Sæll félagi,
Gott að vita til þess að skrif mín hafi einhver jákvæð áhrif á þig þó þau virðist ekki takast að opna augu þín fyrir hlutum sem þú virðist ekki kæra þig um að vita af.
Ég hef kynnt mér Evrópumálin frá báðum hliðum og lesið margt eftir bæði andstæðinga aðildar að ESB sem og þá sem eru hlynntir aðild. T.a.m. les ég allar blaðagreinar með og á móti sem ég kemst í. Þetta hef ég gert í a.m.k. um 6 ár. Sá lestur hefur einmitt leitt til þess að ég hef tekið eindregna afstöðu gegn aðild að Evrópusambandinu.
Gaman væri síðan að fá rök fyrir eftirfarandi órökstuddu fullyrðingum, þau virðast hafa “gleymst”:
“Í málefnum ESB er þetta bara þannig að því meira sem þú kynnir þér, því minna meika rök andstæðinga aðildar sens.”
“Málflutningur Heimssýnar nær bara ekki neinni átt og getur ekki á neinn hátt verið bendlaður við víðsýni að neinu tagi. Það er helmingi meira mál að mæla með ESB heldur en að tala gegn inngöngu, aðeins vegna þess að það eru gerðar kröfur um mun vandaðari málflutning á meðan andstæðingar rangstaðhæfa bara eitthvað útí loftið.”
Að lokum er hér lesefni fyrir þig:
Nokkur orð um evruna
Eitt af þeim atriðum sem rætt er um í tengslum við Evropusambandið er hvort við Íslendingar eigi að taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn gerumst við aðilar að Evrópusambandinu. Ákveðnir aðilar, sem hlynntir eru aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar, tala um að íslenzka krónan sé veikur og óstöðugur gjaldmiðill og að um allt annað líf yrði að ræða ef við tækjum upp evruna. Stöðugleiki í efnahagskerfinu myndi aukast, vextir og verðlag lækka, atvinnuleysi minnka, hagvöxtur aukast og viðskipti eflast.
Andstæðingar aðildar benda hins vegar á að fullyrðingar Evrópusambandssinna, um að evran hefði í för með sér eintómt sældarlíf, væri algerlega úr lausu lofti gripið og að gallar þess að taka evruna upp væru það miklir að ekki geti til greina komið að taka evruna upp sem gjaldmiðil Íslands.
Almennt um evruna
“Sameiginleg evrópsk mynt er í eðli sínu vinsæl meðal almennings sem sleppur við að afla sér gjaldeyris á ferð um aðildarríkin og nokkur sparnaður næst hjá fyrirtækjum. Ókostirnir sem fylgja því að afsala sér eigin mynt eru hins vegar verulegir þótt minna sé um þá rætt.
Í sjálfstæðu ríki er gengisskráning eigin myntar ásamt ákvörðun vaxta og skatta helstu ráðin til að berjast gegn neikvæðum afleiðingum hagsveiflna sem hafa þá áráttu að keyra hagkerfi þjóðanna út af sporinu, ýmist með háskalegri ofþenslu eða alvarlegum samdrætti og atvinnuleysi. Ríki sem búa við samsvarandi efnahagskerfi geta tekið upp sameiginlega mynt með góðum árangri. Efnahagskerfið á Íslandi er hins vegar verulega ólíkt efnahagslífi aðildarríkja ESB. Hagsveiflur hér eru oft brattari en annars staðar og úr takti við hagsveiflur í ESB. Hér er það t.d. útflutningsverð á sjávarafurðum sem mjög ræður ferð hagsveiflunnar en það á ekki við ESB.
Það yrði Íslendingum afar óhagstætt ef gengi myntar þeirra tæki ekki lengur mið af íslenskum aðstæðum heldur kringumstæðum í löndum þar sem ástand mála er allt annars eðlis. Sama á við um beitingu skatta og vaxta sem nú er farið að miðstýra í ESB.” (Fullveldi.is)
Um stöðugleika
Nefnd sænskra fjármálasérfræðinga, sem falið var af sænsku ríkisstjórninni að fjalla um kosti og galla þess að taka upp evruna í Svíþjóð, komst að þeirri niðurstöðu að upptaka hennar gæti aukið á efnahagslegan óstöðugleika í landinu. Ennfremur að vel væri líklegt að upptaka hennar leiddi ekki til þeirrar lágu verðbólgu og þess lága vaxtastigs sem sumir hafa gefið sér að yrði. Þess í stað taldi nefndin að upptaka evrunnar gæti allt eins leitt til hærri vaxta og aukinnar verðbólgu. Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við niðurstöður danskra sérfræðinga sem á sínum tíma var falið sama verkefni af dönskum stjórnvöldum. Niðurstöður þessara nefnda, sem báðar störfuðu fyrir ríkisstjórnir hlynntar Evrópusambandinu, þykja mikið áfall fyrir Evrópusambandssinna.
