Þessa eftirfarandi grein eftir Berg Sigurðsson fann ég á vef landsverndar og ég verð að segja það að mér er bara brugðið. Samkvæmt þessari grein skilst mér að Reyðaráls álverið hafa ekki átt að hafa fyrsta flokks mengunarvarnir og að það stangist á við einhver lög. Ég hef nú þegar heyrt og lesið margt um þessar framkvæmdir að aurmyndum í lóni Kárahnjúkavirkjunar hafi líklegast verið kol rangt reiknuð, að þessar framkvæmdir komi sér afar illa fyrir Íslenskt efnahagslíf, að hreindýr gætu horfið af landinu sökum fyrirhugaðra framkvæmda, og að svæðið mætti nýta betur undir t.d ferðaþjónustu. En já svo bætist við þetta allt saman að það stendur ekki til að byggja þarna hágæða fyrsta flokks álver heldur álver búið annars eða þriðja flokks mengunarvörnum. Því leyfi ég mér að spyrja, er eitthvað jákvætt við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir?? Ekki fæ ég það séð.
Með kveðju.
Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði
Reyðarál hyggst ekki nota bestu fáanlegu tækni til þess að draga úr mengun frá rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði
- Bergur Sigurðsson umhverfisefnafræðingur
Inngangur Rafskautaverksmiðja Reyðaráls er ekki búin bestu fáanlegu tækni m.t.t. mengunarvarna. Aðrar einingar álversins eru búnar bestu fáanlegu tækni og því um mun minni mengun að ræða frá þeim. Þetta leiðir til þess að 77% af SO² útblæstri og 99% af PAH útblæstri Reyðaráls má rekja til rafskautaverksmiðjunnar. Stærð þynningarsvæðis á landi markast að verulegu leyti af umræddum útblæstri, einkum vegna áfanga I, og því til einhvers að vinna með því að draga úr honum.
Í niðurstöðum um áhrif á loft og loftmengun hefur Skipulagsstofnun orð á því hversu stóran hluta mengunarinnar megi rekja til rafskautaverksmiðjunnar: “Með tilkomu 1. áfanga allt að 280.000 tonna álvers og 167.000 tonna rafskautaverksmiðju mun loftmengun í Reyðarfirði aukast verulega enda eru loftgæði mikil í Reyðarfirði. Sú verður einnig raunin með fyrirhuguðum 2. áfanga, þ.e. allt að 420.000 tonna álveri og 233.000 tonna rafskautaverksmiðju. … … Athugun skipulagsstofnunar hefur leitt í ljós að starfsemi rafskautaverksmiðju muni valda allt að fjórum sinnum meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs og tæplega 100 sinnum meiri útblæstri PAH-efna en starfsemi álvers ein og sér.”
Athugasemdir/umsagnir um skýrslu Reyðaráls
Margir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við mengun frá fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju. A.m.k. tveir opinberir aðilar þ.e. Veðurstofa Íslands og Heilbrigðiseftirlit Austurlands bentu á þann möguleika að nota hreinsitækni sem byggir á þrem þrepum, (1) þurrhreinsun - (2) vothreinsun - (3) hreinsun á vatni frá vothreinsun. Norsk Hydro notar umrædda tækni í Noregi en Reyðarál hyggst einungis nota fyrsta þrep þessarar hreinsitækni.
Við lestur úrskurðar Skipulagsstofnunar virðist mér að í svörum sínum fari Reyðarálsmenn eins og kettir í kringum heitan graut þegar þeir fjalla um þetta atriði. Þeir tala um að vothreinsun við rafskautaverksmiðju myndi auka útstreymi PAH efna til sjávar. Þarna er verið að vísa til hreinsibúnaðar þar sem þrep 1 og 2 eru notuð en ekki þrep 3 sem dregur verulega úr útstreymi PAH efna til sjávar. Það skyldi engan undra að Reyðarál skuli hafa fallið frá vothreinsun við rafskautaverksmiðju (án 3. þreps, tilfelli 3 bls. 94 í matsskýrslu) því vissulega er skárra að blása PAH-inu út í loftið en að dæla því í sjóinn.
Reyðarál leggur einnig áherslu á að vothreinsun sé fyrst og fremst til þess að draga úr SO² en ekki PAH útblæstri. Þessum rökum ber að taka með fyrirvara, samkvæmt matsskýrslu mun vothreinsibúnaðurinn við álverið á Reyðarfirði hreinsa 66% af PAH-inu úr útblæstri álversins. Einnig má benda á að Beyer einn af helstu vísindamönnum Norðmanna á sviði PAH rannsókna nefnir vothreinsun, með 3. þrepi, sem algenga aðferð til þess að draga úr PAH mengun. Ef umræddri þriggja þrepa hreinsun yrði bætt við rafskautaverksmiðjuna og virkni hennar m.t.t. SO² og PAH hreinsunar væri sambærileg við virkni búnaðarins við álverið mætti koma árlegum SO² útblæstri úr 828 tonnum í 196 tonn á ári og helminga mætti heildar útblástur PAH efna (úr 1,97 tonnum í 933 kg á ári). Það kann þó að vera óraunhæft að ganga út frá sömu virkni og í vothreinsibúnaði álversins en þetta dæmi sýnir þó glögglega að með umræddri tækni er hægt að draga verulega úr mengun í Reyðarfirði. Til þess að varna því að PAH-ið berist í sjóinn þarf vissulega að nota 3. þrepið í umræddu hreinsikerfi.
