“Lögleiðing eiturlyfja” er nákvæmlega eina hugtakið sem anti-decriminalization lið hefur sér fyrir hendi. Þetta bann liggur við að vera trúarbrögð. Á Íslandi þekki ég engan sem berst fyrir lögleiðingu allra vímu- og fíkniefna (eiturlyf er svo misvísandi að það jaðrar við að vera orðskrípi (en orðið “orðskrípi” er einmitt einnig orðskrípi)). Það að hætta að refsa neytendum kannabisefna er það sem er á döfinni hjá t.d. Cannab.is liðinu, og t.d. hjá sjálfum mér. Það að hætta að gera fíklum lífið enn ömurlegra en það þegar er, er ekki út í hött. Refsing er ekki hjálp; bann er ekki lausn. Sérstaklega þegar fólk vill ekki einu sinni hætta sér út í að RÆÐA málið (sbr. gegndarlausum og ítrekuðum tilraunum til mannréttindabrota gegn forsvarsmönnum lögleiðingar). Hvernig á að leysa vandamál sem má ekki einu sinni ræða? Hvernig á að hjálpa hasshausum með því að setja þá í steininn eða sekta þá? ÞAÐ finnst mér firra og hræsni.
En nóg um það.
Það að 16 ára krakki geti keypt sígarettur og 12 ára krakki geti leigt bannaðar myndir er einmitt tilkomið vegna nánast algjörs virðingarleysi almúgans fyrir lögunum. Á Íslandi er meira eða minna allt bannað, en fólk og lögreglumenn dæma það sjálfir á stundinni hvað sé vitleysa og hvað ekki. T.d. ölvun á almannafæri, það að vera með opið áfengisílát á almannafæri, það að keyra á 60 á Miklubrautinni og það að drekka ekki bjór fyrr en um tvítugt.
Allt eru þetta reglur sem okkur finnst fráleitt að brjóta í orði og á riti, en í raunveruleikanum sér enginn neitt að því. Ekki einu sinni lögreglan. Það er ekkert skrýtið að í landi þar sem allt sé bannað, að takmörkuð virðing sé borin fyrir lögreglunni.
Það er líka svo merkilegt að það getur enginn sýnt fram á að þessi stanslausu móðursýkislegu bönn sýni fram á neina góða þróun. Ítrekað er tekið Holland sem dæmi um algjöra fíkniefnaparadís, gleymandi því að Hollendingar lögleiddu kannabisefni til einkaneyslu á sínum tíma og hafa ekki afnumið þau réttindi aftur að gefnu tilefni. Pleisið var margfalt verra áður en þeir tóku þetta löngu tímabæra skref, jafnvel þó að neysla á kannabisefnum hafi næstum því aukist jafn mikið þar og út um hinn gjörvalla vestræna heim.
Það að kannabisneysla aukist líka, er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að fólk fari sér ekki að voða með neyslunni. Undir þessum kringumstæðum, þar sem þú gerist sjálfkrafa óvinur samfélagsins við það að vera neytandi, ætti hvaða örviti sem er að sjá að mun minna er í fyrsta lagi um það að fólk leyti sér hjálpar, og í öðru lagi mun færri tækifæri neytenda til að leita sér hjálpar, ef þeir á annað borð kjósa hana.
Þetta mynstur sérðu líka með áfengið. Þar sem beislið er hvað þröngast, þróast sjálfkrafa gjörsamlega vitfirrt vínmenning. Vínmenning á Íslandi hefur skánað til muna eftir að menn lögleiddu bjórinn, þrátt fyrir að móðursýkislegar ræður hafi verið haldnar þá um bjórinn, eins og nú um kannabisefnin.
Nei, við lögleiðingu bjórs fer fólk ekki að hella bjór út á Cheerios og þamba sig fullt í hádeginu. Hafi það ekki gert það árið 1985, er ekkert líklegra að það geri það í dag.
Nei, við lögleiðingu kannabisefna fara Íslendingar ekki eins og rollur niður á Hlemm og kaupa sér kíló af hassi og stefna markvisst að því að reykja úr sér allt vit.
Heilbrigt fólk á það nefnilega sameiginlegt, að vilja ekki fara sér að voða. Þeir sem neyta ekki kannabisefna í dag, gera það langhelst vegna þess að það telur það skaðlegt, sem það getur vel verið ef menn fara sér ekki að gát.
Fyndið líka, að á meðal margra ríkja er kannabisneysla sjálfsagt mál, t.d. í mið-Austurlöndum. Þar er litið á áfengi sem það harða dóp sem það er, en hass finnst mönnum í fína lagi… sem og það er, ef menn eru ekki markvisst að reyna að gera það að vandamáli.
Svo er auðvitað hitt að fordómar eru gríðarlegir, beggja megin línunnar. Kannabisneytendur á Íslandi gera sér sjaldnast grein fyrir því að neyslan getur orðið að vandamáli, og þið móðursýkissinnar gerið ykkur alls ekki grein fyrir því að langflestir kannabisneytendur eru nákvæmlega jafn “eðlilegt” fólk og það sem ekki neytir kannabisefna.
Sem betur fer er heimurinn að vaxa upp úr þessari vitleysu.<br><br>Friður.
Helgi Hrafn Gunnarsson
helgi@binary.is