“Nefnd þekktra sænskra hagfræðinga hefur varað við því að upptaka evrunnar í Svíþjóð gæti orðið til þess að auka efnahagslegan óstöðugleika í landinu. Þetta kemur fram í breska dagblaðinu The Daily Telegraph og segir í frétt þess að niðurstaða fræðimannanna sé áfall fyrir þá sem ákafast hvetja til þess að Svíar taki upp evruna.“ (Mbl. 22. febrúar 2002)
Um vexti
“Upptaka evru gæti þýtt hærri vaxtakostnað hér á landi. Sérfræðingar Landsbanka Íslands telja að ef Ísland gengi í Evrópusambandið, og tæki upp evruna, gæti það leitt til hærri vaxta á íbúalánum og jafnvel þýtt í heildina litið að vextir hér á landi myndu almennt hækka. Þetta gengur þvert á yfirlýsingar ESB-sinna sem slegið hafa því föstu að aðild að sambandinu og upptaka evrunnar myndi þýða almennar vaxtalækkanir hér á landi. Þetta mat Landsbankans er hins vegar í samræmi við hliðstæðar skýrslur sérfræðinganefnda bæði í Svíþjóð og Danmörku sem hafa komist að sömu niðurstöðu. Í Markaðsyfirliti Landsbankans segir m.a.:
”Það má velta vöngum yfir því hvort upptaka evrunnar muni hafa minni áhrif á vaxtakjör heimilanna en hnattvæðingarnefnd heldur fram. Ástæða þessa er sú að upptaka evrunnar mun hugsanlega hafa lítil áhrif á kjör íbúðalána sem eru nú um 50% af heildarskuldum einstaklinga. Við inngöngu í Evrópusambandið er líklegt að afnema yrði ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og gera arðsemiskröfu til þess fjármagns sem bundið er í þeirri útlánastarfsemi. Þetta gæti leitt til þess að dýrara yrði að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði og er hugsanlegt að þessi hækkun vegi upp þá vaxtalækkun sem gæti átt sér stað við upptöku evru. Ef þessi röksemdafærsla stenst gætu áhrif upptöku evru á þannan þátt vaxtakostnaðar heimilanna orðið lítil sem engin, í versta falli til hækkunar á vaxtakostnaði heimilanna.“ (Framfarir.net, Mbl. 11. maí 2002)
“Ýmsir flíka mjög meintum hagnaði þjóðarinnar í kjölfar vaxtalækkunar við upptöku evrunnar sem gjaldmiðils á Íslandi. En þess ber að gæta að vaxtabreytingar breyta fyrst og fremst hagnaði eða tapi lánardrottna og skuldara innbyrðis hér innanlands en hafa lítil áhrif á afkomu þjóðarbúsins. Við þurfum ekki að fara í ESB til að fá hér lægri vexti.” (Fullveldi.is)
“Að mati áðurnefndrar nefndar sænskra hagfræðinga kann að vera að evran leiði ekki til þeirrar lágu verðbólgu og þess lága vaxtastigs sem stuðningsmenn evrunnar ganga yfirleitt út frá sem vísu.” (Mbl. 22. Febrúar 2002)
Um verðlag
“Miklar verðhækkanir hafa fylgt evrunni í Frakklandi. Frönsku neytendasamtökin Que Choisir segja að verð á matvöru og öðrum nauðsynjum hafi hækkað töluvert í landinu frá því að evran, sameiginlegur gjaldmiðill Evrópusambandsríkjanna, var tekin í notkun fyrr á þessu ári. Könnun samtakanna er sögð staðfesta áhyggjur neytenda af því að kaupmenn hafi nýtt sér gjaldmiðilsbreytinguna til vöruhækkana.
