Ritstjóri Politik.is segir íslenska þjóðfánann vera prjál
(Svar Flokks framfarasinna af www.framfarir.net)
Eins og lesendur Framfarir.net muna eflaust eftir þá ritaði ég grein hér þann 2. desember sl. varðandi lögreglurannsókn þá sem nú er í gangi vegna hugsanlegrar óvirðingar og misnotkunar Bubba Morthens á íslenska þjóðfánanum. Í kjölfar þessara skrifa minna ritaði ritstjóri Politik.is grein á það vefrit þar sem hann fer mikinn um þessi skrif mín og þykir þau ljóslega hin verstu.
Fyrir það fyrsta tekur ritstjórinn það sérstaklega fram að tónlistarmyndband Bubba sé djörf ádeila á rasisma og er víst deginum ljósara að með því vill hann ýja að því að það sé ástæða þess að Flokkur framfarasinna var einn þeirra aðila sem kærðu myndbandið. Ég hef fréttir fyrir ritstjórann. Bæði ég og Flokkur framfarasinna erum án efa alveg jafn miklir andstæðingar rasisma og hann sjálfur og hefðum ennfremur ekkert á móti umræddu myndabandi ef ekki væri fyrir að fara téðri óvirðingu í því við þjóðfánann.
Ritstjórinn kallar síðan íslenska þjóðfánann prjál og vill meina að við í Flokki framfarasinna tökum prjál fram yfir grundvallarmannréttindi, s.s. tjáningarfrelsið. Ritstjórinn gleymir því að þjóðfáninn er meira en bara einhver fáni, hann er tákn fyrir íslensku þjóðina og Ísland og það er það sem máli skiptir en ekki fáninn sjálfur sem slíkur. Þó vissulega sé fáninn dauður hlutur, eins og ritstjórinn drepur á, þá er íslenska þjóðin það ekki. Vona ég að ritstjórinn sé ekki þeirrar skoðunar. Annars fyrst minnst er á Bubba Morthens þá býst ég við að álit ritstjórans á þjóðfánanum sé á sambærilegu stigi og samlíking Bubba á íslensku þjóðinni og hundasúrum.
Ritstjórinn segir að menn geti tjáð skoðanir sínar á ýmsan hátt og séu allir tjáningarhættir jafnréttháir og njóti aukinheldur skýlausrar verndar stjórnarskrár lýðveldisins. Máli sínu til stuðnings vitnar hann í 1. málsgrein 73. greinar stjórnarskrárinnar þar sem segir svo: “Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningafrelsi má aldrei í lög leiða.”
Það sem ritstjórinn hins vegar klikkar á, viljandi eða óviljandi, er að í 2. málsgrein fyrrnefndarar stjórnarskrárgreinar er tekið fram við hvað tjáningarfrelsið takmarkist. Þar segir: “Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.” Ekki þykir mér þetta geta kallast “skýlaus verndun stjórnarskrár Íslands” eins og ritstjórinn orðar það. Kannski ættu menn að lesa aðeins lengra.
En hvers vegna skyldi ritstjórinn annars hafa sleppt því að minnast á þessar takmarkanir? Er um að ræða mistök eða ómerkilega tilraun til að blekkja lesandann? Það var að minnsta kosti full ástæða til að minnast á téða málsgrein enda á hún fullt erindi í þessa umræðu. En af einhverjum ástæðum ákvað ritstjórinn að taka hana ekki inn í myndina og ennfremur að slá því sem föstu að tjáningarfrelsið nyti skýlausrar verndar stjórnarskrárinnar þó ljóst sé að því eru settar viðtækar takmarkanir í umræddri 2. málsgrein.
Annars falla lögin, sem banna óvirðingu íslenska þjóðfánans, undir allsherjarreglu, eftir því sem ég best veit, og eru lögin því væntanlega í fullu samræmi við stjórnarskrána. En sennilega vill ritstjórinn bara breyta stjórnarskránni að þessu leyti eins og hann vill bara afnema lögin um verndun þjóðfánans gegn óvirðingu af því þau fara víst eitthvað í taugarnar á honum. Annars segir það sig sjálft að á meðan lög eru lög þá ber okkur að hlýta þeim, hvort sem við séum sammála þeim eður ei.
Að lokum varpar ritstjórinn síðan fram þeirri spurningu hvort Flokkur framfarasinna muni hugsanlega koma ábendingu til lögreglu um mynd þá sem ritstjórinn lét fylgja grein sinni, eins og flokkurinn gerði varðandi myndband Bubba. Mynd þessi er eitthvað klessuverk þar sem þjóðfáninn er settur saman með hakakrossfána nasista og fleiru. Er hér augljóslega um að ræða aðra misheppnaða tilraun ritstjorans til að væna flokkinn um einhvern ímyndaðan rasisma sem hvergi er þó til nema í höfðinu á honum sjálfum. Miðar þessi tilraun ljóslega að því að ýja að því að ásaæða ábendingar flokksins til lögreglu hafi ekki snúist um þjóðfánann heldur eðli myndbands Bubba. Þetta er auðvitað hugarburður einn og dæmir sig sjálft enda tekið skýrt fram í fyrri grein minni um málið að eðli myndbandsins kemur málinu ekkert við af okkar hálfu, sbr. eftirfarandi tilvitnun úr greininni:
“Flokkur framfarasinna fordæmir þessa grófu vanvirðingu og vanvirðingar á þjóðfánanum okkar almennt. Umrætt myndband sem slíkt hefur þó ekkert með þetta mál að gera að öðru leyti. Það fer hins vegar vægast sagt mjög fyrir brjóstið á okkur að þjóðfána okkar Íslendinga, sem er tákn fyrir íslensku þjóðina og Ísland, sé stillt upp með hlutum sem standa fyrir virkilega slæma og neikvæða hluti í mannkynssögunni eins og gert var í umræddu myndbandi.”
Það hefur annars án efa verið hugsun löggjafans, með lögunum um verndun þjóðfánans gegn óvirðingu, að þau ættu við um opinbera óvirðingu enda erfitt að sjá fyrir sér framkvæmd laganna á annan hátt. Íslensk lög munu síðan enn sem komið er ekki ná yfir internetið sem slíkt og er það ekki skilgreint sem opinber vettvangur samkvæmt þeim. Það að velta því fyrir sér hvort einhver komi ábendingu um mynd ritstjórans til lögreglu er því auðvitað algerlega út í hött og það ætti ritstjórinn að öllu eðlilegu að vita sjálfur.<br><br>Með kveðju,
Hjörtur J.
Flokkur framfarasinna
<A HREF="
http://www.framfarir.net“>www.framfarir.net</A>
”In the beginning of a change, the patriot is a scarce man, brave, hated and scorned. When his cause succeeds, however, the timid join him, for then it costs nothing to be a patriot." -Mark Twain