Sælt veri fólkið!

Ég var að lesa hér greinar um Kárahnjúkavirkjun og álver fyrir austan, og þar var nefnt atriði sem ég var einmitt að ræða við sveitarstjórnarmann af Austurlandi í gær. Margir hafa nefnt að álverið verði að miklu leyti mannað af útlendingum, svipað og er nú þegar er byrjað að gerast í sjávarútveginum. Íslendingar fást ekki til að vinna í óþrifnaðar- og láglaunastörfum, og ef stendur til að fjölga störfum um einhver þúsund fyrir austan er trúlegt að þeirri eftirspurn verði að einhverju leyti mætt með erlendu vinnuafli.

Viðmælandi minn sagði hins vegar, hvað með það? Er þetta ekki líka fólk? Við viljum fjölga fólki fyrir austan svo betra sé að búa þar, skiptir einhverju máli hvort það séu allt Íslendingar eða ekki?

Tíu ára drengur kvartaði við mig um daginn og sagði að það væri allt of lítið af fólki á Íslandi. Hann spurði, “af hverju byggja menn ekki bara fullt af húsum alls staðar og bjóða fólki að koma frá öðrum löndum?” Þetta er mjög rökrétt spurning - er ekki einn helsti ókostur við þetta land okkar hversu fá við erum?

Ef við værum tíu sinnum fleiri væri hér öflugur innanlandsmarkaður, meiri samkeppni, fjölbreyttara mannlíf og menningarstarfsemi, betri samgöngur, ríkara fólk, betri skólar, voldugri stjórnmálamenn og meiri áhrif á alþóðavettvangi.

Er ekki kominn tími til að opna þetta land? Við þessar fáu hræður í allt of stóru landi getum ekki þóst bara eiga það? Og horfa upp á menningu okkar og þjóðfélag úrkynjast af tilbreytingarleysi?

Ég veit að allir sannir frjálshyggjumenn taka undir þessi sjónarmið (allir hannesarnir og hayekarnir - “free movement of natural persons”), kommúnistar taka þessu að sjálfsögðu líka fagnandi (alþjóðakommúnisminn viðurkennir engin landamæri), nú kratarnir vilja ólmir ganga í Evrópubandalagið sem opnar fyrir frjálsa flutninga m.a. pólverja hingað, svo þeir eru varla á móti þessu, það væri kannski helst Framsóknarmenn sem væru á móti? En spáið í því hvað væri hægt að framleiða mikið lambakjöt fyrir allt þetta fólk!

“Íslandi allt!” - ég meina - “allir til Íslands!”

Kær kveðja
Brynjólfu