www.bloggsnillingsins.tk

Fyrsta umferð

Alltaf hafði mig langað til að lifa HM stemninguna í einu landi sem tæki þátt. Í Argentínu rættist þessi ósk, og ofan á það virðist Argentína líka hafa raunhæfa möguleika á að vinna mótið. Okkur var gefið frí í skólanum á föstudaginn til að horfa á opnunarathöfnina. Það voru skiptar skoðanir um athöfnina sjálfa, en allir voru sammála um að fyrsti leikurinn hafi verið góður. Reyndar vakti það athygli mína að í beinni útsendingu var í tíma og ótíma skipt yfir á myndir af argentínska liðinu, sem á meðan leiknum stóð ferðaðist frá Nurnberg til Hamborgar – eins og rútuferðin væri jafnvel enn áhugaverðari heldur en leikurinn. Föstudeginum lauk með leiðinlegasta leiknum hingað til á mótinu, en Suður Amerískum sigri sem gladdi marga.
Á laugardaginn var síðan komið að stóru stundinni. Eftir hádegismat klæddu sig allir í ljósblátt og hvítt, stilltu saman strengi sína og gerðu sig tilbúna fyrir níutíu mínútna þrekraun. Við horfðum á leikinn hjá vinafjölskyldu vopnuð landsliðtreyjum, fánum og veifum. Á leiðinni tók ég eftir að allur miðbærinn var annaðhvort á hraðleið heim eða á bar til að horfa á leikinn. Þegar vantaði tíu mínútur í fjögur að staðartíma var enginn lengur sjáanlegur utandyra. Eurovisionstemning.
Leikurinn fór eins og hann fór. Fyrri hálfleikurinn gladdi. Argentínumenn spiluðu vel. Hástökk Crespos og glæsimark Saviola komu okkur yfir. Í hálfleik leið mér eins og við gætum sett fjögur-fimm mörk á Fílabeinsströndina. Eftir klukkutímaleik kom svo að stóru stundinni. Rodrigo Palacio (sóknarmaður Boca Jrs.) kom inná. Hann var manna síðastur í landsliðshópinn en þökk sé þrennu í hans fyrsta landsleik í argentínsku treyjunni, á móti undir 20 ára landsliðinu, fékk hann forgang, bæði yfir Tevez og Messi. Eftir það byrjaði liðið síðan á þeim asnaskap að spila varnarleik. Það kostaði okkur næstum sigurinn. Síðasta hálftímann í leiknum var engum í húsinu rótt. Loks var flautað til leiksloka og fyrstu stiginn í hús. Þökk sé Pato Abbondanzieri (Markmanni Boca Jrs.), Ayala (Borið fram Asjala) og Saviola unnum við. Þetta var þó alls ekki auðveldur leikur og ekki sannfærandi, síst í seinni hálfleik. Það skipti þó engu máli, eftir leikinn hélt fólk út á götur til að fagna sigrinum og skemmta sér. Þorláksmessustemning.
Eftir laugardaginn hefur mótið að sjálfsögðu haldið áfram, og það er spenna fyrir nánast hverjum einasta leik. Ekki að ástæðulausu sem Argentínumenn segjast vera mestu fótboltafíklar heims, en ég var löngu kominn með það á hreint. Þrátt fyrir að það sé erfitt að fylgjast með öllum leikjunum vegna skólans er búið að stilla upp sjónvörpum á ólíklegustu stöðum og ég er að minnsta kosti búinn að sjá eitthvað úr öllum leikjunum. Að mínu mati hefur mótið verið gott hingað til, þó kannski vanti svolítið fleiri mörk. Ég hef að minnsta kosti upplifað jafn margt í kringum HM eins og núna, og hver einasti dagur bíður upp á nýjar minningar, minningar sem munu endast.
Að öðrum leikjum mótsins ólöstuðum hefur skemmtilegasti leikurinn hingað til, fyrir utan Argentínuleikinn, verið Króatía-Brasilía í gær. Það er nefnilega þannig að í skólanum eru staddir 30 nemar frá Santa Catalina í Brasilíu í heimsókn og í gær var gefið frí til að horfa á leikinn. Nemarnir fóru ásamt kennurum úr skólanum á stærsta fótboltabarinn í Tucumán, Locos Por Fútbol (Brjálaðir í fótbolta), sem er einmitt í næstu götu við skólann. Fyrir tveimur árum keypti ég mér króatísku landsliðstreyjuna þegar ég fór þangað í sumarfrí og í gær klæddist ég henni, til stuðnings Argentínu, sem tekur allt fram yfir Brasilíu á HM, nema England. Í seinni hálfleik heimsótti ég krakkana á barnum, við mikinn hávaða og læti. Ég var ekki alveg viss hvort þau myndu fagna mér eða misþyrma þegar ég kom inn, en þau tóku þessu bara vel og við skemmtum okkur konunglega horfandi á leikinn. Brassarnir lögðu enga sérstaka áherslu á að hafa þögn meðan á leiknum stóð, en slógu sambataktinn og studdu sína menn af miklum dug. Í dag var síðan þessi glæsilega mynd af mér í dagblaðinu, í treyjunni með nokkrum “garotinhum”.
Við tekur leikur á móti Serbíu, á föstudaginn. Það er gríðarlega mikilvægt að ná í þrjú stig, en strákarnir hans Jose hafa það sem þarf. Hver veit?, kannski verða leikir Argentínu í mótinu sjö…