Viljum við sitja uppi með sömu vandamál og aðrar þjóðir sem hafa leyft óhindraða fæðingar barna? Hvað með velferðarkerfið, þegar hingað hrúgast einhver aragrúi af smábörnum? Hlutfallslega eigum við íslendingar fleiri börn en fólk á hinum Norðurlöndunum. Geta okkar til að kenna öllum þessum óteljandi og ótalandi börnum íslensku er takmörkuð. Við verðum að hafa meiri stjórn á því hversu mörg börn fæðast hér á landi – okkur öllum til góðs!


Ef að auglýsing frjálslynda flokksins hefði hljómað svona, hefðu allir áttað sig á því strax hversu fáránleg hún væri, síðan hvenær eru börn vandamál? Þau eru yndisleg viðbót við okkar samfélag. En þeim fylgja ýmis verkefni, líkt og með innflytjendur. Innflytjendur eru ekki vandamál, en þeim, líkt og börnum fylgja ýmis verkefni. Í þessu kristallast sú harða andstaða sem allir hinir stjórnmálaflokkarnir sýndu málflutningi Frjálslyndaflokksins.

Þetta þýðir auðvitað ekki að það sé ekki í lagi að ræða málefni innflytjenda, líkt og málefni barna. Það er meira að segja nauðsynlegt. Það bara má ekki gerast að við breytum þessum verkefnum í vandamál.

Það þarf að hafa heildræna stefnu í málefnum innflytjenda, hvað varðar móttöku, aðlögun, íslenskukennslu, samfélagskennslu, stöðu á vinnumarkaði, mat á námi frá öðrum löndum og svo mætti lengi telja.

Ég vil búa í samfélagi með fólki í öllum regnbogans litum, því hversu fagur væri regnbogi sem hefði bara einn lit?

Þess vegna kýs ég Samfylkinguna.
….allir geta eitthvað…enginn getur allt