Það er ekkert hægri eða vinstri lengur á Íslandi. Allir flokkarnir eru orðnir loforðsflokkar.
Það á greinilega að vera hefðin núna að í byrjun hvers kjörtímabils eigi að “bæta lífsgæði” fólks með því að borga undir hluti hægri vinstri. En slíkar færslur á tölum er ekkert annað en blekking. Ríkið er ekki guðdómlegt fyrirbæri sem getur bara prentað fleiri peninga þegar þörf er á. Öll loforð þarf að borga fyrir, slíkt er annað hvort gert með því að skera undir eitthvað annað eða hækka skatta/gjöld hjá almennum borgurum. Sem enginn sleppur við að borga vegna þvingunarstefnu stjórnvalda.
Margir eiga erfitt með að ímynda sér að þjóðfélagið geti gengið upp án þess að stjórnvöld þvingi mann til þess að borga X mikið í hitt og þetta. Ég er hinsvegar sannfærður um að slíkt er mögulegt, stjórnvöld hinsvegar halda fast í hefðina vegna þess að með því að minnka framkvæmdarvöld stjórnvalda er að vissu leiti verið að minnka völd þeirra yfir þjóðinni. Þess vegna er alltaf sama tuggann á hverju kjörtímabili, að það sé loksins kominn tími til að stjórnvöld grípi inn í á vissum sviðum vegna þess að allt sé að fara til helvítis.
Margir misskilja og halda að einkavæðing minnki frelsi og lífsgæði borgaranna. Það er ekki af ástæðulausu af hversju frjálshyggja hafi frelsi í hugtakinu. Það er augljóslega miklu meiri sveigjanleiki og valkostir þegar maður getur ráðið sjálfur hversu mikið maður borgar í hvað að hverju sinni, ásamt því hvaða fyrirtæki fái að sjá um það fyrir mann. Í stað þess að bíða í 4 ár eftir að fá að kjósa er einfaldlega hægt að snúa annað með viðskipti sín ef maður er ósáttur.
En svo að breytingin verði mjúkleg fyrir samfélagið á ekki að einkavæða allt í einum pakka og þvinga sósíalistana til þess að fylgja því. Best væri að byrja á því að gefa fólki þann valmöguleika að fá skatta endurgreidda og snúa sér frekar að einkaaðilum. Skilyrðin verða auðvitað sú að þá fórni maður sjálfsögðum rétti að ríkisfyrirtækjunum nema auðvitað maður borgi kostnaðinn sjálfur rétt eins og hjá einkafyrirtækjum.
Ég geng svo langt að telja það vera sjálfsögð mannréttindi að hafa yfirráð yfir öllum laununum. Ef einhver er það kærulaus að eyða ekki peningum t.d. í sjúkratryggingu eða nám þá er það þeirra vandamál. Ekki réttlætir það þvingaðri forræðishyggju yfir mig í formi þess að stjórnvöld taki með valdi tæplega helming þeirra tekna sem ég skapa.
Á meðan almenningur virkilega trúir því að stjórnvöld séu eitthvað heilög og séu eini hæfi aðilinn til þess að tryggja góð lífsgæði þá verður frjálsara samfélag auðvitað aldrei að veruleika. Hættum að láta blekkja okkur í loforðskapphlaupinu og áttum okkur á því að ekkert er gert án peninga og vinnu, þó það hljómar kannski kalt þá er það raunin í samfélaginu.
Miða við hversu illa stjórnvöld reka fyrirtæki og spreða peningum í ónauðsynleg fyrirbæri eins og tónlistarhús (sem er eitt Íraksstríð á íslenskum mælikvarða) þá hef ég engan vafa á því að flestir græði á frjálsara samfélagi. Ekki bara ríkir heldur einnig láglaunafólk.