Engum blandast hugur um það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var persónulegur sigurvegari borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík, 25. maí sl. Fólk kaus almennt R-listann til að tryggja henni áframhaldandi setu á borgarstjórastóli, en lét sig lítið varða almennar staðreyndir um R-listann sem slíkan og stjórnun hans á borginni. Þetta var persónukosning og Sjálfstæðismenn áttu einfaldlega í baráttu við borgarstjóra sem nýtur trausts og virðingar meðal borgarbúa. Þrátt fyrir mannkosti Björns Bjarnasonar og beittar auglýsingar flokksins í kosningabaráttunni fóru kosningarnar á þann veg að Ingibjörg hafði sigur á afgerandi hátt.

Ingibjörg Sólrún hefur nú eftir sigur í þrennum borgarstjórnarkosningum, nokkuð góða pólitíska stöðu. Hún er almennt talin vonarstjarna vinstrimanna og er talin vera eina manneskjan sem líkleg sé til að leiða flokkinn á sigurbraut í komandi þingkosningum og þá væntanlega í suðurkjördæmi borgarinnar. Þrýstingur vex stöðugt á Ingibjörgu um að gefa kost á sér fyrir næstu kosningar, sl. laugardag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Margréti Björnsdóttur þar sem hún hvetur borgarstjórann til framboðs, en áður hafa t.d. Eiríkur Bergmann Einarsson og Össur Skarphéðinsson ljáð máls á því að hún leiði lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.

Þetta er allt nokkuð slétt og fellt og væri gulltryggt ef ekki væri bræðingsbandalag þriggja flokka í R-listanum. Vandi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er einmitt sá að með framboði væri hún að gefa pólitískum samherjum sínum hjá Framsóknarflokki og VG, í R-listanum, langt nef, svo skömmu eftir að hún vinnur kosningasigur með þeirra stuðningi. Hún lýsti yfir í upphafi kosningabaráttunnar að hugur hennar stæði til þess að sitja í borgarstjórn á þessu kjörtímabili, en þegar fylgismunur milli stóru fylkinganna minnkaði sagði hún að hún myndi sitja á stóli borgarstjóra til 2006, ef R-listinn hlyti hreinan meirihluta. Ingibjörg Sólrún nýtur slíkrar stöðu að R-listasamstarfið stendur og fellur með henni, og hefur hangið saman hennar vegna í rúm 8 ár. Fari hún í landsmálin og léti af embætti borgarstjóra er hætt við því að svo fari að samstarf R-listaflokkanna tvístrist í frumeindir og meirihluti bræðingsbandalagsins falli, enda gengi hún þar með á bak orða sinna úr kosningabaráttunni. Völd og áhrif hafa í tæpan áratug tengt saman alla pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, án hins vinsæla leiðtoga er hætt við að margir geri tilkall til hennar valdasess.

Undir þessar pælingar flestra stjórnmálaspekúlanta tekur t.d. Stefán Pálsson í grein sinni á Múrnum, en þar segir hann orðrétt; “Það er hins vegar morgunljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur skuldbundið sig til að vera borgarstjóri til ársins 2006. Stjórnmálamaður sem ætlar að láta að sér kveða getur ekki gengið svo klárlega á bak orða sinna og hún mundi gera ef hún sneri sér að landsmálum núna. Samningur sá sem flokkarnir þrír sem standa að Reykjavíkurlistanum gerðu með sér kveður einnig á um það að Ingibjörg skuli verða borgarstjóri út þetta kjörtímabil. Rjúfi hún þann samning er ljóst að hann verður að endurskoða frá grunni og óvíst er þá um áframhaldandi samstarf meirihlutans í Reykjavík. Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn voru ekki að nýta krafta sína fyrir síðustu borgastjórnarkosningar til að opna dyr fyrir Ingibjörgu Sólrúnu til að gerast leiðtogi Samfylkingarinnar á landsvísu”. Það er ekki hægt að skilja skrif Stefáns Pálssonar nema á einn veg. Ef borgarstjórinn fer í landsmálin er VG ekki bundið af áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokk og Samfylkinguna og mun jafnvel leita annað eftir meirihlutasamstarfi. Flokkurinn t.a.m. eiga erfitt með að sjá t.d. Stefán Jón Hafstein sem eftirmann hennar.

Það er því ekki nema von að Ingibjörg Sólrún hugsi málin vel og innilega í sumarblíðunni, það er mikið í húfi, pólitískt fyrir hana og að mörgu að hyggja. Vill hún leiða Samfylkinguna í suðurkjördæminu og með því verða leiðtogi flokksins á þingi, t.d. í stjórnarandstöðu? Það verður mjög athyglisvert að fylgjast með hver ákvörðun borgarstjórans í Ráðhúsinu við Tjörnina, verður. Endanleg ákvörðun hennar verður umdeild, hvort sem hún fer í framboð eður ei, ef hún fer ekki í framboð bregst hún trausti flokkssystkina sinna sem telja hana einu von flokksins í borginni, með framboði bregst hún trausti stuðningsmanna R-listans og samherja hjá hinum R-listaflokkunum. Ákvörðunin verður því henni erfið, hver svo sem hún verður að lokum.

political@visir.is
kasmir.hugi.is/political