Reyðarál hefur fullyrt að fyrirtækið muni uppfylla ströngustu kröfur sem þekkjast varðandi útblástursmagn, loftgæði og styrk mengunarefna í sjó og að það eigi sér í lagi við um styrk PAH-efna í andrúmslofti, þar sem miðað sé við ströngustu kröfur um loftgæði í löndum Evrópu. Þó svo að fyrirtækið uppfylli ströngustu kröfur um loftgæði utan þynningarsvæðis má deila um hvort fyrirtækið uppfylli þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru til mengunarvarnabúnaðar í íslenskum lögum og reglugerðum. Í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun kemur fram að í starfsleyfum skuli gera kröfu um að notuð sé besta fáanlega tækni í starfsleyfisskyldum atvinnurekstri.
Úrskurður Skipulagsstofnunar
Þrátt fyrir að fjölmargir aðilar hafi gert athugasemdir við fyrirhugaða rafskautaverksmiðju Reyðaráls gerir Skipulgasstofnun í úrskurði sínum ekki skilyrði um að þar verði notuð besta fáanlega tækni. Hér er þó ekki við Skipulagsstofnun að sakast heldur við þá aðila sem sendu stofnuninni athugasemdir sem og sérfræðinga þeirra, að undirrituðum meðtöldum, fyrir að hafa ekki útskýrt fyrir stofnuninni hversu skýr krafan um notkun bestu fáanlegrar tækni er í íslenskum reglugerðum. Skipulagsstofnun kveður upp úrskurð sinn á grundvelli fyrirliggjandi gagna og það er umsagnaraðila að tryggja að stofnunin hafi öll nauðsynleg gögn undir höndunum til þess að geta kveðið upp “réttan” úrskurð. Þó það kunni að vera full seint er það vel þess virði að benda á þær reglugerðir sem um málið fjalla.
Lög og reglugerðir um bestu fáanlegu tækni
Í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er að finna skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni. “Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.”
Takið eftir því að í skilgreiningunni er ekki vísað til alþjóðlegra staðla eða samþykkta um losunarmörk og loftgæði heldur er vísað í hefðbundna þýðingu á orðunum þremur.
Sú tækni sem Norsk Hydro notar við rafskautaverksmiðju sína í Sunndal er betur til þess fallin að vernda alla þætti umhverfisins en tæknin sem Reyðarál hyggst nota. M.ö.o. er tækni Reyðaráls ekki sú besta, samanber skilgreiningu hér að ofan. Norsk Hydro notar umrædda þriggja þrepa hreinsun við rafskautaverksmiðju sína í Sunndal auk þess sem samskonar tækni er notuð í flestum (ef ekki öllum) Söderberg álverum í Noregi. Þannig er hér um aðgengilegan tækjakost (tækni) þróaðan í viðkomandi atvinnugrein að ræða. Þar með er umrædd tækni fáanleg, samanber skilgreininguna hér að ofan. Krafan um notkun bestu fáanlegu tækni kemur m.a. fram í gr. 13.1 í reglugerð 785/1999, þar segir:
“Í starfsleyfum skal gera kröfu um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því og IV. viðauka. Ef sett eru strangari gæðamarkmið fyrir umhverfið en hægt er að uppfylla með bestu fáanlegu tækni skal krefjast viðbótarráðstafana í starfsleyfi.”
Takið eftir því að hér er ætlast til þess að í starfsleyfi sé farið frammá viðbótarráðstafanir umfram bestu fáanlegu tækni sé þörf á því vegna strangra gæðamarkmiða. Í greininni er þó ekki heimild til þess að víkja frá kröfunni um bestu fáanlegu tækni jafnvel þó svo að hægt sé að uppfylla sett gæðamarkmið án þess að nota hana. Deila má um hvað átt er við með “… þar sem slíkt hefur verið skilgreint …” en sé gengið út frá hinni almennu skilgreiningu laga nr. 7/1998 er ljóst að þriggja þrepa hreinsun er betri kandídat en fyrirhuguð hreinsun Reyðaráls.
Í reglugerð nr 790/1999 um brennisteinsdíoxíð og svifryk í andrúmslofti koma tvær af þremur meginreglum reglugerðarinnar inná þessi mál.
gr. 5.1 “Halda skal loftmengun af völdum brennisteinsdíoxíðs og svifryks í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.”
gr. 5.2 “Í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs og svifryks í andrúmslofti skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun af völdum brennisteinsdíoxíðs og svifryks og beita til þess bestu fáanlegu tækni.”
Takið eftir að hér er umdeilanlega orðalagið “… þar sem slíkt hefur verið skilgreint …” (úr gr. 13.1 í reglugerð 785/1999) ekki til staðar og því eðlilegt að ganga út frá hinni almennu skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni í lögum nr. 7/1998.
Lokaorð
Að ofansögðu má leiða að því líkum að það leiki vafi á hvort fyrirhugaður búnaður Reyðaráls við rafskautaverksmiðjuna standist lög nr 7/1998 og þær reglugerðir sem um málið fjalla. Ef úrskurður Skipulagsstofnunar verður kærður hlýtur umhverfisráðherra að skoða þessi mál vandlega. Að veita Reyðaráli heimild til þess að nota lakari mengunarvarnir en Norsk Hydro notar í Sunndal í Noregi væru óneitanlega ákveðin stefnubreyting stjórnvalda þar sem hingað til hefur verið lögð áhersla á notkun bestu fáanlegrar tækni.
Bergur Sigurðsson
umhverfisefnafræðingu