Utanríkismál
Meginstoðir utanríkisstefnu Íslands eru norræn samvinna, náin Evrópusamvinna, þátttaka í Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn við Bandaríkin og öflugt samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Stóraukin þróunaraðstoð og bætt viðskiptakjör þróunarríkja auka jöfnuð á milli þjóða og draga úr víðsjám á alþjóðavettvangi. Samfylkingin styður palestínsku þjóðina í baráttu sinni fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis og fordæmir ólöglegar landnemabyggðir á hernumdu svæðunum. Samfylkingin lýsir andstöðu við einhliða ákvarðanir um stríðsrekstur í Írak og gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa tekið afstöðu með stríðsrekstrinum í blóra við vilja þjóðarinnar og án samráðs við Alþingi. Virðing fyrir alþjóðalögum og alþjóðastofnunum skiptir smáríki eins og Ísland miklu í samskiptum við önnur lönd. Afstaða ríkisstjórnarinnar samræmist ekki hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi.
Velferðarmál
Góð velferðarþjónusta er einn af grunnþáttum í samfélagssýn Íslendinga. Traust velferð er ekki síður mikilvæg fyrir þróttmikið atvinnulíf og starfsumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Samfylkingin beitir sér fyrir sanngirni og réttlæti í skattkerfinu og vill nota það svigrúm sem fyrir hendi er til tvenns konar umbóta. Annars vegar hyggst Samfylkingin minnka skattbyrði og draga verulega úr jaðarskerðingum hjá millitekjufólki, sérstaklega barnafólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hins vegar vill Samfylkingin bæta kjör hinna verst settu og úthýsa hinni nýju fátækt sem sprottið hefur upp í ákveðnum hópum í tíð núverandi ríkisstjórnar og á ekki að líðast í íslensku samfélagi. Þess vegna setur Samfylkingin nú fram níu forgangsmál sem koma til framkvæmda í áföngum á næstu fjórum árum:
Skattleysismörkin hækka um rúmar 10 þúsund krónur, eða um 130 þúsund á ári, úr 69.585 í 80 þúsund krónur á mánuði. Með þessari aðgerð lækkar skattbyrði á einstaklingum um 50 þúsund krónur og 100 þúsund krónur á hjón. Fyrsti áfangi komi til framkvæmda 1. janúar 2004 og síðari áfangi verði skoðaður í tengslum við endurskoðun á skatta-bóta- og almannatryggingakerfinu sem unnin verði í samráði við samtök launafólks og hagsmunasamtök lífeyrisþega.
Virðisaukaskattur af matvælum, og öðrum varningi sem ber nú 14% vsk lækki í 7%. Þá verði virðisaukaskattur á tónlist, ungbarnaföt og ungbarnavöru lækkaður úr 24,5% í 7%. Bækur beri ekki virðisaukaskatt.
Þremur milljörðum verður varið árlega í hækkun barnabóta. Markmiðið er í senn að bæta hag barnafjölskyldna og draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Öll börn til 18 ára aldurs fái barnabætur að fjárhæð 45 þúsund krónur óháð tekjum foreldra. Auk þess verða frítekjumörk tekjutengdra bóta hækkuð verulega frá því sem nú er. Þessar aðgerðir skila barnafjölskyldum í landinu að meðaltali um 75 þúsund krónum á ári.
Teknar verði upp viðræður við samtök launafólks og atvinnulífs svo og hagsmunasamtök lífeyrisþega um endurskoðun á skatta- bóta- og almannatryggingakerfinu. Markmið hennar er að lækka enn frekar skattbyrði og lækka sérstaklega jaðarskatta á fólki með lágar- og meðaltekjur.
Komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega og lágtekjufólk og varið þess a.m.k. þremur milljörðum króna.
Felld verði niður stimpil- og þinglýsingargjöld vegna húsnæðiskaupa. Það lækkar útgjöld lántakenda á meðalíbúð um 200 þúsund krónur.
Fjórðungur af endurgreiðslu námslána verði frádráttarbær frá skatti í 7 ár eftir að námi lýkur. Það nær til 16 þúsund einstaklinga og fjölskyldna.
Í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og almannasamtaka verður biðlistar eftir félagslegum leiguíbúðum verulega styttir með byggingu og kaupum á allt að 600 íbúðum á ári. Almennur leigumarkaður verði jafnframt efldur.
Fjárfestingar í mannauð og menntun verði auknar með endurbótum á öllum skólastigum, og stuðningur við rannsóknir og frumkvöðlastarf efldur.
Fiskveiðistjórnun
Samfylkingin telur að úthluta eigi nytjum sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar á grundvelli jafnræðis en ekki forréttinda hinna fáu. Núverandi fiskveiðistjórnkerfi er mesta ranglæti nútímans. Samfylkingin vill að kvótinn verði innkallaður í smáum, árlegum áföngum, þannig að sjávarútvegurinn geti lagað sig að breytingunum og að sem mest sátt verði um þær. Þetta er svokölluð fyrningarleið. Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði skráð í stjórnarskrá lýðveldisins. Kvóti verði boðinn til leigu um lengri og skemmri tíma til að tryggja í senn stöðugleika og sveigjanleika. Kvótaleiga verði greidd þegar afla hefur verið landað. Fiskveiðistefna Samfylkingarinnar dregur úr hvata til brottkasts og tryggir fiskvernd, jafnræði þegna og atvinnugreina og sanngjarnt auðlindagjald. Mikilvægt er að strandbyggðir njóti nálægðar sinnar við gjöful fiskimið og grunnslóðaveiðar fái möguleika til þess að vaxa.