Tekið af samtökum iðnaðarins, www.si.is
Um áhrif evrunnar á hagvöxt á Íslandi
Mikið er nú rætt og ritað um kostnaðinn við aðild að ESB. Í þeirri umræðu vantar tilfinnanlega sýn á það hver heildarávinningurinn af aðild gæti verið. Í þessari grein er leitast við að leggja heildstætt mat á ávinninginn, bæði lækkun á kostnaði í hagkerfinu og aukningu á hagvexti. Almennt er álitið að mestu áhrifin fylgi upptöku evrunnar. Víðtækar rannsóknir á áhrifum sameiginlegrar myntar á hagvöxt hafa leitt í ljós að sá ávinningur er töluverður. Til að fá heildarsýn á ávinninginn er gagnlegt að fara yfir og meta einstök atriði þótt óumflýjanlega sé það háð þó nokkuri getspá. Hér er birt sú niðurstaða að kostnaður í hagkerfinu muni lækka sem nemur allt að 44 milljörðum við inngöngu í ESB og upptöku evrunnar og að hagvöxtur aukist varanlega um 0,4% ári.
Í frægri grein fjalla hagfræðingarnir Jeffrey Frankel og Andrew Rose um rannsóknir sínar á áhrifum sameiginlegrar myntar á útflutning- og hagvöxt 1). Markmið þeirra var að mæla þau áhrif.
Allt frá tímamótagrein Robert Mundell um sameiginleg myntsvæði árið 1961 hefur mikið verið ritað og rætt um áhrif sameiginlegrar myntar á viðskipti milli landa. Flestir eru sammála um að slíkt hljóti að gera viðskiptin mun auðveldari en þegar þau eru byggð á ólíkum myntum. Ástæðan er sú að sameiginleg mynt eyðir gengisáhættu, auðveldar verðsamanburð, eykur samkeppni og lækkar vöruverð og vexti. Slíkt bætir stöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni en það stuðlar að auknum útflutningi og meiri fjárfestingu. Þá stuðlar aukin milliríkjaverslun að frekari alþjóðlegri sérhæfingu sem eykur hagkvæmni. Allt legðist þetta á eitt að auka hagvöxt.
Frankel og Rose notuðu nýlega tölfræðilega aðferðafræði sem gerði þeim kleift að athuga samspil ýmissa þátta í gögnum fyrir 200 lönd yfir langt tímabil (panel data estimates). Niðurstaða hagmælinga þeirra var tvíþætt.
Annars vegar fundu þeir að þegar ríki tóku upp sameiginlega mynt þrefaldaðist útflutingurinn til ríkja á myntsvæðinu. Ef til vill er þó meira um vert að aukningin átti sér stað án þess að drægi úr viðskiptum við ríki utan myntsvæðisins. Því jókst verulega útflutningur ríkja sem tóku upp sameiginlega mynt.
Þetta er í samræmi við reynslu ESB ríkjanna en eins og meðfylgjandi mynd sýnir hefur útflutningur ESB ríkjanna aukist um 4 til 5 prósent umfram hagvöxt að meðaltali síðust sjö ár. Á sama tíma var útflutningur einungis lítið eitt meiri en hagvöxtur hjá litlum ríkjum á borð við Nýja-Sjáland, Noreg og Ísland sem eiga það sammerkt að standa utan myntbandalaga. Þrátt fyrir það var hagvöxtur smærri ESB ríkjanna og þessara smáþjóða sambærilegur á tímabilinu. Munurinn er þó helst sá að Noregur naut góðs af olíugróðanum en hagvöxturinn á Íslandi byggðist meira á neyslu og fjárfestingu sem var fjármögnuð að miklu leyti með erlendum lánum.
kv;vigni