Er þetta svo mikið á hreinu?
Þegar erlendur her (Breskur) kom hér á stríðsárunum þá var það til að koma í veg fyrir að þýskur her tæki landið. Það hefði verið slæmt fyrir bandamenn ef það hefði gerst. Svo leystu bandaríkjamenn bretana af.
Síðar kom kalda stríðið og kommagrýlan. Menn voru svolítið paranoid báðum megin víglínunnar en það er kannski skiljanlegt miðað við það sem á undan hafði gengið. Það var allavegana betra að tilheyra vestrænum ríkjum en að lenda undir oki austurblokkarinnar. Ísland var á þessum árum talin vera mikilvægur hlekkur í vörnum vesturlanda.
Það er því skiljanlegt að hér hafi verið her.
En af hverju er her hér núna? Mikilvægi hans hefur að vísu minnkað en ég held að við verðum að hafa einhverja menn undir vopnum, annars gætu tiltölulega fámennir hópar erlendra öfgamanna ráðist hér inn og tekið þjóðina í herkví. Það væri upplögð leið til að hræða heimsbyggðina. Ef það væri ekki erlendur her þá þyrfti því annað hvort að margfalda víkingasveitina eða stofna innlendan her. Erum við tilbúin til að hækka skatta til að standa undir þeim kostnaði?
Svo er herinn nú ekki alslæmur, þyrlusveitin þeirra hefur bjargað lífi fleiri hundruðum íslendinga. Oft hefur íslenska sveitin orðið að hverfa frá en sú ameríska hefur klárað verkið (að ég tali nú ekki um þann tíma sem við áttum ekki almennilega þyrlu).
Kostnaður við að reka keflavíkurflugvöll er mjög hár en að megninu til er það herinn sem greiðir hann.
Atvinnulíf á suðurnesjum er háð því að þjónusta herinn, ef herinn færi þá er líklegt að margir misstu vinnuna.
Þjónusta við herinn er útflutningur, það eru ófáar krónur sem koma þannig inní landið.
Landhelgisgæslan hefur notið góðs af samvinnu við herinn, þeir hafa m.a. fengið lánuð (án endurgjalds) fullkominn tækjabúnað sem þeir gætu ekki látið sig dreyma um að kaupa.
Ég tel að þetta sé ekki einfallt mál, og vil meina að við verðum að spyrja hvort við séum tilbúin til að:
* minnka öryggi okkar (og þá aðallega sjófarenda) með því að reka burt öflugasta björgunartækið,
* stuðla að auknu atvinnuleysi,
* stórauka útgjöld ríkissjóðs,
* hækka skatta (til að mæta auknum útgjöldum),
* stofna eigin her,
* draga úr innflutning til móts við minni gjaldeyristekjur,
…og eflaust margt fleira. Við verðum ekki mikið vör við herinn dags daglega, það er helst að við heyrum um hann þegar þeir eru að bjarga einhverjum. Ég hef svo ekki orðið var við að herinn hafi skipt sér mikið af okkar innri málum.
Hvað samlíkinguna við Dauðaland varðar þá get ég ekki fallist á hana. Án Bandaríkjanna hefði Evrópa verið illa stödd bæði í fyrri og seinni heimstyrjöldinni (fyrir utan að koma í veg fyrir að Stalín hertæki hana). Svo eyddi kaninn óheyrilegum fjármunum í að byggja Evrópu upp. Ég held því að sú samlíking sé ekki við hæfi.
JHG