Samkvæmt fréttum blaðsins Le Figaro sýnir könnun samtakanna, sem birt verður í heild sinni á morgun, að verð hafi hækkað um 4% frá nóvember árið 2000 og fram í mars árið 2002. Þá segja samtökin að allt bendi til þess að hækkunin verði orðin 10% í nóvember næstkomandi.
Könnun Que Choisir var gerð í 1.000 matvöruverslunum og náði til 55.000 matvörutegunda og annarra nauðsynja til heimilisins.
INSEE, tölfræðistofnun franska ríkisins, sagði nýlega að neysluvörur hefðu hækkað um 1,6% á síðastliðnum 12 mánuðum en sú niðurstaða er byggð á öðrum vörutegundum en kannaðar voru í könnun Que Choisir.
Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins, segir að verðbólga í evrulöndunum hafi verið 1,8% í júní og 1,9% í júlí.” (Mbl.is. 27. ágúst 2002)
Sömu sögu er að segja um ýmis önnur lönd sem hafa tekið evruna upp, s.s. Grikkland.
Um atvinnuleysi
Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 9. maí sl. var lögð fram skýrsla sem tekin var saman af hagfræðingunum Ásgeiri Jónssyni og Sigurði Jóhannessyni fyrir samtökin. Skýrsla þessi ber heitið ”Sveigjanleiki á vinnumarkaði og upptaka evrunnar“ en samkvæmt henni mun upptaka evru á Íslandi leiða til þess að sveigjanleiki á íslenzkum vinnumarkaði, sem hingað til hefur allajafna verið mjög mikill, glatizt.
Rannsókn tvímenninganna gefur til kynna að upptaka evrunnar hér á landi muni draga úr svigrúmi á íslenzkum vinnumarkaði. Ennfremur kemur fram í skýrslunni að upptaka evrunnar muni auka líkurnar á svokölluðu kreppuatvinnuleysi, þ.e. fjöldaatvinnuleysi, sem er eitthvað sem menn hafa ekki þekkt hér á landi síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldarinnar. Slíkt fjöldaatvinnuleysi er hins vegar velþekkt og viðvarandi fyrirbæri víða á meginlandi Evrópu og stafar það að miklu leyti af skorti á sveigjanleika á vinnumörkuðum þar að mati skýrsluhöfunda. Upptaka evrunnar víða á meginlandinu hefur síðan síður en svo bætt þá stöðu.
Í skýrslunni segir m.a. orðrétt: ”Upptaka evrunnar myndi því draga úr svigrúmi íslenskra stjórnvalda til þess að viðhalda fullri atvinnu. … Sú stefna að færa taxta nær greiddum launum getur því falið í sér töluverðan kostnað fyrir þjóðfélagið með kreppuatvinnuleysi ef á móti blæs í efnahagslífinu og ekki verður lengur hægt að mæta vandanum með peningaprentun og verðbólgu.“
Í skýrslunni segir ennfremur að lítil ríki eigi auðveldara um vik með að bregðast við atvinnuleysi og stöðnun í hagvexti en stærri ríki. Evran þýði endalok sjálfstæðrar peningamálastefnu og svigjanlegs gengis og skapi þannig mikinn ósveigjanleika á vinnumarkaði. Því er gert ráð fyrir að sameiginlegur gjaldmiðill, eins og evran, auki verulega líkurnar á fjöldaatvinnuleysi í þeim löndum sem taka hann upp. (Framfarir.net, Morgunblaðið, 8. maí 2002)
“Atvinnuleysi á árinu 2000 var margfalt meira í ESB en á Íslandi og í Noregi. Meðalatvinnuleysi í ESB var 8,4% í febr. 2000, 7,6% í febr. 2001 og 7,7% í febr. 2002. Á Íslandi var það 1,5% í febr. 2001 og 2,6% í febr. 2002. Heimild: OECD Economic Outlook og Seðlabanki Íslands.” (Fullveldi.is)
”7,6% atvinnuleysi í ESB löndum. Atvinnuleysi í aðildarríkjum Evrópusambandsins mældist 7,6% í apríl síðast liðnum samkvæmt tölum sem birtar voru í dag. Það er litlu meira en atvinnuleysið mældist í mars. Atvinnuleysi er nokkru meira í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem hafa tekið upp evruna. Þar mældist atvinnuleysi 8,3%, var 8,2% í mars.” (Vísir.is. 5. júní 2002.)
