Fyrir skömmu var birt hér á Alþingi grein Ágústar Ágústsonar, formanns Ungra jafnaðarmanna, um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Í greininni fullyrðir Ágúst að þar sem stefna Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum sé nú svo hagstæð okkur Íslendingum þá þurfum við ekki á neinum undanþágum frá stefnunni að halda. Við getum sem sagt bara tekið hana upp óbreytta að mati Ágústar.
Þetta eru nú alveg nýjar fréttir enda hafa allir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi mál verið sammála um það hingað til að við munum þurfa á umtalsverðum undanþágum að halda frá sjávarútvegsstefnu sambandsins ef hún á að reynast okkur hagstæð, þ.e. ef ekki er litið til fullveldismissins. Hins vegar hefur stefna sambandsins í þessum málum ekkert breyzt í aðalatriðum undanfarin ár og er því erfitt að ímynda sér hvernig Ágúst kemst að þessum mikla “sannleika” allt í einu núna, þvert á mat flestra ef ekki allra annarra.
Annars er þetta víst nýjasta útspil þeirra Evrópusambandsinnna að mér skilst. Hingað til hafa þeir þráfalt hamrað á því að við munum án efa fá undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni þó rökin fyrir því hafi verið afar rýr af eðlilegum ástæðum. Núna virðast þeir hins vegar hafa gefist upp á að reyna að telja fólki trú um “undanþáguleiðina” og ákveðið að feta nýja braut í áróðri sínum sem er að halda því fram að við þurfum einfaldlega ekki á neinum undanþágum að halda. Gangi þeim vel að sannfæra fólk um það fyrst hitt virðist hafa mistekizt
Eftirfarandi grein eftir Ragnar Arnalds svarar annars að öðru leyti þeim rangfærslum sem fram koma í grein Ágústar:
“Grunnreglan í ESB er sú að fiskiskip aðildarríkjanna eiga aðgang að sameiginlegri lögsögu utan tólf mílnanna, og fiskistofnarnir tilheyra ekki strandríkjunum heldur teljast sameign ESB. Við aðild Íslands fengi ESB úrslitavald um tilhögun veiða við Íslandsstrendur milli 12 og 200 mílna, svo og um allar úthafsveiðar Íslendinga.
Úr því ESB-ríkin hafa hér enga veiðireynslu fá þau þá nokkrar aflaheimildir?
Algengt er að reynt sé að telja fólki trú um að unnt sé að semja um það við ESB að Íslendingar fái undanþágur frá reglum ESB um sjávarútveg og geti því áfram setið einir að öllum veiðum við Ísland. Sagt er að ráðherraráð ESB sem úthlutar veiðiheimildum myndi afhenda Íslendingum allan veiðikvótann við Íslandsstrendur. ESB-þjóðir hafi enga ”veiðireynslu“ á Íslandsmiðum og fengju því engar aflaheimildir við Ísland. Á þetta geti Íslendingar treyst. Menn virðast gleyma því að áhrifamestu aðildarríki ESB eru einmitt sömu ríkin og stunduðu hér veiðar öldum saman, m.a. Bretar, Þjóðverjar, Belgar, Hollendingar og Spánverjar, jafnvel upp í landsteina allan fyrri hluta aldarinnar. Sum þeirra hurfu ekki af miðunum fyrr en 1976 eftir þrjú þorskastríð. Hugtakið veiðireynsla hefur enga fasta merkingu hjá ESB og óvíst hvað það merkir á Íslandsmiðum, sjá söguleg veiðireynsla.
Veiðin utan 200 mílna er 10% af verðmæti aflans
Verðmæti úthafsafla úr fiskistofnum eins og loðnu, síld, kolmunna, karfa og rækju sem veiðast utan íslenskrar lögsögu eru rúm 10 % af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Við aðild fengi ESB rétt til að semja fyrir hönd Íslendinga um þessar veiðar og myndi skammta íslenskum útgerðum kvótum úr þessum fiskistofnum. Við höfum afar slæma reynslu af samskiptum okkar við ESB á þessu sviði, sbr. ósvífni ESB gagnvart Íslendingum varðandi kolmunnaveiðar.
