<b>Ég get ekki orða bundist</b>
Ég geri hér með undantekningu á því að ræða ekki stjórnmál á þessarri síðu. Ég bara trúi ekki ástandinu heima í sambandi við verkfall kennara. Hér áður fyrr skildi ég vel verkföll hjá kennurum, þeir höfðu slæm kjör m.v. aðra starfsmenn ríkisins. Ég studdi þá heils hugar í verkföllum sem kostuðu t.d. jólapróf í mínum skóla. Mörgum verkföllum og stórkostlegum launahækkunum seinna lítur málið öðrvísi út.

Kennarar telja sig þurfa á launahækkunum að halda og mér dettur ekki í hug að gagnrýna það, þeir hafa rétt á að bæta kjör sín eins og allir aðrir. Ekkert réttlætir samt þessa hörku og þennan ósveigjanleika sem hefur verið í málinu fram að þessu.

Nýútskrifaður grunnskólakennari (24 ára) hefur 170þ. kr á mánuði í laun. Meðal<b>Grunnlaun</b> grunnskólakennara eru 210þ. kr á mánuði. Meðallaun grunnskólakennara eru 257þ. kr á mánuði. Þetta er staðan eins og hún er í dag. Gott og vel, hvað eru kennarar að fara fram á? Gjörsamlega ófrávíkjanlegar kröfur virðast vera: Meðallaun talsvert yfir 300þ. kr! Þetta þýðir <b>36%</b> útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin!


Hvað hefur kennurum verið boðið. 16% hækkun meðallauna sem setur meðallaun í rétt tæp 300þ. auk þess lækkun kennsluskyldu, þetta þýðir um <b>26%</b> aukningu á útgjöldum fyrir sveitarfélögin. Þetta finnst kennurum of lítið og segja að verðbólgan muni éta hækkunina upp. Ef þeir eru sannfærðir um það þá hefðu þeir einfaldlega átt að semja um minni minnkun kennsluskyldu og meiri launahækkun!

Hvað gerðist síðan eftir að miðlunartillagan var felld? Sveitarfélögin settu einmitt fram þá tillögu að vinnutíminn skyldi samræmdur við annað háskólamenntað fólk hjá ríkinu! Þ.e. hætta við minnkun kennsluskyldu (sem var einmitt barist hart fyrir að auka 2001). Hvað gerðu kennarar? Þeir lögðu fram “málamiðlunuartillögu”. En viti menn hún hljóðaði upp á <b>36%</b> útgjaldaaukningu fyrir sveitafélögin!

Eftir að grunnskólakennarar fóru undir sveitafélögin hefur í öllum kjarasamningum komið fram krafa á aukin fjárútlát af hálfu ríkisins. Það gerðist 1996, 2000 og núna 2004.

Það er oft talað um hvað kennarar beri mikla ábyrgð og því eigi þeir betra skilið en þessi lélegu laun. Það er hárrétt, þeir bera mikla ábyrgð. Heila málið er, að það er einfaldlega búið að bjóða þeim svo miklu meira en hægt verður að bjóða nokkrum öðrum í þessum kjarasamningum. Hvað myndi gerast ef ríkið kæmi að málinu og kennurum yrði veitt þessi 36% hækkun á launum? (ég segi 36% vegna þess að færri vinnudagar eru líka launahækkun). Forsvarsmenn verkalýðssambanda hafa komið því skýrt á framfæri, að þeir muni ekki sitja aðgerðarlausir ef kennarasamningarnir stefni stöðugleikanum og rauðum strikum í hættu. Eiga allir að fá sömu eða svipaða launahækkun og kennarar? Hvað gerir verðbólgan þá?

Mig langar að benda á nokkrar staðreyndir um þetta mál og verkföll almennt:

1. Vinnutap vegna verkfalla á Íslandi er það mesta í öllum OECD ríkjunum, sexfalt meira en t.d. í Frakklandi þar sem sífellt eru verkföll, þau standa þó sjaldnast lengi!
http://www.hi.is/~gylfason/sld034.htm

2. Launin sem kennarar eru að fara fram á sem grunnlaun nýútskrifaðra kennara eru talsvert hærri en laun útskrifaðs læknis:
http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=20141

3. Það eru yfir 2000 umsækjendur að Kennaraháskóla Íslands á hverju ári. Framboðið er meira en eftirspurnin. (þetta hafa verið rök fyrir meiri hækkunum)

Það er hverjum ljósara að þeir stjórnmálamenn sem segja að ríkið eigi að koma að þessu með því að setja meiri peninga inn í málið eru nákvæmlega ekkert annað en tækifærissinnar. Þessar kröfur eru út í hött og það eru ekki stjórnmálamenn sem eru að bregðast þjóðinni heldur kennarar.

Í gær slitnaði upp úr samningaviðræðum kennara og sveitarfélaga og næsti fundur er eftir 2 vikur. Börnin sitja heima á meðan kennarar syngja “Áfram áfram áfram kennarar, við gefumst ekki upp”. Hvernig væri að kennarar sýndu það af sér að þeir standi undir þeirri ábyrgð sem þeim er veitt með því að lækka kröfur sínar og stöðva þetta verkfall.