Umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu nýtur ekki mikils stuðnings hjá þjóðinni. 26% vilja sækja um, 46% eru andvíg umsókn og 28% eru óákveðin í afstöðu sinni. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Fréttablaðið gerði á laugardaginn. Athygli vekur hversu lítinn stuðning umsókn um aðild að ESB hefur.
Nokkrar kannanir á undanförnum árum hafa sýnt mun meiri stuðning við Evrópusambandið - jafnvel þegar spurt var beint um inngöngu; ekki aðeins umsókn eins og í könnun Fréttablaðsis. Þá er það einnig athyglisvert hversu margir eru óákveðnir í afstöðu sinni þar sem fá mál hafa verið eins lengi í umræðunni og afstaða Ísleninga gagnvart Evrópusambandinu.
Lítill munur eftir búsetu
Evrópumálin hafa verið skilgreind sem þéttbýlismál; að fólk í þéttbýlinu væri hlynntara ESB en fólk úti á landi óttaðist sambandið. Þetta er ekki rétt. Það er sáralítill munur á afstöðu fólks eftir búsetu í könnuninni. Af landsbyggðarfólki segjast 22% vilja aðildarumsókn, 30% vera óákveðin en 48% á móti umsókn. Í þéttbýlinu skiptist þetta þannig að fylgjandi umsókn eru 29%, 27% eru óákveðin en 44% andvíg aðildarumsókn.
Fylgjendur umsóknar eru aðeins fleiri í þéttbýlinu og andstæðingar færri, en munurinn er ekki mikill.
Svipaða sögu er að segja um afstöðu kynjanna. Af körlum segjast 28% vilja umsókn, 21% er óákveðið en 51% er andvígt aðildarumsókn. 25% kvennanna viljasækja um, 35% eru óviss en 40% á móti. Fleiri karlar vilja sækja um en konur en karlarnir eru einnig neikvæðari andstæðingar umsóknar. Konurnar eru óákveðnari.
Mest fylgi hjá Samfylkingunni
Þegar afstaða fylgismanna flokkanna til umsóknar um aðild er skoðuð kemur í ljós að meirihluti fyrir hugmyndinni er ekki einu sinni meðal fylgismanna Samfylkingarinnar en flokkurinn hefur aðildarumsókn á stefnuskrá sinni. Af þeim sem sögðust vilja kjósa Samfylkinguna voru 45% fylgjandi umsókn, 23% óákveðin en 32% á móti umsókn.
Stuðningur við aðildarumsókn er minni hjá hinum flokkunum, mest hjá framsóknarmönnum, en þar sögðust 25% vilja sækja um, 25% voru óákveðin en 50% á móti. 20% Sjálfstæðismanna vilja sækja um, 26% voru óákveðin en 54% á móti aðild. Vinstri grænir eru harðastir í andstöðu sinni. Meðal fylgismanna þess flokks eru 10% fyljgandi aðild, 32% óákveðin en 58% á móti aðildarumsókn.
Ef einhver flokkanna er að íhuga að auka vinsældir sínar með því að gæla við Evrópusambandið virðist það ekki til mikils. Þeir sem voru óákveðnir í afstöðu sinni til flokkanna eru síður fylgjandi umsókn en allur hópurinn. Af þeim sögðust 18% vilja umsókn, 38% voru óákveðin en 44% á móti.
(Fréttablaðið, 15. jan. 2003)<br><br>Með kveðju,
Hjörtur J.
Með kveðju,