Sæll,
Fyrst ber að nefna að ég hafði ritað nokkuð langt og ítarlegt svar til þín í fyrradag en tókst fyrir slysni að eyða því út áður en mér tókst að senda það. Var því ekki beint í stuði til að svara aftur strax. En hér er í afar stuttu máli aðalatriðin úr fyrra svarinu:
Svarið við spurningu þinni er tvíþætt. Í fyrsta lagi höfum við ítrekað tekið fram í flestum viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við okkur að við höfum stefnu í flestum málaflokkum. Gallinn er hins vegar sá að fjölmiðlar hafa yfirleitt mestan áhuga á einhverju sem gerir eitthvað sérstakt, eitthvað sem er svo að segja eingöngu bundið við viðkomandi aðila. Ein mesta sérstaða okkar er vissulega sú að við höfum stefnu í innflytjendamálum, málaflokki sem aðrir stjórnmálaflokkar hafa enga ákveðna stefnu í nema þá helzt Samfylkingin sem hefur jú allt aðra sýn á málið en við. Þetta er því það sem fjölmiðlar hafa viljað tala fyrst og fremst um við okkur. Að sumu leyti er það þó ekki galli og kemur þá að síðari hluta svarsins.
Við höfum í annan stað vissulega einbeitt okkur töluvert að þessum málaflokki ekki sízt vegna þessarar sérstöðu okkar og þar af leiðandi skorti á umfjöllun á þeirri hlið málsins sem við stöndum fyrir, þ.e. skynsamlegt aðhald og ábyrgð. Við getum þó ekkert gert að því þó einhverjir skilgreini öfgalausar og málefnalegar umfjallanir um málaflokkinn ranglega sem rasisma eða eitthvað þvíumlíkt. Það segir einungis mest um eigið innræti viðkomandi. Við viljum hins vegar höfða til heilbrigðrar skynsemi fólks og í flestum tilfellum hefur það skilað sér með ágætum. Þó hin pólitíska rétthugsun gegnsýri margt hér á landi, sem víða annars staðar, þá hefur það sem betur fer ekki enn þýtt að fólk hugsi almennt ekki sjálfstætt.
Kv.
Hjörtur<br><br>Með kveðju,
Hjörtur J.