Tvær skoðanakannanir í röð mæla að Samfylkingin hefur náð Sjálfstæðisflokknum í fylgi. Þetta hljóta að teljast stórtíðindi. Það vita hins vegar allir að skjótt skipast veður í lofti. Það væru tíðindi ef Samfylkingunni tækist að halda þessu “stími” til kosninga. Össur er mistækur en hefur vissulega styrkt stöðu Samfylkingarinnar með tilkomu Ingibjargar Sólrúnar. Ég var næstum búinn að skrifa “stöðu sína”, en það er öðru nær. Hans tími er liðinn. Ingibjörg skyggir á hann og hann er smámsaman að hverfa í skuggann. Hann getur ekkert annað úr þessu en fórnað sér fyrir málstaðinn en gerir sér vonir í staðinn að fá ráðherraembætti að loknum kosningum. Það sem gerir stöðu Samfylkingarinanr í dag merkilega er að hún hefur ekki boðað kosningastefnuna ennþá. Og þegar það gerist þá byrjar ballið. Hvernig tekst þeim að höndla þá umræðu?
Nú reynir á forystuhæfileika Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Eftir áratuga farsæla forystu þá hafa vindar snúist. Hvernig höndlar hann þá stöðu?
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni á næstu vikum og mánuðum.