þeim tókst að sigra 3 – 1 þá hlýtur viðhorft til Frakka að hafa breyst töluvert. Brasilíumönnum hafa ekki tekist að standa undir “10 mörk á leik” reglunni sem stuðningsmenn þeirra hafa sett en þeir hafa hinsvegar gert það sem þeir þurfa að gera. Þeim tókst að sigra Ghana menn 3 – 0 en voru alls ekki sannfærandi og miðað við þann leik ættu Frakkar að geta tekið þetta.
Brasilía: Það eru jú ávalt himinháar væntingar til Brasilíumanna og þá erum við ekki að tala um að þeir þurfa að sigra. Þeir eru víst svo góðir að sigur er ekki nóg, þeir verða að gera það með stæl. Enda er lið Brasilíumanna gagnrýnt þrátt fyrir að hafa sigrað alla sína leiki. En það skal þó segjast að þeir eru langt frá því að hafa spilað jafn vel og þeir m.a. gerðu árið 2002. Það mætti þó hugsanlega segja að Frakkar verði fyrstu alvöru andstæðingar Brasilíumanna og miðað við hvernig þeir hafa spilað gæti þeirra Suður Ameríski stíll ekki verið nóg gegn hinum hungruðu Frökkum en þeir eiga eftir að gera allt sem þeir geta enda lentu þeir illa í því á síðasta móti. Ronaldinho þarf að vera meira áberandi. Hann hefur lítið sýnt sig í keppninni hingað til, og miðað við mann sem spáð hefur verið Gull Boltanum þá vill ég sjá meira frá honum. Ronaldo virðist þó loksins hafa fundið réttu skotskónna og á hann því sennilega eftir að ógna marki Frakka oft og mörgum sinnum.
Frakkland: Frakkar, sem stóðu sig hrikalega árið 2002 virtust ætla að endurtaka leikinn í ár. Hinsvegar tókst þeim að sigra Tógó menn og von spratt upp á ný. Hinsvegar voru margir á þeirri skoðun að ,,sigurför” þeirra myndi enda gegn Spánverjum. En reynslan sýnir okkur enn á ný að það er ekki nóg að vera ungur, brúnn, sprækur og með flott tattú. Frakkar áttu virkilega góðan leik, þeir virtust ætla að skíttapa fyrstu mínúturnar eða svo, en svo komust þeir aftur inní leikinn og unnu þetta örugglega; 3 -1. Eftir að hafa séð þennan leik þá eiga Frakkarnir nú hrós skilið. Henry átti meira að segja lélegan leik þannig að það er greinilega ekki nóg að vera með Arsenal mann til að sigra á HM. Ef Henry hefði passað sig örlítið betur hefði hann hugsanlega getað sett inn mark eða tvö enn í staðinn hljóp hann í rangstöðu. Í raun þegar Frakkar komu sér í gang virtust Spánverjar vera í hálfgerðum vandræðum með þá og hver veit nema Frökkum tekst að ná yfirburðum gegn Brasilíumönnum. Þeir spila í raun frábærlega þegar spila ekki hinn algenga kónga bolta; Zidane-Boltinn.
Mín spá; Brasilía 0 – 3 Frakkland
12. Júlí 1998 ætlar að endurtaka sig. Frakkar byrja hægt en taka sig fljótt á og eftir það byrja þeir að raða mörkunum inn og Brasilíumenn koma engum vörnum fyrir. Parreira á alveg pottþétt eftir að láta liðið spila alveg eins og það hefur gert undanfarið, og ég efa að það eigi eftir að virka gegn sterku liði Frökkum. Já, sagan ætlar að endurtaka sig í ár og endar þetta með 3 – 0 sigri Frakka.
Samkvæmt minni spá þá verða leikirnir í 4-Liða úrslitunum svona:
Þýskaland – Ítalía
England - Frakkland