Um hagvöxt
“Vegnar stórum ríkjum í Vestur Evrópu betur í hagvaxtarkapphlaupinu en litlum ríkjum? Síður en svo! Hagvöxtur árin 1971 - 2000 á Íslandi og í Noregi sem bæði stóðu utan ESB var miklu hraðari en að meðaltali í ESB-ríkjum, OECD-ríkjum eða Bandaríkjunum.” (Fullveldi.is)
Um hagsveiflur
“Hagsveiflurnar eru ekki í takt. Kjarni málsins er sá að utanríkisviðskipti Íslendinga eru aðeins að hluta við evrulönd. Stærsti hluti utanríkisviðskipta Íslendinga fer fram í dollurum. Það er mikið blygðunarleysi þegar stuðningsmenn aðildar að ESB hefja upp sönginn um gagnsleysi íslensku krónunnar og básúna kosti þess að taka upp evruna án þess að geta þess að evran hefur á stuttu æviskeiði sveiflast mjög gagnvart dollar. Íslenskt hagkerfi sveiflast alls ekki í takt við þær hagsveiflur sem helst einkenna efnahagslíf í evrulöndum.
Á árinu 1999 glímdu flest evruríkin við stórfellt atvinnuleysi og hægan hagvöxt og þeim hentaði því vel að vextir væru sem lægstir og gengið sömuleiðis til að örva útflutning. En á Íslandi var staða mála þveröfug. Ef Íslendingar tækju upp evruna og afsöluðu sér sjálfstæðri stefnu í peningamálum gæti það komið sér vel fyrir takmarkaðan hóp fyrirtækja sem eingöngu framleiða fyrir markaði evrulanda. En sjávarútvegurinn er háðari pundi og dollar en evru og myndi gjalda þess. Jafnframt yrði hálfu verra að kljást við hvers konar efnahagsleg vandamál sem upp koma þegar að kreppir og hætt við að atvinnuleysi gæti mjög farið vaxandi til tjóns fyrir atvinnulíf og launafólk.” (Fullveldi.is)
Um viðskipti
“ESB er tollabandalag sem afnemur tolla í innbyrðis viðskiptum en setur upp tollmúra gagnvart þeim sem utan við standa.
Fríverslunarsamningar einstakra aðildarríkja við ríki utan ESB falla því niður við aðild. Við Íslendingar höfum gert mjög hagstæða samninga við ýmis ríki utan ESB, t.d. við Færeyjar, Tyrkland, Ísrael og ýmis ríki Mið- og Austur-Evrópu.
Við fengjum því víða á okkur innflutningstolla ef við gengjum í ESB. Sívaxandi sókn okkar inn á markaði utan ESB gæti verið í hættu og eins gætum við hæglega orðið fórnarlömb viðskiptastríða sem ESB er alltaf öðru hvoru að lenda í við önnur markaðssvæði.
Sama gildir um fiskveiðisamninga. Samningsumboðið myndi við aðild flytjast til stofnana ESB. Samningar Íslendinga við Grænland, Færeyjar og Noreg um síld og loðnu myndu til dæmis falla niður. Hvort ESB gerir síðan nýja samninga við þessi ríki fyrir okkar hönd og hvernig þeir samningar yrðu er önnur saga. Hagsmunir ESB eru allt aðrir en við myndum missa réttinn til að semja sjálfir um slík mál. Forræðið flyst til ESB.” (Fullveldi.is)
Um skatta
“Hækka eða lækka skattar? Margir ganga út frá því sem gefnu að innganga Íslands í ESB færi okkur gull og græna skóga. Það er þó á miklum misskilningi byggt. Einhver ávinningur yrði af aðild fyrir íslensk fyrirtæki í formi lækkaðs rekstrarkostnaðar vegna lægri vaxta og viðskiptakostnaðar. En samkvæmt skýrslu stjórnvalda vorið 2000 þyrfti Ísland að greiða rúma 8 milljarða kr. árlega í skatt til sameiginlegra fjárlaga ESB. Sú upphæð hefur í vetur numið 9,5 -10,5 milljörðum kr., breytileg eftir gengi krónunnar og evrunnar, og jafnast á við um 2,5 % í tekjuskatti einstaklinga en það teldist að sjálfsögðu veruleg tekjuskerðing hjá þorra launafólks.
