Hér á Huga, einmitt sérstaklega hér og á Deiglunni, sem og í þjófélaginu öllu, hefur verið dálítið spjallað (og stundum hrópað og hnakkrifist) um aðlögunarskyldu nýbúa.

Sumir halda því fram að nýbúar skuli leggja sig alla fram við að laga sig að því þjóðfélagi sem þeir flytja til, og verða hluti ráðandi menningar. Til dæmis skulu múslimar leggja af “halal”-slátrun, ef ekki um hinn gervalla íslamska heim, þá að minnsta kosti þegar þeir koma til Vesturlanda, svo dæmi sé tekið af nýlegri og mis-málefnalegri umræðu.

Flutningsmenn og stuðningsmenn eru gjarna kallaðir ‘rasistar’ (og í mörgum tilfellum, að því er virðist, að ósekju); þeir hafa, á móti, tekið upp á því að uppnefna andstæðinga sína ‘fjölmenningarfasista’.

Ég ætla nú ekki hér að taka afstöðu með eða á móti þessu. Hins vegar var ég að velta einu fyrir mér. Er sama krafa gerð til þeirra Íslendinga sem eru, að mestu eða öllu leiti, ‘rótgrónir’ hér (ef ég segði ‘hreinræktaðir’ þá myndi þetta skiljast enn betur, en ég hef óbeit á slíku orðalagi)?

Sem dæmi um ágæta aðlögun innflytjenda var nefndur formaður Félags múslima á Íslandi, Salman ef ég man rétt, þótt ég muni ekki eftirnafnið. Hann heldur jól, eins og svo margir Íslendingar gera. En ekki allir. Vottarnir gera það ekki, ég veit ekki með bahá'íana.

Hvað getum við sagt við Vottana? “Hey, þið skuluð laga ykkur að íslenskri menningu. Haldið jól.”? Nei, augljóslega ekki. Þeir eru (flestir) íslenskir, eru þannig þegar hluti íslenskrar menningar.

Annað dæmi væru samkynhneigðir. Þeir eru minnihluti hér á landi, sem víðast annars staðar (nema kannski í San Fransisco?). Getum við heimtað að þeir ‘lagi sig að’ íslenskri menningu, og afneiti samkynhneigð sinni og fari á námskeið hjá Snorra Betel eða Gunna Kross?

Hvað getum við sagt við þann Íslending sem fer að dæmi Cat Stevens og gerist múslimi, og gengur jafnvel ennþá lengra og gerist harður bókstafstrúarmúslimi, heimtar að fá að “halal”-slátra, og svo framvegis? Varla getum við rekið hann af landinu, getum við heimtað að hann láti af trú sinni?