Þar sem mér finnst alltaf jafngaman að berja á Samfylkingunni ætla ég að birta hér grein í heilu lagi um þau ágætu gasprarasamtök:
“Í síðustu viku vitnaði Vefþjóðviljinn til orða Sigbjörns Gunnarssonar, sveitarstjóra og fyrrverandi alþingismanns, í nýjasta tölublaði Sveitarstjórnarmála. Þó Sigbjörn hafi þar talað um mál eins og verkefni sveitarfélaga og rekstur salerna, þá eru einnig önnur mál sem rifjast upp í þau skipti sem þessi ágæti sveitarstjóri skýst eins og korktappi upp í stjórnmálaumræðu dagsins. Prófkjör Samfylkingarinnar í norðurlandskjördæmi eystra fyrir alþingiskosningarnar 1999 er slíkt mál. Þá gerðist það að Sigbjörn Gunnarsson, sem þá var fyrrum þingmaður Alþýðuflokksins, barðist um efsta sætið við Svanfríði Jónasdóttur, sem áður hafði meðal annars verið varaformaður Alþýðubandalagsins og þingmaður Þjóðvaka. Sigbjörn sigraði í prófkjörinu þrátt fyrir að forysta Samfylkingarinnar hafi stutt Svanfríði eins og svo oft þegar Samfylkingin velur milli þeirra sem eiga rætur í Alþýðuflokknum og þeirra sem eiga rætur í Alþýðubandalaginu. Og þar sem Sigbjörn varð efstur í lýðræðislegu prófkjöri þá hefðu nú ýmsir ætlað að hann yrði jafnframt efstur á lista flokksins í kjördæminu. En nei, Samfylkingarlýðræði er öðruvísi lýðræði en annað og þá var einfaldlega séð um að Sigbjörn fengi engan með sér á lista. Á endanum hrökklaðist sigurvegari prófkjörsins frá, en Svanfríður fékk efsta sætið sitt.
Nú heldur kannski einhver að þetta sé bara einhver tilviljun; það geti ekki verið algengt að raðað sé á lista beinlínis með öðrum hætti en niðurstöður lýðræðislegra prófkosninga segja til um. Á sama tíma og Sigbjörn sigraði Svanfríði fyrir norðan hélt Samfylkingin prófkjör í Reykjaneskjördæmi og urðu úrslit meðal annars þau að í þriðja sæti varð Ágúst Einarsson, þáverandi þingmaur, en í fjórða sæti varð Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem þá og jafnan síðar hefur verið sérstakur baráttumaður fyrir auknu lýðræði. Engu að síður varð framboðslistinn þannig að Þórunn sat í þriðja sæti en Ágúst í fjórða. Samfylkingin fékk svo þrjá þingmenn í kjördæminu svo Þórunn komst á þing en ekki Ágúst, sem fékk fleiri atkvæði í prófkjörinu. R-listinn í Reykjavík er svo eins og hann er, en þegar hann hélt allsherjarprófkjör sitt, fyrir kosningarnar 1998, þá fékk til dæmis Árni Þór Sigurðsson fleiri atkvæði en höfðingjarnir Hrannar Björn Arnarsson, Alfreð Þorsteinsson og Helgi Pétursson. Engu að síður var listanum þannig raðað upp að þeir náðu allir kjöri en Árni Þór ekki.
Flestir muna svo hvernig forysta Samfylkingarinnar er valin. Það er að segja raunveruleg forysta. Svokallaður formaður er valinn með allsherjarkosningu flokksmanna og stóryrðin ekki spöruð til að lýsa því hve lýðræðislegt það sé. En svo er raunverulegur leiðtogi, forsætisráðherraefni flokksins, bara valin með því að… ja með því að hvað? Hver veit hvernig forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar var valið? Að minnsta kosti var ”forsætisráðherraefnið“ kynnt á blaðamannafundi án þess að nokkur einasta stofnun flokksins hefði verið spurð álits eða almennum flokksmönnum gefinn nokkur kostur á að skipta sér af.
Í síðustu kosningabaráttu var eitt atriði sem Samfylkingarmenn töluðu um næstum eins oft og eigin lýðræðisást, og það var það að ekki væru nægilega margar konur í efstu sætum á listum Sjálfstæðisflokksins í hinum og þessum kjördæmum. Staðreyndin var sú að þeir listar sem þar voru nefndir höfðu verið valdir í lýðræðislegu prófkjöri þar sem allir flokksmenn gátu boðið sig fram og allir kosið. Engu að síður töldu fjölmargir Samfylkingarmenn listana vera til marks um að forysta Sjálfstæðisflokksins gerði konum ekki nægilega hátt undir höfði. Auðvitað gerðu Samfylkingarmennirnir ekkert með þá staðreynd að listarnir voru lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs; þeir eru vanir að slíkum niðurstöðum sé ýtt til hliðar og málum ráðið í bakherbergjunum. Það hvarflar sennilega ekki að þeim að málum kunni að vera öðruvísi háttað annars staðar.”
<a href="http://www.andriki.is/vt/2003/08062003.htm">http://www.andriki.is/vt/2003/08062003.htm</a><br><br><a href=“mailto:geirag@hi.is”>geirag@hi.is</a