Enginn vafi er á því að við mikla fjölgun aðildarríkja til austurs hækka þessir skattar verulega og því hafa talsvert hærri tölur heyrst nefndar, jafnvel 12-13 milljarðar kr. þótt nú sem stendur sé þak á þessum greiðslum miðað við 1,27% af þjóðarframleiðslu.” (Fullveldi.is)
“Sérstakur Evrópuskattur í býgerð. Athyglisvert er að forseti framkv.stj. ESB, Romano Prodi, hefur gert tillögu um sérstakan Evrópuskatt sem ESB geti sjálft ákveðið (Mbl. 24/5/02). Ekki lækka skattarnir til ESB við þá breytingu.” (Fullveldi.is)
Um gengið
“Á árinu 2001 féll gengi íslensku krónunnar í kjölfar þess að markaðurinn var látinn ráða genginu. Gengisfallið var afleiðing af stórfelldum viðskiptahalla undangenginna ára sem átti rætur að rekja til þess að losað var um allar hömlur á erlendum lántökum og bankar lánuðu út miklu meira fjármagn en nam innlendum sparnaði. Þessi hömlulausa dæling erlends lánsfjár inn í hagkerfið, m.a. með stórauknum yfirdráttarskuldum einstaklinga hlaut fyrr eða síðar að enda með gengisfalli.
Gengisfall myntar er til marks um veikleika í hagkerfinu. Miklu skiptir þó hvenær gengið fellur eða stígur. Gengisfall veldur mestu tjóni ef það verður á sama tíma og hagkerfið er að ofhitna. Þannig var ástatt á árinu 1999. Þá var evran í frjálsu falli mánuð eftir mánuð og lækkaði gagnvart dollar um nærri 30 % á rúmu ári. Ef evran hefði ráðið verði íslensks gjaldmiðils hefði það verkað eins og olía á eldinn og sett íslenska hagkerfið í enn meiri kreppu en varð.
Seinastu 8 mánuði (frá nóvemberlokum 2001) hefur íslenska krónan styrkst gagnvart evru um 12%.” (Fullveldi.is)
Hvað kemur til baka?
“Stuðningsmenn aðildar fullyrða að talsverður hluti skattsins til ESB komi aftur til Íslands í formi styrkja til landbúnaðar, sjávarútvegs og byggðamála. Það er hugsanlegt en óvíst með öllu. Íslensk stjórnvöld hafa barist gegn styrkjum til sjávarútvegs og vilja að þeir verði hvarvetna bannaðir en styrkir í landbúnað gera lítið annað en bæta að hluta til það tjón sem ESB-aðild veldur íslenskum bændum. Tap íslenskra skattgreiðenda við aðild breytist ekkert þótt einstaklingar og fyrirtæki næli sér í einhverja styrki frá ESB.” (Fullveldi.is)
Með góðri kveðju,
Hjörtur J.
„Alla þá áratugi, sem sjálfstæðisbarátta Íslendinga var háð, var þjóðin einhuga að kalla og einbeitt. Menn greindi á um leiðir á köflum, en markmiðið var í höfuðatriðum eitt og hið sama. Afstaðan út á við stjórnaðist af íslenzkum rökum eingöngu, rökum íslenzkrar sögu, kennda og hagsmuna.“ -Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands.<br><br>Með kveðju,
Hjörtur J.
“Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra er vilja vernda og efla íslenzkt þjóðerni og íslenzka tungu og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt, gott og fagurt.” -Margrét Jónsdóttir, skáldkona, höfundur ljóðsins “Ísland er land þitt”.
“Það er fyrst og fremst um það að velja, hvort Ísland fær að ala íslenzka þjóð … eða hvort landið á að verða selstöð fjarlægra milljónaþjóða og gröf sinnar eigin þjóðar …” -Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands.
“Við verðum … að varast það að vera of bláeyg í afstöðu okkar til aðflutnings fólks. Nágrannalöndin hafa mörg hver þurft að viðurkenna að mikill munur á almennri afstöðu fólks til grundvallarreglna mannlegs samfélags getur leitt til vandræða.” -Sigurður Guðmundsson, fyrrv. forstöðumaður Þjóðhagstofnunar.