http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=alyktun&id=60
Í ljósi undangenginnar umræðu um leikskólarekstur á Íslandi vill Frjálshyggjufélagið benda á eftirfarandi.
Í fyrsta lagi eru laun í einkageiranum að jafnaði hærri en laun í hinum opinbera. Þetta á sérstaklega við um starfsgreinar þar sem skortur er á starfsfólki í aðstæðum þar sem fáir vilja fylla í margar stöður. Eftirspurn eftir starfsfólki þarf að fylgja eftir með hækkandi launum. Að öðrum kosti er nánast öruggt að ekki næst að fylla í lausar stöður. Opinber rekstur er illa í stakk búinn til að bregðast við sveigjanlegu samspili framboðs og eftirspurnar.
Í öðru lagi er vald neytandans mun áhrifaríkara en vald embættismannsins þegar kemur að því að þrýsta verði niður og þjónustustigi upp. Vald hins opinbera, sem fyrst og fremst er fólgið í hótunum um niðurskurð sem aldrei er fylgt eftir, er veikt, handahófskennt og ófylgið sér.
Frjálshyggjufélagið vill því leggja áherslu á að sem mest af opinberum rekstri, þ.m.t. rekstur leikskóla, verði færður inn á hinn frjálsa markað. Ef stjórnmálamenn treysta sér ekki til að færa foreldrum völdin með einkavæddum leikskólum og tilsvarandi skattalækkunum á einstaklinga er auðvelt að benda á málamiðlunarlausnir eins og einkarekstur eða útboð gegn föstum greiðslum. Mestu máli skiptir að koma rekstrinum undan þaki opinberrar stjórnsýslu og miðstýringar. Aukinn kostnaðarþátttaka einstaklinga í rekstri leikskólanna er mjög mikilvægt markmið sem síðan má ræða þegar jákvæð reynsla af einkarekstrinum hefur komið fram.