Ég sendi þetta beint af www.politik.is
og mer personulega finnst að Ísland ætti ekki að ganga í esb vegna hve það illa kæmi ut fyrir okkur



Frekari stækkun Evrópusambandsins mun verða að veruleika. Á sl. laugardag samþykktu Írar Nice-sáttmálann, sem gerir ESB kleift að bjóða þeim 10 löndum sem óskað hafa eftir inngöngu að ljúka við samningaviðræður síðar á þessu ári og verða svo félagar með öllum tilheyrandi réttindum að tveimur árum liðnum. Írar höfðu áður hafnað Nice-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrir einu og hálfu ári, og um tíma leit út fyrir að stækkun ESB hefði verið stöðvuð af einungis þriðjungi írskra kjósenda. Fyrir kosningarnar nú lá ljóst fyrir að sáttmálinn yrði samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. Þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir höfðu um 63 prósent írskra kjósenda ákveðið að greiða veginn fyrir frekari framþróun sambandsins – nokkuð sem gæti verið Íslendingum ánægjuefni en engu að síður líka varhugavert stöndum við fyrir utan sambandið mikið lengur.

13 þjóðir?
Væntanleg Evrópusambandslönd eru Kýpur, Tékkland, Eistland, Lettland, Litháen, Ungverjaland, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía. Þá hafa forsvarsmenn sambandsins sagt að vel gengur að semja við Búlgaríu og Rúmeníu og Grikkir hafa verið duglegir við að styðja aðildarumsókn erkifjanda sinna Tyrkja (!). Enn sem komið er er þó óvíst hvenær Tyrkland getur hafið aðildarviðræður en bent hefur verið á að mikilvæg skref hafa verið stigin af stjórnvöldum í Ankara á undanförnum misserum í átt að þeim lýðræðisgildum sem eru í hávegum höfð innan ESB.

Gott fyrir Ísland?
Fleiri lönd innan ESB mun hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á Ísland. Fleiri aðildarlönd þýðir að EES-samningurinn – lykill Íslendinga að ýmsum dyrum ESB – mun ná til fleiri landa og það þýða aukin sóknarfæri fyrir íslenskar afurðir, íslenska námsmenn sem vilja leggja stund á nám í þessum löndum og íslensk fyrirtæki sem hafa hug á því að færa út í kvíarnar í pólitísku umhverfi sem þau þekkja. Neikvæðu afleiðingarnar eru helst þær að með stækkun sambandsins verður Ísland ekki jafn samkeppnishæft og það hefur áður verið. Í sumum af þeim löndum sem fá aðild að tveimur árum liðnum vegur sjávarútvegur þungt í vergri þjóðarframleiðslu, kannski hvað helst í Póllandi, Lettlandi og Eistlandi. Samtals eiga þessi þrjú lönd 4.816 kílómetralanga strandlengju og ljóst er að framleiðsla þessarra landa mun nú streyma inn á innri markað ESB hindrunarlaust – afurðir sem eru töluvert ódýrari en íslenskar sjávarafurðir og ekki endilega lakari að gæðum. Breskar húsmæður sem gera sér ferð í Tesco til þess að kaupa í matinn “Fish ‘n’ Chips” munu nú eiga þess kost að kaup íslenskan fisk á u.þ.b. 10 prósentum hærra verði heldur en fisk frá Eistlandi. Ég er ekki viss um að margir Evrópubúar – breskar húsmæður þar með taldar – séu tilbúnir til þess að greiða álagningu fyrir það eitt að sá guli hafi verið dreginn úr sjónum á norðlægum slóðum.

Ísland í ESB
Fjölgun innan raða ESB er enn ein ástæðan fyrir því að Íslendingar eiga að skilgreina samningsmarkmið sín, óska eftir viðræðum við ESB og leggja síðan hugsanlegan samning fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Að Íslendingar setji Evrópumálin á oddinn er orðið að máli sem tengist kjarabaráttu heimilanna með beinum hætti. Vilji íslensk heimili losna úr því svæfingartaki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þjóðina í undanfarin ár er klárt mál hvaða flokk á að kjósa – það vantar ekki nema fjögur prósent upp á að Samfylkingin geti myndað stjórn með Framsóknarflokknum samkvæmt síðustu skoðanakönnun (þar sem Samfylkingin var með 29 prósent fylgi).

Evrópukosning Samfylkingarinnar
Spurningin sem Samfylkingin beinir nú til sinna félagsmanna í Evrópukosningu flokksins markar þáttaskil í íslenskri flokkapólitík. Að öllum flokksmönnum sé gefið jafnt tækifæri til þess að hafa bein áhrif á stefnumörkun flokksins sýnir bæði dirfsku forystunnar og mun bera vitni um það traust sem flokksfélagar bera sannanlega til leiðtoga flokksins. Þegar flokksmenn Samfylkingarinnar hafa tekið ákvörðun um það að samningsmarkmið Íslendinga skuli skilgreind, að óska eigi eftir viðræðum og hugsanlegur aðildarsamningur lagður undir þjóðina til samþykktar eða synjunar getur Davíð Oddsson farið að hreinsa skrifborðið sitt. Takk fyrir komuna, Davíð. Leið 5 fer frá Lækjartorgi heim í Skerjafjörð.