Kvótahoppið felur einnig mikla hættu í sér
Auk þess er helsta aðferð Spánverja til að komast yfir veiðikvóta annarra ríkja ekki kvótaúthlutun heldur kvótahoppið, þ.e. kaup á skipum í öðrum ríkjum. Skipið er þá skráð í landi fyrri eigenda en afla landað í heimalandi nýrra eigenda. Þegar eru um 20% breskra fiskiskipa í eigu Spánverja og Hollendinga. Bretar hafa ákaft reynt að hindra að kvóti þeirra hoppi þannig úr landi - án árangurs.
Söguleg veiðireynsla
Við hvað er miðað?
Það er eitt helsta slagorðið hjá ESB-sinnum að ríki ESB hafi enga ”sögulega veiðireynslu“ við Ísland og fengju því aldrei veiðiheimildir hér. En hvað felst í þessu hugtaki ?
Í ritinu ”Stjórn fiskveiða í Evrópusambandinu“ sem dreift var hér á landi á vegum fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg segir orðrétt á bls 11: ”Veiðireynsla miðast við hefðbundna eða venjubundna veiði viðkomandi ríkja úr tilteknum stofnum á tímabilinu 1973 til 1978.“ Hver var þá veiðireynsla ESB-ríkja við Ísland þessi árin? Að meðaltali 68.749 tonn af þorski á ári en árleg heildarveiðin var að meðaltali á annað hundrað þúsund tonn. Þó éta menn hver eftir öðrum að ESB-ríkin hafi enga veiðireynslu hér samkvæmt eigin reglum.
Fullyrt er að ”söguleg veiðireynsla“ miðist í hverju tilviki við árin áður en samningur um aðild er gerður. Hvergi er þó staf að finna hjá ESB um þá reglu. Eða hvers vegna hefur ESB aftur og aftur sett fram stórfelldar kröfur um veiðar í 200 mílna landhelgi okkar. Við gerð EES-samningsins reyndi ESB ákaft að fá veiðiheimildir hér við land handa ESB-ríkjunum . Sá samningur fjallaði ekki um fiskveiðar en forystumenn ESB linntu þó ekki látum fyrr en þeir fengu 3000 tonna karfakvóta í íslenskri lögsögu. Hvers vegna var það ef ESB-ríki telja sig ekki hafa neina veiðireynslu hér við land?
Hér skal ekki fullyrt að hugtakið ”söguleg veiðireynsla“ miðist ávallt við fyrrnefnd ár hjá ESB. Túlkun hugtaksins virðist ráðast af því hvað hentar hverju sinni á þeim bæ. Stundum virðist miðað við nútímann og stundum við stöðu mála fyrir 25 árum. Gagnvart Íslandi má allt eins búast við að eitthvert tillit verði tekið til veiðinnar áður en íslensk fiskveiðilögsaga var færð úr 12 mílum í 50 og síðar 200 mílur því að innan ESB er ekki viðurkennd önnur einkalögsaga til veiða en sú sem liggur innan 12 mílna. Hitt eru ósvífnar blekkingar að”söguleg veiðireynsla“ ESB - ríkja við Ísland sé engin.
Í meiri- eða minnihluta við úthlutun veiðiheimilda?
Forystumenn ESB hafa oft verið spurðir að því hvort Íslendingar fengju ekki undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB og svarið hefur ávallt verið neikvætt. Líklegt er talið að meirihlutaákvarðanir verði senn meginreglan innan ESB og neitunarvald muni smám saman hverfa úr sögunni. Hvenær smáríki eins og Ísland yrði í minnihluta við úthlutun veiðiheimilda á næstu áratugum gæti enginn séð fyrir. Við slíka áhættu geta Íslendingar ekki búið.
Hvað um síld, loðnu og kolmunna?
Og hvað um flökkustofnana: síldina, loðnuna og kolmunnann. Alræmd kröfuharka ESB í samningum um kolmunnaveiðar í Norðurhöfum við Íslendinga, Norðmenn, Rússa og fleiri ríki segir sína sögu. Þeir ætluðu Íslendingum örfá prósent aflans þótt um fimmtungur stofnsins sé að jafnaði innan okkar lögsögu (Mbl. 2/3 2001). Þessu höfnuðu Íslendingar. Þetta sýnir að við verðum að geta samið beint við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga um veiðar á síld, kolmunna og loðnu og getum ekki látið ESB semja fyrir okkar hönd.”
(Heimild: www.fullveldi.is)
Með góðri kveðju,
Hjörtur J.
Með kveðju,