Gæti mér hafa dottið það í hug að ég fengi bréf frá skattinum tveimur dögum fyrir útsendingu álagningarseðla þess efnis að maður hafi vantalið til skatts, þar sem hundurinn liggur grafinn í ófullkomnu upplýsingakerfi stofnana hins opinbera gagnvart skattayfirvöldum, þar sem óvart voru skráðar á mig tekjur sem ekki voru tekjur.

Ég var svo heppinn að hitta fyrir fulltrúa hjá skattinum í mínu umdæmi sem er virkilega starfi sínu vaxinn, en sá hinn sami gekk í það að leita upplýsinga hjá viðkomandi stofnun, að fenginni minni útskýringu, en stofnunin tók til við það að týna til upplýsingar þess efnis að ég hefði ekki vantalið til skatts, sem ég sótti og keyrði á skattstofuna.

Mér var í fyrstu bent á það að kæra en ég þverneitaði því sökum þess að við mig var ekki að sakast og annarra að leiðrétta sín mistök, í þessu efni og kæruferli hvers konar þýðir margra vikna bið, og þess konar bið hef ég ekki efni á og ætla mér ekki að bera tjón af mistökum stofnana hins opinbera til skattskila.

Ég kynnti mér málin á hinum ýmsu stöðum varðandi ábyrgð viðkomandi aðila og fékk um það upplýsingar hjá Ríkisskattsjóra að viðkomandi stofnun bæri ábyrgð, varðandi rétta upplýsingagjöf til skattayfirvalda.

Ég á því von á því að leiðrétting eigi sér stað fljótlega en hins vegar ef það dregst þá mun ég óska bóta fyrir það tjón sem ég hefi orðið fyrir af hálfu þeirra sem ábyrgð bera.

Ég vona að ekki séu fleiri í sömu sporum og ég en ef svo væri þá endilega ígrundið ykkar stöðu sem einstaklingar, sem ekki eigið að bera skaða af því að stofnanir hins opinbera, eða önnur fyrirtæki skili ónógum eða röngum upplýsingum til skattayfirvalda.

með góðri kveðju.
gmaria.