“Grundvallarreglur mannlegs samfélags eru nefnilega afar ólíkar
í mismunandi heimsálfum og einstökum löndum … ”
Grundvallarreglur mannlegs samfélags eru þvertámóti afar líkar á milli landa. Mér er til dæmis ekki kunnugt um neitt það land þar sem að þjófnaður er ekki lögbrot (nema maður taki upp viðhorf ný-frjálshyggjumanna (sem er raunar misnefni, þarsem að það er ekkert “nýtt” við þessa gerð frjálshyggju, sem sést vel á því að þeir hampa Bastiat svo mjög, en hann var dauður 1850) um að öll skattlagning sé “hnupl” - en við skulum ekkert fara í slíka þvælu hér). Og þau eru fá, löndin, þar sem að það er alveg leyfilegt að myrða annan mann.
Hins vegar er svo gaman með orðið “morð”, að það er frekar hált orð (ef svo má að orði komast). Hér áður fyrr á Íslandi var það aðeins morð að drepa mann úr launsátri. Í mörgum löndum, t.d. sumum fylkjum BNA virðist það ekki vera talið morð að taka mann af lífi - og það er hvergi talið morð að drepa dýr. Ef satt er, að múslimskir feður stundi það að drepa dætur sínar ef þær óhlýðnast boðum hans, þá er ég all-viss um að þar sé það ekki kallað “morð” - eða, öllu heldur, að þýðingin á því orði sem notað sé er ekki “morð” heldur eitthvað annað - t.d. “dráp” eða “heiðurvörn”, eitthvað í þeim dúr.
Svo eru fleiri grunnreglur - t.d. bann við ósannsögli, sifjaspelli, og svo framvegis - sem eru við lýði hérumbil hvar sem er - þótt við getum alltaf fundið undantekningar, eins og t.d. sifjaspell egypskra faraóa.
Grunnbygging samfélaga - sem mér sýnist nú vera fjölskyldan - er líka yfirleitt nokkuð svipuð: Faðir, móðir, nokkur börn. Auðvitað er allur gangur á þessu - til dæmis, þá er alltaf eitthvað um einstæð foreldri, hvort sem er ekkjur/ekkla eða þá fráskilin hjón - en flest erum við sammála um að það sé harmlegt að vera ekkja/ekkil með börn á sínum vegum, og að það sé, upp að vissu marki, óæskilegt að einstæðum foreldrum fjölgi. Endrum og eins kemur það fyrir að menn taki sér fleiri en eina konu, og einstaka sinnum - skilst að það sé einkum í Himalayja-fjöllum - taka konur sér fleiri en einn mann – en það er alltaf (býst ég við) með fullu samþykki allra hlutaðeigandi aðila (t.d. skilst mér að eiginkona múslima megi skilja við mann sinn ef hann svo lítið sem spyr hvort hún sé sátt við að hann taki sér aðra konu). Svo er það auðvitað þekkt fyrirbæri að afar og ömmur - já, jafnvel frændar og frænkur -búi á sama heimili. En það breytir því ekki að grunnbyggingin sé sú sama (nema hjá “Ikkum” (“The Ik”) í Úganda, sem Colin Turnbull fjallar um í bók sinni <i> The Mountain People</i> - en það er líka undantekning).
“Ef foreldrar úr öðrum menningarsamfélögum hafa verið aldir upp við það að hafa verið beittir líkamlegum refsingum í sínu uppeldi munu þeir hinir sömu eins ala sín eigin börn upp, alveg eins … ”
Ef þetta væri satt, þá væri líkamlegum refsingum ennþá beitt hér sem eðlilegum hluta uppeldis, sem og í breskum skólum. Og það er ekki tilfellið. Það er ekki sjálfgefið að ég muni flengja mín börn þótt ég hafi verið flengdur - alveg eins og það er ekki sjálfgefið að einhver sem hefur verið misnotaður/misnotuð sem barn muni gera það sjálf/ur síðar meir.
“ … innflytjendur leggja ekki bara á hilluna sína trú og siði … ”
Að sjálfsögðu ekki - upp að vissu marki er það alveg fyllilega eðlilegt og jafnvel æskilegt að menn haldi í gamla siði og venjur. Þótt ég flytji enhvern tímann til BNA, þá mun ég samt ekki taka uppá siðum eins og að opna pakka á jóladag - ég mun ennþá halda í mínar aðfangadagsvenjur. Og þótt ég flytji til Ítalíu eða Japan, þá mun ég ekki taka upp kaþólskan sið eða shinto-trú - ég mun standa jafn staðfastur sem endranær í mínu guðleysi. Og sömuleiðis þykir mér ekki rétt að ætlast til þess að fólk sem hingað flytur kasti sinni gömlu trú og gangi í Þjóðkirkjuna, né þykir mér eðlilegt að fólk, komandi frá löndum án allra jólahefða, fari alltíeinu að taka uppá því að halda jólin hér hátíðleg.<br><br>Þorsteinn.