Mér hefur alltaf þótt betra að reyna að skilja það sem ég er að reyna að svara (auðvitað með misjöfnum árangri, eins og gengur og gerist). Til að skilja einhverja setningu, líkingu eða fullyrðingu er nauðsynlegt að vita í hvaða samhengi hún er sett fram.
Lítum fyrst á þá fullyrðingu lacitilop sem flest svör mín beindust gegn (og þér þykir síðan sérstök ástæða til að ræða):
"[Þ]að [að setja viðskiptaþvinganir á Austurríki eftir að Haider komst til valda] var ekki ólýðræðislegt því að fólk verður að taka afleiðingum af því sem það kýs ef að valið er rangt og heimskulegt eins og í þessu tilviki.“
Semsagt, að knýja fram nýjar kosningar vegna þess að þeim hugnaðist ekki niðurstaðan er ekki lýðræðislegt. Ef til vill var óhepplegt að notast við Alþingiskosningar; betra hefði verið að notast við sveitastjórnarkosningar. Spurningin myndi þá hljóma einhvern veginn á þessa leið:
”Þannig að þegar Reykvíkingar kusu R-listann í borgarstjórn í síðustu kosningum gæti Davíð eða ríkisstjórnin sagt þetta vera rangt og heimskulegt val og heimtað nýjar kosningar?“
Málið snýst semsagt um það hvort að einhver geti heimtað nýjar kosningar vegna þess að hann telur niðurstöður fyrri kosninga vera rangar eða óásættanlegar.
Og um virkjanadæmið er svipaða sögu að segja. Kannske þarf að benda á nokkur augljós atriði, eins og t.d. það að það var um þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða en ekki einhverja lásí Gallup-könnun, eða kannske að ríkisstjórnin segði, að atkvæðagreiðslu lokinni, að hún sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og myndi virkja hvort sem er. Kannske hefði verið nær að hafa dæmið á þann veg að stjórnin hefði heimtað nýja kosningu - og svo aftur og aftur þangað til að ”rétt“ niðurstaða fengist.
Ég get hins vegar ekki fellt mig við þessa fullyrðingu þína að enginn geti skorið úr um það hvort að umtalaður ”vilji“ þjóðarinnar sé á einhvern hátt rangur eða heimskulegur. Ef það væri t.d. eindreginn vilji þjóðarinnar allrar að allt ljóshært fólk skyldi skotið eða að Ísland ætti að gera innrás í Bandaríkin, þá held ég að það sé alveg ótvírætt hægt að segja að fyrri viljinn sé rangur en sá síðari heimskulegur. Sá fyrri væri rangur vegna þess að það er rangt að myrða fólk, og jafnvel enn ”rangara“ að myrða það vegna einhvers útlitseiginleika. Sá síðari væri hins vegar heimskulegur vegna þess eins að Ísland á ekki roð í Bandaríkin, jafnvel þótt við myndum stofna okkar eigin her.
Svo er auðvitað ýmislegt annað við þetta að athuga, það er t.d. vafasöm fullyrðing að hópur hafi einhvern sérstakan vilja. Vilji 51% hópsins einhvern valkost A, en 49% vilja valkost B, þá mun hópurinn vissulega kjósa A. Hins vegar er það ekki vilji hópsins. Þetta verður auðvitað enn augljósara þegar fleiri kostir eru í boði. Sé um A, B og C (og segjum bara að þetta séu listar í Alþingiskosningum) að ræða, og atkvæði raðist þannig að A fær 25%, B 35% en C 40% þá er engin trygging fyrir því að vilji meirihlutans nái fram. T.d. gætu 90% þeirra sem völdu A viljað að A færi í stjórn með C, og 80% þeirra sem kusu B vilja alls ekki sjá B í stjórn með A, en samt færu mál þannig að A og B mynduðu stjórn. Þá er augljóst mál að meirihlutinn fékk að ráða litlu. Svo má líka líta á hitt, að hópur er ekki skyni gædd vera og þaðan af síður einstaklingur og getur því naumast talist hafa nokkurn vilja yfirhöfuð.
Lítum svo aðeins á síðasta liðinn. Ég er ekki að halda því fram að ríki ESB séu eitthvað sérstaklega ólýðræðisleg með þessum orðum. Ég er að benda á hugsanavillu lacitilop sem felst í þessum orðum:
”[É]g tel þetta heimskulegt hjá ritter að saka ESB um að vera ólýðræðisleg t.d. af því að ESB hefur hjálpað mörgum löndum að koma á lýðræði [...]“
Villan felst í því að ætla að þar sem að ESB-ríki hafi gert eitt og annað til að koma á lýðræði í hinum og þessum ríkjum, þá séu ríki ESB, eða ESB sjálft ef því er að skipta, lýðræðisleg líka. Væri þetta rétt, þá mætti alveg eins segja Bandaríkin vera einræðisríki, þar sem þau hafa stutt einræðisherra til valda. En ég er ekki að halda því fram að ESB sé ólýðræðisleg stofnun eða þá að lýðræði sé skammt á veg komið í ríkjum þess.
Og já, meðan ég man: Ég var ekki að líkja ESB við ”Dabba kóng“ (og kommon - hverslags aulaskapur knýr fólk til að gefa mönnum svona viðurnefni? Miklu nær væri að kalla hann ”Bubba kóng“, eins og var raunar gert um tíma, þar sem hann lék jú einu sinni Bubba kóng á sínum menntaskólaárum). Að minnsta kosti ekki í neinni bókstaflegri merkingu eins og þú virðist vilja ”skilja" (raunar er á mörkunum að það takist hjá þér og því lendir þetta innan gæsalappa) þetta. Þótt ég setji Davíð í sömu stöðu og stjórn ESB (eða hverra þeirra sem heimtuðu þvinganir á Austurríki uns ný ríkisstjórn tæki við, eða a.m.k. að Haider færi frá) þá er ekki þarmeð sagt að mér þyki eitthvað sérstaklega líkt með þeim tveim. Alveg eins og ég er ekki að segja ESB líkjast illa menntuðum auðkýfing. Annars var ég ekki að tala um Davíð sem persónu, heldur var ég frekar að tala um forsætisráðherrann - en svo vill til að forsætisráðherra Íslands í dag heitir Davíð Oddson. Mér þykir alltaf skemmtilegra að nota nöfn heldur en titla, þannig að það er svo sem skiljanlegt að þú hafir átt í smá vandræðum með að skilja.<br><br>Þorsteinn.