Kjóstu stöðugleika Samfylkingarinnar!
Stjórnarflokkarnir hafa í sinni kosningabaráttu talað um stöðugleikann. Ég viðurkenni vissulega að stöðugleiki er eftirsóknarverður; maður vill vita hvar maður hefur hlutina. En fyrst skulum við gera okkur grein fyrir hvað stöðugleiki núverandi ríkisstjórnar þýðir:
Ef þú kýst núverandi stöðugleika, stöðugleika Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá ertu sátt/ur við að Ísland sé aðeins í 14. sæti af þeim 29 þjóðum Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD) í opinberum fjárlögum til menntamála. Þú ert sátt/ur við að menntakerfið á Íslandi fer hnignandi, þú ert sátt/ur við að útskrifast elstur allra úr framhaldsskólum á OECD-svæðinu og þú ert sátt/ur við að hvergi á Norðurlöndum séu jafn fáir háskólamenntaðir einstaklingar og á Íslandi (og hér er að sjálfsögðu miðað við hina frábæru höfðatölu). Samfylkingin hyggst hinsvegar auka framlög til þessa málaflokks um 3 milljarða árlega og blása til stórsóknar í menntamálum. Kjóstu X-S.
Ef þú ert framhaldsskólanemi og kýst stjórnarflokkana, xD og xB, þá vilt þú taka samræmd próf á næsta ári. „Með höftum og ríkisstýrðum aðgerðum, [eins og samræmdum prófum á framhaldsskólastigi] er reynt að steypa okkur í mót eftir vilja afmarkaðs hóps. Réttlæti er fólgið í því að fagna fjölbreytninni. Fagna þeim fjölbreyttu tækifærum sem frelsið býður upp á og nýta það til að skapa enn fleiri tækifæri. Hvort er vænlegra til árangurs: Að steypa alla í sama mót? Eða veita fólki frelsi til að vaxa og dafna á eigin forsendum?“ Því vill Samfylkingin fresta þessum samræmdum prófum - því það er verulega hætta á að þau vegi að rótum sérstöðu og frelsis skólanna. Kjóstu X-S.
Ef þú ætlar að kjósa xD eða xB, þá ertu bara frekar sátt/ur við að borga eitt hæsta matvælaverð í heimi! Ef þú ert sátt/ur með núverandi stöðu þá ertu glöð/glaður með það að matvælaverð hér á landi hafi aukist mest meðal Norðurlandanna frá árinu 1990, og getur samviskusamlega merkt x við D eða B. Hár skattur á mat bitnar verst á fólki með lágar tekjur - Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún muni lækka virðisaukaskatt á mat úr 14% í 7%.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera tilræði að íslensku samfélagi með 30 milljarða skattalækkunum á einstaklinga. Að lofa slíkri draumkenndri upphæð í skattalækkunum í miðri kosningabaráttu er óábyrgt. Það er álit alþjóðastofnanna um efnahagsmál að ekki sé skynsamlegt nú að fara í viðlíka skattalækkanir og Sjálfstæðisflokkurinn hyggst gera. Samfylkingin er flokkur sem hefur ábyrga stefnu í efnahagsmálum og þar með talið í skattamálum. Samfylkingin vill lækka skatta um 15-16 miljarða á einstaklinga. Samfylkingin er flokkur sem vill beita sér fyrir því að kaupmáttur vaxi, skattar lækki, hér verði lítil verðbólga, lítið atvinnuleysi og jafn og stöðugur hagvöxtur. Stöðugleiki er allra hagur. Án hans er ekki hægt að auka framlög til menntunnar og velferðar sem Samfylkingin leggur áherslu á. Kjóstu stöðugleika Samfylkingarinnar - kjóstu X-S.
Ef þú ert ekki sátt/ur við stöðugleika stjórnarflokkana, kynntu þér stefnu Samfylkingarinnar og nýttu þér tækifærið - settu x við S og kjóstu sanngirni á morgun.